Í fyrri grein minni, sem birtist á vef Stundarinnar 8. september síðastliðinn, fjallaði ég um lagningu Sundabrautar, markmiðið með lagningu vegarins, kostun hans og hvað þyrfti að athuga við framkvæmdina. Hér ætla ég að fjalla um hugmynd mína um brú yfir Elliðaárvog, sem væri fyrsti áfangi Sundabrautar en gæti sennilega vel staðið sem einstök framkvæmd.
Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur skal Sundabraut liggja frá Gufunesvík (norðan við Gufuneshöfða) yfir Elliðaárvog að landi í Kleppsvík norðan við Holtagarða. Mjög hefur verið gagnrýnt að syðri leiðin svokallaða hafi ekki verið valin með einhverskonar tengingu við mislæg gatnamót Miklubrautar og Reykjanesbrautar. Hér ætla ég ekki að fjalla um þetta álitamál en að mínu mati er sú hugmynd byggð á röngu mati á markmiðinu með lagningu Sundabrautar. Umferð um Sundabraut verður seint mjög mikil og hlutverk hennar er bara að litlu leyti að draga úr umferðartöfum. Hlutverk hennar innan borgarinnar er meira að greiða umferð úr Grafarvogi, skapa skilyrði fyrir uppbyggingu, liðka fyrir iðnaðarumferð og dreifa umferð almennt. Að þjappa henni inn í Elliðaárvog í ein risa gatnamót með tvöföldu slaufumagni er ekki góð leið til að draga úr umferðartöfum.
Mín hugmynd gengur út á brú sunnan við teiknaða Sundabraut í aðalskipulaginu, í framhaldi af Holtavegi beint yfir Elliðaárvog og í gegnum Gufuneshöfða. Hún gerir ráð fyrir því að hægt sé að reisa lágbrú á ytri leiðinni með því að færa uppskipunarsvæði hafnar Samskips út fyrir brúnna. Fyrri hugmyndir gerðu ráð fyrir hábrú með fría hæð um 48 metra yfir sjó og með lengsta haf um 135 metra fyrir umferð flutningaskipa, sem hefði sennilega kallað á hengibrú. Að öllum líkindum getur lágbrú verið ódýrari en hábrú.
Brúin gæti verið um 900 metra löng, þar af um 600 metrar yfir núverandi sjó. Um 300 metrar kæmu á landi vestan megin í framhaldi af Holtavegi, vegur á uppfyllingu að mestu leyti. Hæð brúarinnar yfir sjó yrði um 20 metrar og myndi það duga til að hleypa öllum skútum og minni skipum undir. Til að koma svona lágri brú fyrir þyrfti að færa uppskipunarhöfn Samskipa í norður utan við brúnna en hafnarsvæðið sunnan við brúna myndi nýtast sem hafnarsvæði að öðru leyti og umferð á landi yrði greið þar undir með um 15 metra hæð. Sundabraut gæti verið fjórar akreinar yfir Elliðaárvog, auk göngu og hjólastíga. Að austan færi Sundabraut af brúnni í göngum í gegnum Gufuneshöfða í um 20 metra hæð yfir sjávarmáli en höfðinn er um 40 metra hár. Brautin héldi síðan áfram yfir sorphaugana gömlu í Gufunesvík og síðar meir yfir Eiðsvík á Geldinganes og yfir Leirvog upp á Gunnunes á Álfsnesi og yfir Kollafjörð á Kjalarnes.
Vestan megin myndi Sundabraut tengjast Holtavegi og Sæbraut, til dæmis með hringtorgi ofan á Sæbraut í fríu flæði. Hafnarsvæðið frá Sundahöfn að Gelgjutanga væri hægt að tengja saman með vegi fyrir þungaflutninga þannig að þung umferð hafnarsvæðisins gæti farið þar um og tengst Sundabraut með að- og afreinum þannig að þessi þungaumferð gæti sleppt því að fara upp á Sæbraut. Á gömlu öskuhaugunum í Gufunesi í Gufunesvík væri hægt að koma fyrir plássfrekri geymsluaðstöðu sem tengist höfnunum, til dæmis geymslu á á innfluttum bílum og tækjum. Athafnasvæði í Gufunesvík myndi líka geta nýst til að koma upp endurvinnslu á jarð- og byggingarefnum á höfuðborgarsvæðinu og draga þar með úr þungaflutningum með þessi efni út fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar væri líka hægt að tengja athafnasvæði með að- og afreinum við Sundabraut.
Ég held að þessi hugmynd sé fyllilega framkvæmanleg. Það fylgir því auðvitað nokkur kostnaður að færa uppskipunarhöfn Samskipa norður fyrir legu Sundabrautar en plássið er fyrir hendi og þetta svæði hefur þegar verið eyðilagt með uppfyllingu sem er illa nýtt eins og er. Dýpi og aðstaða ætti að vera nægjanlega góð fyrir hafskipahöfn. Vonandi taka einhverjir sérfræðingar við keflinu og greina kost og löst á þessum hugmyndum um legu Sundabrautar og færslu hafnarinnar.
Athugasemdir