Skráningaraðilar léna fyrir heimasíður geta ekki skipt sér af innihaldi vefsíðna nema dómsúrskurður fyrirskipi það. Þetta kemur fram í svari frá ISNIC - Internet á Íslandi til Stundarinnar, en landslénið .is og skráningar á því eru í umsjón fyrirtækisins.
Umræðuvefsíða og spjallvettvangur fyrir hópinn incels er nú starfrækt á landsléni Íslands eins og fram kom í umfjöllun Stundarinnar í gær. Samkvæmt upplýsingum sem stjórnendur síðunnar gefa frá sér í tilkynningu er ástæðan fyrir breytingunni „smá vandamál með þjónustuaðila“, en vefsíðan er hýst af óþekktu fyrirtæki í Þýskalandi.
Incels eru hópur karlmanna sem hatast við konur og tala sumir hverjir fyrir ofbeldi gegn þeim.
„Vandamálið“ kann að vera að hýsingaraðilinn hafi lokað heimasíðunni vegna innihaldsins, en þetta hefur komið í auknum mæli fyrir spjallsvæði incels-liða. Eins og fram kom í gær var spjallsvæðinu incels.life lokað fyrr í ár og var núverandi heimasíða incels hýst á öðru léni áður en tekið var upp .me lénið.
Lénaflakk leið til að komast hjá lokunum
Ekki má rugla saman hýsingu og léni, en vefsíðan er langt í frá hýst á Íslandi eða af íslenskum aðilum. Áður var vefsíðan starfræk á léninu .me sem er landslén Svartfjallalands, en er samt notað í einkaeigu um allan heim.
Innihald vefsíðna er mál hýsingaraðilans. Ef efni á heimasíðu er óviðeigandi fyrir hýsingaraðila getur hann tekið ákvörðun um að loka vefsíðunni. Skráningaraðili léns getur ekki tekið ákvarðanir eða skipt sér af innihaldi vefsíðna.
Hinsvegar geta skráningarfyrirtæki léna lokað þeim ef dómsúrskurður fyrirskipar lokun léns vegna lögbrots. Að öðru leyti getur skráningarfyrirtæki ekki skipt sér af einstaka vefsíðum.
Engin viðvera hópsins á Íslandi
Viðvera incels hópsins á Íslandi er ekki þekkt, en eflaust eru einhverjir sem aðhyllast hugmyndafræði þeirra hér á landi.
Hópurinn sem á íslensku er hægt að kalla „skírlífir gegn eigin vilja“ stundar grimmilega hatursorðræðu í garð kvenna á netinu. Mennirnir telja að skírlífi þeirra sé sök kvenna sem sækja frekar í aðlaðandi karlmenn, í stað þess að sækja í menn sem eru góðhjartaðir en ekki eins aðlaðandi.
Athugasemdir