Geir Hilmar Haarde, sendiherra Íslands í Washington sem hlaut dóm árið 2012 fyrir að hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi sem forsætisráðherra í aðdraganda hrunsins, mun taka sæti sem aðalfulltrúi í stjórn Alþjóðabankans samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. RÚV greindi frá þessu í dag og hefur utanríkisráðuneytið nú tilkynnt um málið á vefnum. Geir Haarde er stjúpfaðir Borgars Þórs Einarssonar, aðstoðarmanns Guðlaugs Þórs í utanríkisráðuneytinu.
Ísland mun leiða starf Norðurlanda- og Eystrasaltskjördæmisins til tveggja ára og eiga aðalfulltrúa (e. Executive Director) í stjórn Alþjóðabankans. Á meðal Íslendinga sem gegnt hafa sams konar stöðu eru Helga Jónsdóttir, sem nú er starfandi forstjóri Orkuveitunnar, Þorsteinn Ingólfsson og Jónas Haralz.
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin skiptast á að eiga fulltrúa í stjórn Alþjóðabankans en bankinn er í Washington og stjórnarmenn alla jafna búsettir þar. Geir er eini ráðherra heims sem hlotið hefur dóm fyrir að brjóta gegn starfsskyldum sínum í beinum tengslum við fjármálahrunið árið 2008, en hann hefur ítrekað gert lítið úr niðurstöðu dómsins og haldið því fram að annarlegar hvatir liggi að baki sakfellingunni.
Geir kærði dóminn til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu fyrr á þessu ári að engin mannréttindi hefðu verið brotin. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins var á skjön við málflutning Geirs H. Haarde þess efnis að hann hefði aðeins verið dæmdur fyrir „smáatriði“, „formsatriði“ eða „svokallað formsbrot“.
Að mati Mannréttindadómstóllinn skipar 17. gr. stjórnarskrárinnar, sem Geir var dæmdur fyrir að brjóta, „veigamikinn sess í stjórnskipan landsins í ljósi þess að þar eru sett mikilvæg viðmið um hvernig ætlast sé til að starfi ríkisstjórnar sé háttað, sem samráðsvettvangur fyrir stefnumótun og yfirstjórn hins opinbera að því er varðar mikilvæg málefni“ [þýðing blaðamanns]. Tók Mannréttindadómstóllinn undir þá niðurstöðu Landsdóms að Geir H. Haarde, sem forsætisráðherra og verkstjóri ríkisstjórnar, hefði verið ábyrgur fyrir því að kröfum 17. gr. stjórnarskrár væri fylgt.
Athugasemdir