Það er fráleitt að halda því fram að þingmenn sem fengu meira en 30 þúsund kílómetra aksturskostnað endurgreiddan frá Alþingi í fyrra hafi gerst brotlegir við siðareglur. Þetta segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Í 6. gr. reglna um þingfararkostnað sem tóku gildi síðla árs 2016 segir: Þegar alþingismaður þarf að aka meira en 15.000 km á ári í starfi sínu skal hann fá til afnota bílaleigubifreið sem skrifstofa Alþingis leggur til.
Samkvæmt siðareglum þingmanna ber þeim að sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál, þ.e. reglur um þingfararkostnað.
Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason og fleiri þingmenn keyrðu hins vegar um tvöfalt lengri vegalengdir á eigin bifreiðum í fyrra og fengu kostnaðinn endurgreiddan.
Helgi Bernódusson og forsætisnefnd telja að líta verði til þess að þá hafi enn hafi verið í gangi innleiðing á reglum um bílaleigubíla, reglum sem voru settar árið 2016.
Innleiðingunni hafi ekki lokið fyrr en í febrúar 2018 og þingmenn hafi á þessu tímabili átt í samskiptum við þingskrifstofuna um framkvæmd reglnanna.
Helgi Bernódusson segir að eftir því sem skrifstofu Alþingis sé kunnugt um hafi enginn þingmaður gert tilraun til að fá endurgreiðslu fyrir akstur sem hann átti ekki rétt á samkvæmt lögum og reglum, enda hefði slíkt aldrei viðgengist athugasemdalaust.
Hann bendir á að alls kyns spurningar hafi vaknað um framkvæmd reglna um notkun bílaleigubíla, svo sem hvað varðar tryggingar, einkanot, tegundir bíla, notkunartíma og eldsneytiskaup. Jafnframt hafi þótt rétt að miða breyttar reglur við þingkosningar og því hafi verið unnið að setningu vinnureglna eftir kosningarnar 2017 þar sem úr vafaatriðum væri skorið.
„Allir reikningar þeirra voru greiddir, skv. ákvörðun skrifstofunnar og eftir yfirferð hennar, meðan hið nýja fyrirkomulag var að komast á. Í því fólust engin brot á siðareglum“
„Það er alveg fráleitt að þeir þingmenn, og þeir voru þó nokkrir, sem héldu áfram akstri á eigin bílum eftir kosningarnar 2017, hvort sem var í heimanakstri eða tilfallandi akstri, hafi með því brotið siðareglur. Allir reikningar þeirra voru greiddir, skv. ákvörðun skrifstofunnar og eftir yfirferð hennar, meðan hið nýja fyrirkomulag var að komast á. Í því fólust engin brot á siðareglum, enda stóðu yfir samtöl og samskipti milli viðkomandi þingmanna og skrifstofunnar á þessum tíma. Um þetta má lesa í greinargerð þeirri sem skrifstofan tók saman í lok febrúar á þessu ári að beiðni forsætisnefndar og lesa má á vef Alþingi.“
Helgi bendir á að í meginreglum Alþingis um þingfararkostnað segi að jafnan skuli leita hagkvæmustu leiða í ferðakostnaði, bæði innan lands og utan. Alþingismenn eigi lögbundinn rétt á að þeim sé endurgreiddur ferðakostnaður „í tengslum við störf“ þeirra. „Innan þess ramma er unnið,“ segir Helgi.
Athugasemdir