Arfleifð Gylfa Arnbjörnssonar fráfarandi forseta ASÍ og samverkamanna hans í framlínu stéttarfélaganna er sorglega stór skýring á því ferli sem flutt hefur tugi milljarða frá launafólki og velferðarþjónustunni til fjármagnseigenda.
Skattaskjól og aflandsbrask eru hluti af þeim undanskotum sem linkind verkalýðshreyfingar og beint samþykki lífeyrissjóðaelítunnar leiðir af sér. Skattfrelsi eigna og lágsköttun fjármagnstekna dugar samt ekki til að koma í veg fyrir að spákaupmenn og svindlarar taki stöður gegn íslensku krónunni. Skattatilfærslur sem gagnast ríkum fjármagnseigendum leiða til þess að byrðar barnafólks og tekjulítilla eldri borgara þyngjast meir og meir. Ósiðlegar tekjutengingar lífeyris og félagslegs stuðnings barnabóta og húsnæðisbóta leiða af sér kerfi þar sem bókstaflega er níðst á þeim sem veikastir standa í samfélaginu. Sjúklingagjöld í heilbrigðiskerfinu, sem hafa einkum verið innleidd eftir 1991, eru íslensku þjóðfélagi til skammar.
Sú þróun sem síðustu ár hafa hafa haft í för með sér í efnahagslegri skiptingu staðfestir að snúið hefur verið til baka verulegum ávinningi 40 til 50 ára frá kreppunni miklu, eftir tímabil þar sem kjarabætur og mikilvægar réttarbætur með almennri menntun og heilbrigðis- og félagsþjónustu höfðu náðst.
Niðurlæging láglaunafólks
Í stuttu máli segjum við að frjálshyggjubylgjan sem reis með valdatíma Reagan og Thatcher og sú viðskiptavæðing hagkerfa Vesturlanda skýri þessa þróun sem hér hefur verið vísað til. Það sem er athugavert, og sérstaklega hörmulegt í okkar samhengi, er að sameinuð hreyfing launafólks á Íslandi hefur bókstaflega stutt við þessa þróun. Það hefur hún gert með óbeinum hætti með samþykki sínu og með beinum hætti í gegnum þá rosalegu fjármálavæðingu sem útþensla lífeyrissjóðakerfisins leiðir af sér.
„Ruddalegar árásir gegn öðrum hópum launafólks í kjarabaráttu, ekki síst í garð opinberra starfsmanna, hefur kallað yfir Gylfa Arnbjörnsson og fráfarandi forystu ASÍ háðungarheitið launalögreglan“
Þáttur ASÍ í því sem kalla má „samræmda láglaunastefnu“ er auðvitað ámælisverður fyrir margra hluta sakir. Ruddalegar árásir gegn öðrum hópum launafólks í kjarabaráttu, ekki síst í garð opinberra starfsmanna, hefur kallað yfir Gylfa Arnbjörnsson og fráfarandi forystu ASÍ háðungarheitið launalögreglan.
Stærsta trúnaðarbrot Gylfa Arnbjörnssonar og stefnu hans gagnvart hagsmunum launafólks snýr hins vegar að dekri hans við hagfræðikenningar óheftrar markaðshyggju og viðskiptaavæðingu hagkerfisins sem áður var grundað í framleiðslu og verðmætasköpun. Þar er samstaðan með sjóðstjóravæðingu lífeyrissjóðakerfisins og braskhegðun þess kerfis til vitnis.
Þetta trúnaðarbrot Gylfa Arnbjörnssonar reis hæst og hafði suddalegastar afleiðingar með afvegaleiðandi ráðgjöf nefndar undir forystu hans við Jóhönnu Sigurðardóttur og Alþingi í mánuðum Hrunsins, október til nóvember 2008. Það var einkum fyrir áherslur þeirrar nefndar ríkisstjórnarinnar sem fráfarandi forseti ASI leiddi að ekki var gripið til frystingar vísitölu til að hemja stökkbreytingu lána almennings. Afleiðingar þess að ekki var gripið inn í verðtryggingu lána haustið 2008 eru þekktar; gjaldþrot þúsunda heimila, langvarandi fjárhagsáhyggjur og ströggl hjá tugþúsundum og tækifærum uppvaxandi kynslóða frá skuldsettum heimilum láglaunafólks var stórlega spillt.
