Velferðarráðuneytið vinnur nú að því að gefa fyrirtækjum lengri frest til að innleiða jafnlaunavottun. Aðeins 11 prósent þeirra 140 fyrirtækja sem verða að uppfylla jafnlaunastaðalinn fyrir áramót eru búin að því og verður hinum að líkindum gefinn eins árs frestur til að klára sín mál. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Haft er eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að aðeins tvö fyrirtæki sinni faggildingunni eins og er og því erfitt að tryggja að öll fyrirtæki fái jafnlaunavottun fyrir áramót. „Við vöruðum við því á sínum tíma að þetta væri tímafrekt og flókið ferli sem fyrirtækin þurfi að fara í til að uppfylla jafnlaunavottunina. Sú spá okkar er að raungerast nú. Hins vegar skiptir mestu máli að stóru fyrirtækin eru öll annaðhvort búin að fá jafnlaunavottun eða eru í vinnu við það að uppfylla staðalinn,“ segir Halldór Benjamín.
Með innleiðingu jafnlaunastaðals geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Staðallinn nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli og tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns.
Samtök aðila vinnumarkaðarins annast eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlist vottun og endurnýjun þar á á þriggja ára fresti.
Athugasemdir