Tilkynnt var í morgun í Osló að friðarverðlaun Nóbels fengju í ár þau Denis Mukwege og Nadia Murad. Bæði hafa þau barist gegn nauðgunum og kynferðisofbeldi í stríði.
Denis Mukwege er læknir frá Kongó sem stofnaði Panzi-sjúkrahúsið í Bukavu í austur Kongó árið 2008. Þar hafa þúsundir kvenna hlotið aðhlynningu eftir nauðganir vígamanna á svæðinu.
Nadia Murad, er Jasídi frá Írak. Murad var tekin af liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna ISIS sem héldu henni fanginni, beittu hana kynferðislegu ofbeldi og pyntingum um þriggja mánaða skeið árið 2014. Murad tókst að flýja úr haldi hryðjuverkamannana, til Þýskalands, þar sem hún hefur leitt baráttu gegn mansali, kynferðislegu ofbeldi og nauðgunum í stríði, auk þess sem hún hefur talað máli þjóðar sinnar, Jasída.
Í rökstuðningi valnefndar friðarverðlaunanna sagði að þau Murad og Mukwege fengju verðlaunin til að vekja athygli á kynferðislegu ofbeldi sem stríðsglæpum.
Athugasemdir