Þann 16. október 2017, rétt fyrir alþingiskosningar, lagði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lögbann á umfjöllun Stundarinnar um viðskipti þáverandi forsætisráðherra og fjölskyldu hans fyrir hrun sem byggði á viðamiklum gögnum innan úr Glitni banka.
Þrotabú Glitnis, Glitnir Holdco, fór fram á lögbannið og lögðu nokkrir þeirra sem komið höfðu fyrir í umfjöllun Stundarinnar fram yfirlýsingar um að þeir teldu að brotið hefði verið gegn lögvörðum réttindum þeirra með birtingu upplýsinganna. Harlem Désir, fulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu á sviði fjölmiðlafrelsis, lýsti hins vegar áhyggjum af lögbanninu og skoraði á íslensk stjórnvöld að aflétta því.
Þórólfur Halldórsson sýslumaður og tveir starfsmenn embættisins voru kallaðir á opinn fund allsherjar- og menntamálanefndar þann 19. október 2017 og svöruðu spurningum um lögbannið og forsendur þess. Sviðsstjóri hjá sýslumannsembættinu kom af fjöllum þegar hann var spurður hvort embættið hefði vegið og metið hvort sú skerðing á tjáningarfrelsi sem fælist í lögbanninu teldist nauðsynleg í lýðræðissamfélagi, en bæði tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu gera kröfu um að slíkt mat fari fram áður en stjórnvald takmarkar tjáningarfrelsi.
Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði öllum kröfum Glitnis HoldCo gegn Stundinni þann 2. febrúar 2018 og komst að þeirri niðurstöðu að lögbann sýslumanns á upplýsingamiðlun fjölmiðils um viðskipti valdhafa hefði verið ólögmætt og stangast á við lýðræðishefðir og grunngildi tjáningarfrelsis. Í dóminum var sýslumannsembættið gagnrýnt harðlega, meðal annars fyrir að hafa vikið frá þeim almennu reglum sem gilda um framkvæmd lögbannsgerðar þegar ákveðið var að tilkynna ekki gerðarþolanda, Stundinni, með hæfilegum fyrirvara um framkomna lögbannskröfu.
Glitnir HoldCo áfrýjaði málinu til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms þann 5. október síðastliðinn. Þegar þetta er skrifað, tuttugu dögum eftir að Landsréttur staðfesti að lögbannið væri ólögmætt, hefur Glitnir HoldCo ekki gefið upp hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. Áfrýjunarfrestur til Hæstaréttar er fjórar vikur. Stundin hefur engu að síður ákveðið að halda áfram birtingu frétta sem byggja á þeim gögnum sem um ræðir. Í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem barst áskrifendum í morgun eru 12 blaðsíðar helgaðar slíku efni.
Ákvörðun um áframhaldandi umfjöllun byggir á lögfræðilegum og siðferðislegum grunni. Í fyrsta lagi kemur fram í lögum um kyrrsetningu og lögbann að þegar þrjár vikur eru liðnar frá synjun dómstóla falli lögbann niður. Þrjár vikur eru liðnar frá og með útgáfudegi þessa tölublaðs Stundarinnar.
Þá byggir Stundin á þeirri staðreynd að í lögbannslögum er ekki gert ráð fyrir tilvist Landsréttar. Þannig kemur fram að lögbann haldist eftir áfrýjun til „æðri dóms“, en ef æðri dómur staðfestir ákvæði héraðsdóms um synjun um staðfestingu gerðar felli hún úr gildi frá dómsuppsögu þar. Æðri dómur, Landsréttur, hefur þegar úrskurðað lögbannið ólögmætt, og er því samkvæmt óuppfærðum lögum um lögbann metið óþarft af lögmönnum Stundarinnar að bíða niðurstöðu Hæstaréttar.
Hvað varðar siðferðislega þáttinn telur ritstjórn Stundarinnar ekki réttlætanlegt að eftirláta þrotabúi gjaldþrota banka ritstjórnarvald yfir umfjöllun, hvað þá umfjöllunum sem renna stoðum undir að starfsmenn, eigendur og stórir viðskiptamenn bankans – þar á meðal einn valdamesti stjórnmálamaður landsins – hafi forðað persónulegum fjármunum sínum og komið þeim í var á sama tíma og þeir höfðu aðgengi að mikilvægum upplýsingum um alvarlegan vanda bankans.
Loks telur ritstjórn Stundarinnar illréttlætanlegt út frá siðferðislegum sjónarmiðum að bíða með birtingu þegar mikill vafi er á því að Glitni HoldCo sé lögfræðilega stætt á því að viðhalda lögbanninu.
Fyrirvari: Stundin er aðili að málinu sem hér er fjallað um.
Athugasemdir