Dóttursonur minn, sem er alinn upp hjá okkur afa hans, var handtekinn af lögreglu á skólaballi fyrir rúmu ári síðan, þá liðlega 17 ára gamall. Ég hef alltaf getað treyst honum og hann hefur sýnt það að hann ber ábyrgð á sjúkdómi sínum og er því jafnan óhrædd um að hann skili sér ekki heim eða láti vita af sér ef eitthvað kemur upp á.
Ástæðan mun hafa verið að starfsmaður í Kaplakrika í Hafnarfirði, þar sem svokallað busaball var haldið, kom að honum inni á klósetti þar sem hann var að sprauta sig með insúlíni. Hann virðist hafa tekið því sem gefnu að drengurinn væri sprautufíkill og væri að sprauta sig með eiturlyfjum. Hann fór með hann í svokallað dauðaherbergi, en þangað fara eftirlitsmenn með unglinga sem eru áberandi drukknir og gæsluaðilar sem keyptir eru af nemendafélögum til vörslu hafa það hlutverk að gæta þeirra þar til foreldrar koma og ná í unglinga undir átján ára aldri. Þar var tekið á móti drengnum og honum haldið þar nauðugum og komið fram við hann af fádæma vankunnáttu og fruntaskap. Hann mun hafa verið ósáttur við að fá ekki að fara þaðan, enda bæði ódrukkinn og vitaskuld ekki undir áhrifum efna.
Ég tek það sérstaklega fram að það á enginn, hvorki sprautusjúklingar eða sykursjúkir unglingar, að sæta slæmri meðferð af hálfu lögreglu. Það virðist vera lenska hjá lögreglumönnum að taka harkalega á fólki hvort sem það veitir mótspyrnu eður ei.
„Járn var þá sett á annan úlnlið hans og var hann dreginn eftir göngum fangageymslu og kastað inn í klefa“
Eðli málsins samkvæmt brást dóttursonur minn illa við og braust um. Hringt var í lögreglu sem setti hann í járn aftur fyrir bak og fór með hann í fangageymslur. Hann fékk ekki neinar skýringar á þeirri meðferð sem hann hlaut. Hann var bæði æstur og reiður og neitaði að láta loka sig inni í fangaklefa. Járn var þá sett á annan úlnlið hans og var hann dreginn eftir göngum fangageymslu og kastað inn í klefa.
Þennan dag, 24. ágúst, hafði ég með löngum fyrirvara ákveðið að fara vestur í Dýrafjörð, en fyrir óútskýranlega tilfinningu sem ég upplifði, ákvað ég um hádegi skömmu fyrir brottför að koma frekar með flugi daginn eftir og bar fyrir mig að ég þyrfti eitt og annað að gera áður. Skólaballið var haldið í Hafnarfirði og þar sem ég var á leið út úr bænum, afi hans farinn vestur, var ákveðið að hann færi beint til dóttur minnar sem býr í Garðabæ eftir dansleikinn.
Ég var því algjörlega frjáls og áhyggjulaus heima þegar hringt var til mín af lögreglu klukkan liðlega tvö eftir miðnætti. Í símanum var lögreglumaður sem sagðist vera með dreng í fangageymslu og spurði hvort ég væri amma hans. Mér var mjög brugðið og spurði hvort hann hefði verið að drekka. Hann svaraði neitandi en bætti við með auðheyrðri fyrirlitningu að það væri augljóst að hann hefði innbyrt eitthvað annað en áfengi, það væri ekki nein lykt af honum en það leyndi sér ekki að hann væri í annarlegu ástandi og með froðu í munnvikum.
Mér var mjög brugðið, sagði drenginn vera með sykursýki eitt og óskaði eftir að kallað yrði strax á lækni eða sjúkrabíl til að kanna ástand hans. Ég vissi betur, hvað svo sem hann segði, að dóttursonur minn væri ekki undir áhrifum, því á milli okkar ríkir traust. Það var lítið um svör en ég sagðist koma eins og skot, en ég væri í Hveragerði en ég myndi koma eins fljótt og mér væri auðið. Ítrekaði aftur að það væri nauðsynlegt að kanna ástand hans því hann gæti verið í lífshættu.
Þegar ég kom eftir lífshættulegan hraðakstur til Reykjavíkur og hringdi bjöllu við dyr inn í fangageymslu, kom fangavörður niður til mín og tjáði mér að ég hefði ekki leyfi til að koma inn í fangageymslu lögreglu.
