Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, segir að bankaskatturinn grafi undan hagsmunum ríkisins sem stærsta eiganda fjármálakerfisins og leggist þyngst á hina eignaminni og fyrstu kaupendur. Hún hvetur til þess að skatturinn verði afnuminn með öllu.
Þetta kemur fram í pistli sem Katrín birtir í Fréttablaðinu í dag. Boðskapurinn er athyglisverður í ljósi þess að Katrín Júlíusdóttir sat sjálf í ríkisstjórninni sem innleiddi bankaskattinn á sínum tíma og greiddi atkvæði með lögfestingu skattsins. Þá voru þó uppi sérstakar aðstæður í efnahagslífinu og ríkisfjármálum. Gjaldhlutfallið var í fyrstu 0,041 prósent en skatturinn var hækkaður í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar til að dekka kostnaðinn vegna leiðréttingarinnar svokölluðu og er í dag 0,376 prósent. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur til að lækka hann í skrefum niður í 0,145 prósent.
Samfylkingin talaði fyrir afnámi bankaskatts í aðdraganda síðustu þingkosninga en undanfarna mánuði hefur flokkurinn gagnrýnt þá forgangsröðun sem felst í áformum ríkisstjórnarinnar um að lækka hann. „Þá telur 2. minni hluti það vera sérkennilega forgangsröðun að lækka bankaskattinn svokallaða en sú lækkun kostar um 7,3 milljarða kr,“ segir til að mynda í nefndaráliti Ágústs Ólafs Ágústssonar, fulltrúa flokksins í fjárlaganefnd, um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Endurtók hann þessa gagnrýni þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar kom fram.
„Bankaskatturinn er íþyngjandi skattur sem skaðar hagsmuni viðskiptavina einnar tegundar lánafyrirtækja og grefur undan hagsmunum ríkisins sem stærsta eiganda fjármálakerfisins,“ segir í grein Katrínar Júlíusdóttur í dag. „Afnám skattsins væri skilvirk leið fyrir stjórnvöld til þessa ná niður vaxtastiginu sem heimilum og fyrirtækjum stendur til boða í bankakerfinu.“
Hún bendir á að hinum eignamestu standi til boða hagstæðari kjör lífeyrissjóða sem ekki þurfa að greiða bankaskatt á meðan hinir eignaminni og fyrstu kaupendur þurfi að bera bankaskattinn. „Í aðdraganda kjarasamninga hefur nokkuð verið rætt um mikilvægi þess að ná niður vaxtastiginu og þar af leiðandi fjármagnskostnaði heimila og fyrirtækja. Ein leið til þess væri að fella niður bankaskattinn og ráðast í endurskoðun á skattastefnu stjórnvalda gagnvart fjármálafyrirtækjum.“
Athugasemdir