SALEK samkomulagið sem Gylfi Arnbjörnsson varð formælandi fyrir í samstöðu með hægrisinnuðustu forystumönnum Samtaka atvinnulífsins gengur svo bókstaflega út á að þeir verst settu í samfélaginu skyldu sviptir tækifærum til að sækja sér kjarabætur og með því er fallist á að kjaraþróun síðustu 25 ára verði festi í sessi.
Veiking á stoðum velferðarríkisins
Að vísa til hinan Norðurlandanna er að þessu leyti afskræming og móðgun við réttlætissjónarmið af því að í öllum nágrannalöndum eru kjör flestra á fullvinnandi mun traustari, þar sem velferðarkerfi og húsnæðismarkaðir bjóða upp á hagkvæma kosti eða að minnsta kosti tækifæri til lágmarksafkomu fyrir alla á vinnumarkaði.
„Arfleifð Gylfa Arnbjörnssonar og stefnu stéttasamvinnunnar í ASÍ og velvildar við fjármálavæðinguna er sannarlega hörmuleg“
Gylfi Arnbjörnsson hefur einnig gert sig beran að því að segja umbjóðendum sínum og öllum almenningi ósatt um grunn þess örlitla skömmtunarkerfis til félagslegs húsnæðis láglaunafólks sem fest var í kjarasamningum árið 2015 og átti að ná til 2.300 íbúða á næstu árum. Gylfi skrökvar því að hverjum sem er að þar sé verið að byggja á grunni danska „Almen Bolig“ kerfisins sem staðið hefur í meira en 100 ár. Þetta er afskræming þar sem danska kerfið er kerfi leiguíbúða sem eru opnar fyrir alla, bókstaflega alla, og sinnir allt að 20 prósentum íbúðaframboðs eða meira í heilum hverfum. Sér-íslenska skömmtunarkerfið sem bundið er í lögum um svokallaðar almennar íbúðir nr 52/2016 gengur hins vegar út á að loka lágtekjufólkið af í fjölbýlishúsum eða hverfiskjörnum þar sem engum öðrum er hleypt inn. Slík stefna gengur gegn öllum nútímalegum skipulagsviðmiðum og það sem verra er að hún hefur alvarlega skaðvænar félagslegar afleiðingar fyrir fjölskyldurnar og sérlega fyrir uppvaxandi kynslóðir.Gettóvæðing og stimplun vegna slíkrar aðgreiningar hefur alls staðar leitt af sér alvarleg félagsleg vandamál, eyðileggingu tækifæra og skerta lífshamingju.
Arfleifð Gylfa Arnbjörnssonar og stefnu stéttasamvinnunnar í ASÍ og velvildar við fjármálavæðinguna er sannarlega hörmuleg, og þó líklega verst fyrir þolendur innheimtuofbeldis og uppboðskrafna hins opinbera Íbúðalánasjóðs og endurreistra bankanna í kjölfar bankahrunsins. Staðan er sérlega nöturleg þegar til viðbótar verður uppvíst um að vinnumansal, undirboð og barbarismi ríkir á vinnumarkaði í uppsveiflunni, gagnvart innflytjendum og fórnarlömbum starfsmannaleiga, eins og nýlega er staðfest meðal annars í Kveiksþætti Ríkissjónvarpsins. Fráfarandi forysta ASÍ virtist ekki vilja beita neinum afgerandi ráðum til varnar þessu fólki.
Framtíðarkynslóðir Íslands verðskulda sannarlega að ný forysta ASÍ snúi algerlega frá þeirri braut velvildar í garð fjármálaelítunnar og samtryggingar með Samtökum atvinnulífsins sem fylgt var á Gylfa Arnbjörnssonar-árunum og kalli fram raunverulegar kjarabætur með skattalegu réttlæti, húsnæðisöryggi, gæðamenntun og velferð fyrir almenning.
Athugasemdir