Stundum reyni ég að planleggja vikurnar mínar fyrirfram. Ég get ekki sagt að ég ætli mér stóra hluti í lífinu, en það væri gaman að læra frönsku. Þá skiptir öllu að gefa sér „le temps“.
Í viku eru 168 klukkustundir. Fyrst þarf ég að stroka út 40 stykki undir dagvinnuna, einn þriðja af virku dögunum, en það er auðvitað algjört lágmark. Svo eru það ferðalög til og frá. Ef ég fæ mér bíl þá spara ég kannski tíma. Á móti þá þarf að fara með hann í skoðun, viðgerð, taka bensín. Nú og vinna meira til að eiga fyrir honum.
Ég má ekki gleyma að borða! Ef ég ætla að borða hollt verð ég að kaupa í matinn sjálfur. Grandskoða hverja lárperu. Svo tekur tíma að elda. Ég gæti auðvitað keypt skyndibita, en það er óhollara og svo þarf ég að vinna meira til að eiga fyrir honum. Eins gott að ég er hraustur og kann íslensku og á ekki börn, annars væri þetta allt flóknara. Fjórtán tímar á viku?
Svo þarf ég að sjá vel um mig. Segjum líkamsrækt þrisvar í viku, með ferðum fram og til baka, allavega sex klukkutímar. Hugleiðsla, einn og hálfur tími á viku. Sturta á morgnana, tannheilsa, hægðir, kaffibolli, velja föt, rakstur, ekki endilega í þessari röð. Rækta samband við vini og fjölskyldu. Hlusta á Radiohead. Lesa blöðin, horfa á fréttir, halda mér upplýstum. Stara á símann í örvæntingu. Happy hour til að róa taugarnar. Happy hour eru allavega þrír tímar.
Svo sef ég frá mér þriðjunginn af sólarhringnum. Átta klukkutímar ættu að tryggja ágætis hvíld og bætta heilsu. En ég þarf að passa að verða ekki andvaka af áhyggjum, því þá missi ég svefn, næsti dagur verður erfiðari líkamlega og andlega og ég þarf meiri tíma til að klára þetta allt saman.
Hvað eru margar klukkustundir eftir? Ég næ ekki að taka það saman. Það er búið að taka alltof langan tíma að skrifa þennan pistil! Ég sleppi því bara að nota tannþráð í kvöld. Mon Dieu!
Athugasemdir