Ég brást hvumsa við, enda hef ég oftar en ég man setið í kaffi hjá móður minni sem lengi var fangavörður í þessari sömu fangageymslu, gengið um lögreglustöðina aftur og fram að leita systur minnar sem þar starfaði einnig lengi. En það eru augljóslega breyttir tímar, enda hefði atburður sem ég hér lýsi ekki getað átt sér stað á meðan móðir mín starfaði hjá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík.
Á meðan fangavörðurinn útskýrði fyrir mér að ég mætti ekki fara inn, heyrði ég neyðaróp drengsins. Það mun hafa verið þegar ég stóð fyrir utan, en eigi að síður hleyptu þeir honum á salerni eftir að hann hafði þurft að kasta af sér vatni inni í klefanum. Þeir sem þekkja til sykursýki vita hvernig þvaglátum er háttað, einkum ef ekki er jafnvægi á sykrumagni og insúlíni.
Ég varð þess raunar vör að um leið og umræddur fangavörður sá mig, breyttist framkoma hans. Mér er ekki kunnugt um hvers vegna, nema að hugsanlega hef ég rætt við hann á þrjátíu ára blaðamennskuferli mínum eða hann þekkti svip minn af systur og móður. Hann var mjög tvístígandi, sagði að þeir réðu ekki við drenginn og treystu sér ekki til að færa hann niður til mín.
„Ég ræddi við manninn í mestu kurteisi og spurði hann hvers vegna drengurinn væri í fangaklefa og hví ekki hefði verið hringt í mig fyrr“
Ég ræddi við manninn í mestu kurteisi og spurði hann hvers vegna drengurinn væri í fangaklefa og hví ekki hefði verið hringt í mig fyrr. Hann hafði í raun engin svör við því en sagði drenginn hafa verið mjög reiðan og meðal annars bitið lögreglumann og brotist um.
Ástæðuna kvað hann vera þá að drengurinn neitaði að hreyfa sig þar sem hann spyrnti við því að vera lokaður inni og lagðist á gólfið. Hann gat ekki svarað hvers vegna hann hefði ekki mátt liggja í friði á gólfinu þar til ég kæmi. Ekki heldur hvers vegna þeir hefðu ekki reynt að róa hann, gefa honum að drekka, sýna honum vinsemd og blíðu í stað hörku, hroka og beita ofbeldi. Eðli málsins samkvæmt leiðir það til átaka þegar barist er um og spyrnt við fótum.
Aðspurður um hvort fangaverðir og lögreglumenn fengju enga þjálfun í að eiga við unglinga, kvað hann svo vera. Það hefði því miður ekki verið um neitt annað að ræða fyrir þá þar sem drengurinn barðist um á hæl og hnakka þegar hann var handtekinn. Ég sagði það ekki einkennilegt, hann væri aðeins unglingur og það væru eðlileg viðbrögð saklausra unglinga og raunar allra að berjast um við handtöku.
Eftir dágóða stund og vangaveltur fangavarðar um hvernig hægt yrði að snúa sér í þessu máli gat ég sannfært hann um að það væri ekkert annað í stöðunni en ég færi upp og næði í drenginn. Ég þekkti minn dreng og vissi að hann myndi ekki verða til vandræða þegar ég hefði rætt við hann. Hann féllst að lokum á að fylgja mér upp.


Ég mun aldrei gleyma þeirri sýn sem við mér blasti þegar ég gekk fyrir drenginn: Hann var læstur innan rimla, blautur, kaldur, bólginn, blár og marinn og á nærbuxum einum klæða sem að auki voru blautar. Hann var í miklu áfalli og illa haldinn. Ég er ekki í vafa um að ef hann hefði sofnað þessa nótt lokaður inni í fangaklefa í því ástandi sem hann var í, hefði getað farið svo að hann hefði ekki vaknað aftur. Þann morgun hefði orðið svartur dagur hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ef umræddur fangavörður hefði ekki tekið þá ákvörðun að hleypa mér inn.
