„N
ei auðvitað ekki,“ sagði hagfræðingurinn James K. Galbraith, aðspurður hvort Íslendingar ættu að taka upp evruna í Silfrinu í dag. „Ég sé enga ástæðu til þess. Íslendingar búa við lífvænlegan efnahag og nothæfan gjaldmiðil. Hvers vegna að láta það frá sér? Bretar tóku ekki upp evru, og það hafði í för með sér mikinn ávinning fyrir þá. Nú eru þeir í vandræðum vegna tilrauna til að ganga alfarið úr Evrópusambandinu, en það að halda sig utan evrusvæðisins var klárlega réttur leikur hjá Bretum.“
James K. Galbraith, hagfræðiprófessor við Texas-háskóla í Bandaríkjunum og þekktur pistlahöfundur, var aðalviðmælandi Silfursins í dag og fjallaði meðal annars um stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum, alþjóðavæðinguna, fjármálahrunið og Evrópusambandið.
Galbraith varaði við því að Íslendingar gengju í Evrópusambandið og beygðu sig undir fjármálareglur þess. „Jafnvel ef við lítum Skandinavíu, þá er aðeins eitt ríki með evru og það hefur búið við minni hagvöxt en hin ríkin,“ sagði hann og vísaði þar til Finnlands.
Krónan hefur veikst umtalsvert gagnvart helstu viðskiptamyntum undanfarna mánuði. Nýlega létu samtökin Já Ísland framkvæma skoðanakönnun á viðhorfum Íslendinga til krónunnar, Evrópusambandsins og upptöku evru. Niðurstaðan var sú að stuðningur við aðild að Evrópusambandinu færi vaxandi. 43 prósent sögðust fylgjandi aðild að sambandinu en 57 prósent á móti. Þá vildu 46 prósent aðspurðra taka upp evru en aðeins 36 prósent voru mótfallnir því.
Samfylkingin og Viðreisn tala eindregið fyrir upptöku evru þessa dagana og hefur Samfylkingin t.d. framleitt myndband þar sem hvatt er til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þá sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í viðtali á Bylgjunni í dag að íslenskir stjórnmálamenn væru með „hausinn í sandinum“ yfir þeim kostnaði sem heimili og fyrirtæki þyrftu að bera vegna krónunnar.
Athugasemdir