Yfir helmingur landsmanna telur miklivægt að Íslendingar eignist nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt nýrri könnun MMR. 52 prósent aðspurðra sögðu frekar eða mjög mikilvægt að ný stjórnarskrá yrði sett á kjörtímabilinu. Sambærileg könnun var framkvæmd í september 2017 og hefur hlutfall þeirra sem segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá minnkað um ríflega 4 prósentustig síðan þá.
Könnunin var framkvæmd dagana 18. til 22. október og var spurt um mikilvægi þess að „Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili“. Rétt er að taka fram að samkvæmt gildandi stjórnarskrá er ekki hægt að staðfesta breytingar á stjórnarskránni eða samþykkja nýja stjórnarskrá öðruvísi en með samþykki tveggja þinga, þ.e. á tímabili sem nær yfir meira en eitt kjörtímabil.
Alls 34 prósent aðspurðra sögðu mjög mikilvægt að ný stjórnarskrá yrði sett og 18 sögðu það frekar mikilvægt. 19 prósent aðspurðra töldu það hvorki mikilvægt né lítilvægt að sett yrði ný stjórnarskrá, 11 prósent töldu það frekar lítilvægt og 18 prósent mjög lítilvægt.
Konur eru almennt frekar á því að setning nýrrar stjórnarskrár sé mikilvæg en 56 prósent þeirra er þeirrar skoðuna borið saman við 49 prósent karla. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksin voru minnst áfram um að breytingar yrðu gerðar, aðeins 13 prósent kjósenda fyrrnefnda flokksins og 15 prósent kjósenda síðarnefnda flokksins voru því fylgjandi.
Langminnstur stuðningur er við slíkar breytingar í röðum kjósenda Sjálfstæðisflokks, 66 prósent telja slíkar breytingar lítilvægar, og 59 prósent kjósenda Miðflokksins eru á sama máli. Aftur á móti telja 89 prósent kjósenda Pírata að slíkar breytingar séu mikilvægar og 84 prósent kjósenda Flokks fólksins.
Athugasemdir