Drengurinn hegðaði sér óaðfinnanlega eftir að ég kom og gat róað hann en hann spurði í sífellu: „Amma, hvað hef ég gert, hvers vegna er farið svona með mig?“ Ég bað hann lengstra orða að vera rólegan og ganga hljóðlega með mér út, við myndum fá skýringu síðar. Á meðan einhver færði honum rifin föt hans ræddi ég við vakthafandi starfsfólk og spurði hvers vegna væri farið með ósjálfráða unglinga á þennan hátt. Lítið var um svör en ljóst að verklagsreglur lögreglu í í samskiptum við unglinga er langt frá því að vera ásættanlegt. Reglur og aftur reglur voru einu svörin sem ég fékk. Og ekki annað að heyra og sjá en það væri reglnanna vegna en ekki til neins annars sem þær væru í hávegum hafðar.
„Hann var læstur innan rimla, blautur, kaldur, bólginn, blár og marinn og á nærbuxum einum klæða sem að auki voru blautar“
Hann var vart sestur inn í bílinn þegar hann var við það að falla í kóma. Ég var ekki með sykur eða insúlín, en náði að aka á ofsahraða í Ártúnsholt og kaupa þar sykur og drykki. Sprauturnar höfðu verið teknar af honum og eins sykurmælirinn.
Við komumst heim bæði á lífi en í miklu áfalli um klukkan fimm um morgun, en strax daginn eftir fórum við til læknis sem skoðaði áverka á líkama hans og óskaði ég eftir á að hann gengist undir bæði þvag- og blóðsýni með það fyrir augum að kanna hvort einhver efni væri að finna sem gætu skýrt hvað olli. Hann reyndist hreinn af öllum efnum og kvað læknirinn að hefði hann innbyrt eitthvað sem áhrif hefði á heilastarfsemi, hefðu að minnsta kosti átt að finnast leifar þeirra úr sýnunum.
Drengurinn man ekkert frá því hann var í bíl með vinum sínum á leið á skólaballið þangað til hann var á heimleið, utan nokkurra minnisbrota án samhengis. Mjög illa reyndist að fá upplýsingar bæði hjá lögreglu og eins skólayfirvöldum. Það var ekki fyrr en mörgum dögum síðar að ég fékk einhverja mynd af því sem hafði gerst.
Ég sendi erindi til nefndar um störf lögreglu sem úrskurðaði hvort ástæða væri til að ákæra lögreglumenn fyrir brot í starfi og var erindi mitt sent til héraðsaksóknara til meðferðar. Þar var það rannsakað, en þar sem ekki reyndist vera hægt að benda á neinn einn lögreglumann umfram annan var ákveðið að ákæra ekki. Ég leit hins vegar svo á að ástæða væri til að embætti lögreglustjóra yrði látið sæta ábyrgð með það fyrir augum að farið yrði yfir allar verklagsreglur og þeim síðan breytt í kjölfarið.
„Það þýðir hins vegar að við þurfum að fara í mál við ríkið, en dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglu og ber ábyrgðina“
Það þýðir hins vegar að við þurfum að fara í mál við ríkið, en dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglu og ber ábyrgðina. Ég hef ekki enn tekið ákvörðun um að fara út í slíkt ferli. Það vakir fyrst og fremst fyrir mér að vekja athygli á að það er eitthvað mikið að innan lögreglunnar og ljóst að meðferðin sem drengurinn hlaut af hálfu lögreglu á ekki að geta gerst ef allt er í lagi. Raunar brást allt sem gat brugðist þetta kvöld. Gæslumenn, foreldrar, sem stóðu vaktina og kennarar skólans, lögregla og fangaverðir.
Fyrir þá tilfinningu mína að fara ekki burtu úr bænum þennan sama dag get ég aldrei nógsamlega þakkað. Hvaða öfl sem þar voru að verki er mér ekki ljóst. Ég fellst fremur á að almættið eða einhver mér æðri eða góðar vættir hafi varað mig við.
Ástæða þess að ég segi þessa sögu er einmitt til þess að upplýsa foreldra sykursjúkra barna um að halda vöku sinni. Það er hins vegar ekki nóg. Það er eitthvað að í kerfi þar sem sykursjúkir geta átt von á að hljóta þá meðhöndlun sem drengurinn minn hlaut. Það verður að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig ekki.
Mánuðurinn er helgaður sykursjúkum og ljóst að það þarf að fræða alla um hve þessi sjúkdómur getur verið alvarlegur og það séu fleiri en ein birtingarmynd á einkennum hans.
Athugasemdir