Fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun á lífsleiðinni og sama hlutfall hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi. Þetta kemur fram í fyrstu niðurstöðum rannsóknarverkefnisins Áfallasaga kvenna.
Rannsóknin hófst á vegum vísindamanna við Háskóla Íslands í vor. Niðurstöðurnar sýna einnig að ríflega 40 prósent þátttakenda í rannsókninni eiga sögu um framhjáhald eða höfnun af hendi maka og svipað hlutfall hefur orðið fyrir andlegu ofbeldi eða einelti. Einn af hverjum sex þátttakendum í rannsókninni á að baki lífshættuleg veikindi eða meiðsl og um það bil þriðjungur erfiða fæðingarreynslu.
Í nóvember munu um 60 þúsund konur um allt land fá boð um þátttöku í rannsókninni, en forsprakkar hennar eru Unnur Valdimarsdóttir og Arna Hauksdóttir, prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands. Öllum konum á Íslandi, 18 ára og eldri, býðst að taka þátt í rannsókninni með því að svara rafrænum spurningalista um áfallasögu sína og heilsufar á vefnum afallasaga.is. 23 þúsund konur hafa nú þegar svarað spurningalistanum.
„Það er hugsanlegt að konur með áfallasögu kjósi frekar að taka þátt í rannsókninni en hins vegar verður að hafa í huga að í kjölfar aukinnar opinnar samfélagsumræðu um kynbundið ofbeldi, sem birtist okkur m.a. í #metoo byltingunni, verður ákveðið endurmat meðal kvenna á upplifunum sínum. Það er því einnig hugsanlegt að þetta háa hlutfall endurspegli raunverulega tíðni þessara áfalla meðal kvenna á Íslandi. Frekari gagnasöfnun frá fleiri konum og gagnagreining á komandi mánuðum mun leiða það í ljós,“ segir Unnur.
Athugasemdir