Ímyndið ykkur 111 manns.
Alls konar fólk á besta aldri, vinnandi fólk, auðvitað bæði karla og konur, en hvorki börn né fólk sem sest er í helgan stein, skattgreiðendur sem sagt, ímyndið ykkur 111 skattgreiðendur.
Gefum okkur að þetta fólk vinni allt á einum stað, hjá einu fyrirtæki, þar kemur ýmislegt til mála – þessar 111 manneskjur gætu unnið til dæmis hjá stórum skóla, hjá verksmiðju af þokkalegri stærð, eða bara hjá Ömmubakstri, en internetið upplýsir að þar séu 110 starfsmenn. Segjum að þeir séu 111 og allir þessir skattgreiðendur okkar vinni þar.
Þetta er fólk með ýmsar tekjur, eins og gengur, en allir þó með að minnsta kosti þokkaleg laun, svo við segjum að í heild sé þetta meðalvinnustaður með meðallaun og þar af leiðandi vinna þarna meðalskattgreiðendur sem borga sína meðalskatta.
Þetta er alls konar fólk, ég ítreka það, ef við reynum að sjá það fyrir okkur þá mundi hópurinn rúmast í tveimur langferðabílum, svona nokkurn veginn.
Sem sagt 111 manns, skattgreiðendur, sem borga sín gjöld til samfélagsins í þeirri von og trú að peningarnir fari til þess að halda samfélaginu gangandi og vonandi bæta það svolítið, að þessir peningar fari í heilsugæslu handa fólkinu sjálfu hjá Ömmubakstri eða ástvinum þess, eða bara ókunnugu fólki, og sumir mundu kannski helst kjósa að skattarnir þeirra færu í að bæta vegakerfið, ekki vanþörf á, eða löggæsluna, eða forvarnir, kannski á einhver úr hópnum ungling í áhættuhópi og treystir á að skattarnir hans eða hennar fari í að halda uppi þokkalegu öryggisneti fyrir þá sem ráða ekki við sig.
En nei.
Aldeilis ekki.
Skattarnir þessara 111 manneskja, hvort sem þær unnu hjá Ömmubakstri eða einhverjum skóla eða verksmiðju eða byggingaverktaka eða hvar annars staðar sem vera skal, skattarnir þeirra 111 fóru ekki í heilbrigðiskerfið eða vegakerfið eða menntakerfið eða forvarnirnar, nei, það sem þessar 111 manneskjur unnu fyrir allt síðastliðið ár, hvern einasta dag, og greiddu af skattana sína og lögðu til samfélagsins, það fór allt – hver einasta króna – í að borga einhverja furðulegustu og dónalegustu samkomu sem haldin hefur verið á Íslandi fyrr og síðar, fund Alþingis á Þingvöllum í sumar sem átti að heita að væri hátíðarfundur vegna fullveldisafmælisins.
„Ég er líka einn af þessum 111“
Það segja mér fróðir menn að meðalskattgreiðandi á Íslandi borgi 800.000 krónur á ári til samfélagsins, það er staðgreiðslan, tekjuskatturinn, svo er útsvarið þar fyrir utan, en þessar 800.000 krónur er semsagt það sem meðalskattgreiðandi borgar á ári til ríkisins.
Og ef reikningskunnáttan bregst mér ekki, þá þýðir þetta að hver einasta króna af sköttum 111 íslenskra skattgreiðenda allt árið í fyrra hafi farið í að borga þessa óþörfu, óskiljanlegu og raunar ótrúlegu uppákomu, sem alls kostaði 87 milljónir og ég hef reyndar sterkan grun um að ýmislegt mætti fleira telja til.
Ég nenni ekki að segja fleiri brandara um lýsinguna dýrkeyptu, bæði vegna þess að það er búið að segja svo marga fína brandara um þetta en líka vegna þess að þetta er í rauninni ekkert fyndið.
Auðvitað er ekki hægt að kenna Steingrími J. Sigfússyni einum um þetta, en hann ber þó sem forseti Alþingis gríðarlega stóra sök á þessu rugli – og hann ber vissulega aleinn sök á því að skattar 111 Íslendinga í heilt ár hafi verið lagðir undir ræðupúlt fyrir danskan rasista.
Nei, þetta er ekkert fyndið. Ég er líka einn af þessum 111 þótt ég vinni hvorki hjá Ömmubakstri né í verksmiðju eða skóla. Mér finnst ég hafa verið svívirtur, mér finnst ég hafa unnið til einskis allt síðasta ár, úr því skattarnir mínir, hver einasta króna í heilt ár, fóru í að keppa við sólina svo Steingrímur J. gæti flaðrað upp um Piu Kjærsgaard.
Nei, mér er semsé ekki skemmt. Gæti ég fengið endurgreitt, svo ég geti lagt skattana mína í eitthvað nytsamlegra? Eða gæti Steingrímur kannski druslast til að axla ábyrgð?
Athugasemdir