Það sem af er ári hefur 71 mál verið bókað hjá lögreglu vegna tilvika þar sem einstaklingur telur sér hafa verið byrluð ólyfjan. 78 tilvik voru í fyrra og er það metfjöldi. Ráðherra telur ákvæði í lögum fullnægjandi.
Þetta kemur fram í svari Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Spyr hann um tilvik þar sem einstaklingur hefur tilkynnt um brot þar sem honum hefur verið byrlað lyf sem dregur úr meðvitund hans, sjálfstjórn eða getu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Í svarinu kemur fram að ekki sé um staðfesta tölfræði að ræða þar sem byrlun ólyfjan er ekki skráð í málaskrárkerfi lögreglu sem sérstakt frumbrot.
„Hafa ber ríkan fyrirvara á þessum tölum,“ segir í svari ráðherra. „Í fyrsta lagi er alls ekki alltaf um brot að ræða, heldur er leitað til lögreglu vegna gruns um byrlun án þess að annað brot hafi átt sér stað. Þessi tilvik eru því ekki staðfest og í raun ekki hægt, með einföldum hætti, að nálgast upplýsingar úr kerfum lögreglu um fjölda tilvika þar sem sýni var tekið til að rannsaka mögulega byrlun og hver niðurstaða þeirrar greiningar var. Þá er ekki ljóst hvað veldur fjölgun tilvika á tímabilinu en líklega er um að ræða vitundarvakningu frekar en raunfjölgun tilvika.“
Ár | Fjöldi mála |
2007 | 16 |
2008 | 17 |
2009 | 21 |
2010 | 25 |
2011 | 23 |
2012 | 32 |
2013 | 38 |
2014 | 70 |
2015 | 63 |
2016 | 51 |
2017 | 78 |
Í svarinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra liggi ekki fyrir verklagsreglur um meðferð og skráningu þessara mála. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur gert drög að slíku verklagi, þar sem áhersla er lögð á að bæta skráningu þessara tilvika, en það hefur ekki verið innleitt hjá embættinu.
„Ráðherra treystir lögregluyfirvöldum til að halda utan um skráningar brota og bregðast við tilkynningum í samræmi við lög og reglur,“ segir í svarinu. „Það er mat ráðherra að ákvæði almennra hegningarlaga séu fullnægjandi að því er snertir þá háttsemi að byrla einhverjum ólyfjan,“ segir í svarinu.
Athugasemdir