Undanfarna daga hafa staðið yfir margskonar hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Á hátíðarsamkomu var lesin upp inngangur stjórnarskrár sem Stjórnlagaráð samdi á grunni 1000 manna þjóðfundar og 600 blaðsíður vandaðrar skýrslu sem stjórnlaganefnd vann. Þessi nýja stjórnskrá var borinn undir þjóðina þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 2/3 kjósenda samþykktu að nýta ætti drög Stjórnlagaráðs til endurnýjunar núverandi stjórnarskrár. En við töpuðum fullveldinu aftur þegar Alþingi kaus að hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðis um nýja Stjórnarskrá 20. október 2012.
„Stjórnarskrá hvílir ekki á ákvörðun þeirra sem fara með ríkisvald heldur á ákvörðun þjóðarinnar sem er grundvöllur ríkisvaldsins; og ríkisvald án stjórnarskrár er vald án réttlætingar,“ sagði Thomas Paine, stjórnspekingur, árið 1791. Íslensk þjóð er ósátt við málflutning þingmanna og ráðherra um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ráðherrar hafa meðal annars sagt að Alþingi þurfi að athuga hvort hleypa eigi almenningi að endurskoðun stjórnarskrárinnar og fullyrða að það sé íslenska ríkið sem sé fullvalda, en íslenska þjóðin sé það hins vegar ekki. Í lýðræðisríkjum er það þjóðin sem setur Alþingi ramma með stjórnarskrá, ekki öfugt.
Fjórflokkurinn hefur allt frá lýðveldisstofnun vikið sér undan endurskoðun stjórnarskrárinnar og hefur endurtekið svæft málið með því að skipa hverja nefndina á fætur annarri. Í baráttunni við þjóðina hafa talsmenn fjórflokksins haldið því fram að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarskránni, hún sé svo „listilega smíðuð“, og það er jafnvel gengið svo langt að fullyrða að hún sé „helgur gjörningur“, hvorki meira eða minna. Það liggur hins vegar fyrir að við stofnun lýðveldisins í miðju stríði skipti það öllu að þjóðin sýndi í verki einhug með því að samþykkja einróma og án átaka fyrirliggjandi þýðingu á dönsku stjórnarskránni sem stjórnarskrá hins nýja lýðveldis. Í þeirri stöðu og tímaþröng var einungis hægt að breyta því sem yrði að breyta það er ástæða þess að rússnesk kosning náðist í þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar þjóðin kaus vorið 1944 um sambandsslit og lýðveldisstofnun. Stjórnarskrárnefnd Alþingis var um leið falið að semja frumvarp að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni sem gengju síðar í gildi.
Í þessu sambandi má rifja upp ummæli leiðandi stjórnmálamanna. Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki sagði: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis … Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf.“ Jakob Möller Sjálfstæðisflokki sagði : „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“
Tillögur Stjórnlagaráðs eru grundvallaðar á niðurstöðum fjölmargra stjórnlaganefnda
Það er ljóst að danska stjórnskráin hefur aldrei verið listileg smið í augum þjóðarinnar. Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“
· Sjálfstæðismenn lögðu til að „ef ekkert forsetaefni fær hreinan meirihluta við þjóðkjör, skuli kjósa að nýju milli þeirra tveggja, sem flest fengu atkvæði.“ Í samþykktu frumvarpi Stjórnlagaráðs stendur: „Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti.“
· Sjálfstæðismenn lögðu til að „annað hvort forseti hæstaréttar eða forseti sameinaðs þings verði varaforseti“. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs segir: „Geti forseti Íslands ekki gegnt störfum um sinn vegna heilsufars eða af öðrum ástæðum fer forseti Alþingis með forsetavald á meðan.“
· Sjálfstæðismenn lögðu til að „hæstiréttur dæmi í stað landsdóms um þau mál, er Alþingi höfðar gegn ráðherrum fyrir embættisrekstur þeirra.“ Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er meðferð ráðherraábyrgðarmála færð frá landsdómi til almennra dómstóla.
· Sjálfstæðismenn lögðu til að „forsetinn skipi ráðherra og veiti þeim lausn í samráði við meirihluta Alþingis.“ Í frumvarpi Stjórnlagaráðs segir: „Alþingi kýs forsætisráðherra. … Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.“
· Sjálfstæðismenn lögðu til að í stjórnarskrána „verði bætt þeim mannréttindaákvæðum, sem eru í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og samningi Evrópuráðsins um mannréttindi og frelsi.“ Þetta var gert, fyrst 1995 og mannréttindakafli Stjórnlagaráðs hefur hlotið góðan hljómgrunn hjá þjóðinni.
· Sjálfstæðismenn lögðu til að „að rétti héraða og sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum … skuli skipað með lögum, enda sé að því stefnt, að þau fái sem víðtækasta sjálfstjórn í þeim málum, er þau sjálf standa fjárhagslegan straum af.“ Þessi ákvæði eru í samþykktu frumvarpi Stjórnlagaráðs.
