Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor er eini höfundur skýrslunnar um erlenda áhrifaþætti hrunsins. Þetta staðfestir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Í skýrslunni er vísað til Hannesar sem aðalhöfundar (e. main author) en hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Birgir Þór Runólfsson nefndir sem samstarfsmenn (e. collaborators) auk þess sem fram kemur að Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor hafi gengið til liðs við verkefnið á seinni stigum.
„Ég er ekki höfundur þessarar skýrslu né er ég skráður sem slíkur í henni,“ skrifar Eiríkur Bergmann í umræðum um málið á Facebook. „Ég tók þátt í verkefninu með því að gera úttekt á Icesave-deilunni“.
Aðspurð um málið segir Guðbjörg Andrea: „Hannes er eini höfundurinn (þ.e. hann einn skrifaði) en hafði eitthvað samráð við Eirík, Ásgeir og Birgi Þór Runólfsson. Ég hef ekki heyrt um fleiri samstarfsmenn.“
Hún segir að Félagsvísindastofnun hafi fengið greiddar 7,5 milljónir króna fyrir verkefnið og þær hafi runnið til Hannesar og samstarfsmanna hans. Enn eigi eftir að rukka lokagreiðsluna, 2,5 milljónir.
Í skýrslu Hannesar er bent sérstaklega á að hann og samstarfsmenn hans séu ekki alls ótengdir þeim atburðum og viðfangsefnum sem fjallað er um í skýrslunni. Þannig hafi til dæmis Ásgeir Jónsson verið aðalhagfræðingur Kaupþings fyrir hrun og Eiríkur Bergmann setið í stjórnlagaráði eftir hrun. Fram kemur að samstarfsmennirnir hafi „gert niðurstöður rannsókna sinna aðgengilegar Hannesi, sem framkvæmdi eigin sjálfstæðar rannsóknir, skrifaði skýrsluna og ber sjálfur fulla ábyrgð á henni“.
Athugasemdir