Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi formaður flokksins og fjármálaráðherra, kemur fyrir í Glitnisskjölunum vegna lána sem Íslandsbanki veitti Bjarna Benediktssyni og tengdum aðilum til að fjárfesta í olíufélaginu Esso árið 2006.
Nafn Benedikts er að finna í skjali sem sýnir yfirlit yfir lánveitingar til fjölskyldu Bjarna og tengdra aðila. Fram kemur að til hafi staðið að Benedikt fengi 40 milljóna króna lán til að taka þátt í fjárfestingum félagsins BNT ehf., móðurfélags N1. Samtals fengu Bjarni Benediktsson og tengdir aðilar rúmlega tveggja milljarða króna kúlulán frá Íslandsbanka árið 2006 til þess að fjárfesta í olíufélaginu Esso í gegnum BNT ehf.
„Ég fjárfesti í BNT en fékk
ekki lán frá Glitni til þess“
Fjárfesti í BNT en ekki með þessu láni
Í samtali við Stundina segir Benedikt að hann hafi á endanum ekki fengið lán frá Glitni til að fjárfesta í BNT ehf. Hann hafi hins vegar fjárfest í félaginu með öðrum hætti.
„Ég veit ekkert um þetta lán og hef aldrei um þetta heyrt.[...] Ég fjárfesti í BNT en fékk ekki lán frá Glitni til þess,“ segir Benedikt. Aðspurður segist hann ekki muna eftir tímasetningum, hvenær hann fjárfesti í BNT ehf.
„Ég get auðvitað ekkert vitað um það hvort ég er á einhverju skjali hjá einhverjum mönnum úti í bæ, það er ekki mitt mál. Ef þú skrifar nafnið mitt á einhvern lista þá get ég ekkert vitað af því. Ég hef aldrei verið í viðskiptum við þennan banka,“ segir Benedikt.
Athugasemdir