· Bjarni Benediktsson sagði um kjördæmaskipanina „Kosningaréttur sé svo jafn sem þjóðarhagir og staðhættir leyfa. Enginn landshluti hafi færri þingmenn en hann nú hefur, en þingmönnum verði fjölgað á hinum fjölmennari stöðum eftir því sem samkomulag getur fengizt um við heildarlausn málsins …“ Hér afhjúpar Bjarni gallann á að stjórnmálamenn skipti sér af endurskoðun stjórnarskrárinnar enda segir hann „ekki dugir að láta strjálbýlið bera fjöldann í þéttbýlinu slíku ofurliði, að hagsmunir fjöldans séu fyrir borð bornir.“ Samþykkt frumvarp Stjórnlagaráðs kveður á um jafnt vægi atkvæða alls staðar á landinu.
Þjóðin samþykkti tillögur stjórnlagaráð með allt að 90 prósentum í þjóðaratkvæðagreiðslu
Valdakjarni fjórflokksins setti sig upp á móti 1.000 manna þjóðfundi, sama átti við um niðurstöðu Stjórnlaganefndar sem hún vann meðal annars á grunni stjórnarskrárnefnda Alþingis og skilaði 600 blaðsíðna skýrslu rökstuddri með tilvitnunum til allra helstu breytinga sem gerðar hafa verið á stjórnarskrám lýðræðisríkja undanfaran áratugi. Valdakjarninn var einnig á móti kosningu Stjórnlagaþings og skipan Stjórnlagaráðs. Valdakjarninn lýsti því yfir fyrirfram að hann myndi verða á móti öllu sem kæmi frá Stjórnlagaráði. Það birtist í þeim hamförum sem hún fór gegn almennri kosningu til Stjórnlagaþings þar sem 530 einstaklingar gáfu kost á sér. Allt var gert til þess að letja fólk til þess að mæta á kjörstað.
· Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er lagt til að færa valdið til þjóðarinnar. Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka. Í nýrri stjórnarskrá er lagt til að þessu verði breytt. Alræði ráðherra og embættismanna þeirra er minnkað í frumvarpi Stjórnlagaráðs og þingræðið styrkt.
· Í auðlindaákvæðinu í nýju stjórnarskrárfrumvarpi segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Þetta orðalag er í samræmi við við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hún gaf um kvótakerfið á Íslandi 2007. Í rökstuðningi mannréttindanefndarinnar er vitnað til 1. greinar íslenskra laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, er segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“
· Ítrekað hefur verið bent á nauðsyn þess að bæta ákvæði um forsetakjör, um náttúruna og auðlindirnar, landsdóm auk atriða sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, til dæmis um ráðherraræðið og veika stöðu þingmanna. Í dag er það háð geðþóttavaldi hvernig farið er með málskotsréttinn. Það er ekki einvörðungu forseti sem velja á hvenær það ákvæði eigi að gilda og hvenær ekki. Auk þessa má benda á þær spurningar sem eru uppi um hvar stjórnarmyndunarumboðið liggi. Það liggur hins vegar fyrir að á öllum þessum þáttum er tekið í frumvarpi Stjórnlagaráðs.
· Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka og liðlega helmingur alþingismanna þarf aldrei að óttast næstu kosningar. Þeir eru í öruggum sætum, sem úthlutað er af flokkskrifstofum valdaflokkanna. Í nýrri stjórnarskrá er lagt er til að þessu verði breytt. Alræði ráðherra og embættismanna þeirra er minnkað og þingræðið styrkt. Fjórflokkurinn fer hamförum gegn þessum breytingum, í því felst of mikil valdatilfærsla til þjóðarinnar að mati valdakjarna fjórflokksins.
· Náttúra Íslands var ofarlega á áherslulista Þjóðfundar og var því á borðum Stjórnlagaráðs í vinnu við endurskoðun Stjórnarskrár. Í 33. grein stendur meðal annars að náttúra Íslands sé undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Í því felst að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru.
· Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi. Í þessu felst, að réttur manna á heilnæmu umhverfi og réttur náttúrunnar haldast í hendur. Náttúruvernd nær yfir hvort tveggja. Því er eðlilegt að blandað sé saman náttúruvernd og rétti manna á heilnæmu umhverfi til að hnykkja á gagnkvæmum rétti manna og náttúrunnar.
· Hugtakið „óspillt náttúra“ vísar til þess að hver maður eigi rétt til þess að hluti náttúrunnar í umhverfi hvers manns verði skilinn eftir eins óspilltur og aðgengilegur almenningi og verða má. Með þeim hætti geti maðurinn haldið tengslum við náttúruna og átt óspillt griðland í henni. Ekki er girt fyrir að hróflað sé við náttúrunni né heldur komið í veg fyrir að mannvirki séu reist eða gæði náttúrunnar séu hagnýtt með eðlilegum lögbundnum takmörkunum. Með nýjum ákvæðum Stjórnarskrár er reynt að tryggja við og afkomendur okkar eigi rétt á óspilltri náttúru og aðgengi að henni í sínu nánasta umhverfi.
· Því hefur verið haldið fram að orðalagið óspillt náttúra sé mannhverf nálgun og byggist á sjónrænu mati og blandað sé saman náttúruvernd og rétti manna á heilnæmu umhverfi. Í orðalaginu „óspillt náttúra“ felst ekki endilega mannhverf nálgun. Réttur manna á heilnæmu umhverfi og réttur náttúrunnar haldast í hendur og hnykkja á gagnkvæmum rétti manna og náttúrunnar.
Athugasemdir