Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Hvað gerist ef WOW fer í þrot?

Ef flug­fé­lag­inu tekst ekki að fjár­magna sig með skulda­bréfa­út­boði gætu kröfu­haf­ar tek­ið það yf­ir eða rík­ið kom­ið til bjarg­ar. Þórólf­ur Matth­ías­son, hag­fræði­pró­fess­or seg­ir að gjald­þrot fé­lags­ins myndi ekki valda kerf­is­hruni en þó hafa í för með sér aukna verð­bólgu, at­vinnu­leysi og hærri hús­næð­is­lán.

Hvað gerist ef WOW fer í þrot?
Skúli bjartsýnn Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW air, segist bjartsýnn á að takast megi að ljúka skuldabréfaútboði til að tryggja fjármögnun flugfélagsins. Ef það hins vegar tekst ekki, og félagið fer í þrot, mun það hafa umtalsverðar afleiðingar í for með sér fyrir íslenskt efnahagslíf. Mynd: WOWAIR.IS

Færi flugfélagið WOW air í þrot þyrfti það ekki að hafa katastrófískar afleiðingar fyrir efnahagslífið. Það hefði hins vegar ýmis neikvæð áhrif. Ef vel er haldið á spilunum eru ýmis kort á hendi sem mætti nota til að koma í veg fyrir mikil áföll, til að mynda sterkur gjaldeyrisvarasjóður. Þrot WOW air myndi engu að síður valda samdrætti í ferðaþjónustu, samdrætti í gjaldeyristekjum, atvinnuleysi og aukinni verðbólgu. Með því myndu verðtryggð lán heimilanna hækka en ekki er hægt að fullyrða að Seðlabankinn myndi sjá sig knúinn til að hækka stýrivexti. Þá myndu forsendur fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlanir bresta og gera þyrfti einhverjar lagfæringar í þeim efnum. 

Þórólfur MatthíassonHagfræðiprófessor segir að fall WOW air myndi hafa töluverð áhrif á íslenskt efnahagslíf en þau áhrif þurfi þó ekki að vera katastrófísk.

Þetta er mat Þórólfs Matthíassonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, en Stundin fékk Þórólf til að kasta á loft sviðsmyndum um hvað gæti gerst ef flugfélaginu WOW air tekst ekki að fjármagna sig með skuldabréfaútboðinu sem nú stendur yfir. Áður hefur verið greint frá því að lausafjárstaða félagsins sé orðin verulega veik og það sé félaginu lífsspursmál að afla fjár til rekstrarins.

Upphaflega var stefnt að því að afla á bilinu sex til tólf milljarða króna með skuldabréfaútboðinu og átti það að gerast tiltölulega hratt, fjármögnuninni átti að ljúka öðru hvoru megin við síðustu helgi. Af því varð ekki og hafa borist fréttir af að erfiðar gangi að afla fjárins en von var á. Meðal annars af þeim sökum mun WOW air hafa leitað til íslensku bankana með þátttöku í fjármögnuninni en talið er nánast útilokað að þeir muni taka þátt í því.

Tekur ekki nema viku að drepa flugfélag

Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW air ber sig þrátt fyrir allt þetta vel. Í tölvupósti sem hann sendi starfsfólki WOW air kemur fram að hann hafi unnið dag og nótt við að klára útboðið og að hann sjái til lands í þeim efnum og hafi fulla trú á að það muni takast.

En hvað gerist ef Skúla tekst það ekki? Hvað gerist ef WOW air nær ekki að fjármagna sig?

Þórólfur segir að stóra spurningin þá sé hvort einhver taki félagið í fangið við slíkar aðstæður. „Það er mjög dýrt að láta flugfélag stoppa þannig að það er spurning um hvort að þeir sem eiga kröfur á félagið vilji koma í veg fyrir það og hvort að kröfuhafar taki stjórnina og yfirtaki félagið, hvort heldur sem er í samstarfi við núverandi stjórnendur eða með því að setja þá til hliðar. Ef félagið stoppar þá þarf að gera upp við fullt af kúnnum sem ekki fá þá þjónustu sem þeir voru búnir að kaupa og svo þýðir það trúnaðarbrest gagnvart sölukerfinu, sem er afar slæmt. Það er í rauninni hægt að drepa stórt flugfélag á viku, ef starfsemi þess stöðvast í viku, alveg sama af hvaða orsökum, þá fara allir kúnnarnir annað. Þú kaupir flugmiða til að vera á ákveðnum stað á ákveðnum tíma og ef það stenst ekki þá hættir þú viðskiptum við viðkomandi félag.“

Spurningin er hvort viðskipamódelið gangi upp

Þórólfur segir að í þessum efnum sé grunn forsendan sú hvort talið sé að viðskiptamódel WOW air geti gengið upp. „Ef menn telja vera eitthvað verðmæti í því viðskiptamódeli sem WOW air keyrir á, leiðakerfinu, viðskiptamannakerfinu, sölukerfinu og svo framvegis, þá er mjög sterkur hvati fyrir eigendur skulda WOW air að halda fyrirtækinu gangandi. Ef hins vegar viðskiptalíkanið gengur ekki upp, ef það er ástæðan fyrir því að fyrirtækið sé að rúlla, þá getur vel verið að bútar úr fyrirtækinu séu verðmeiri heldur en heildin, og þá fer félagið bara í þrot. Eigendur flugvélanna hirða þær til sín og svo framvegis.“

Ef WOW air fellur er ólíklegt að önnur flugfélög geti fyllt upp í tómarúmið sem myndast; að minnsta kosti gerist slíkt ekki á einni nóttu.

„Icelandair mun væntanlega bæta við einhverjum ferðum, til að taka upp slakann. Það er hins vegar ólíklegt að þeir yfirtaki leigusamningana á flugvélum WOW air, þetta er öðru vísi flugfloti en þeir reka. Vandinn við það að önnur félög komi inn á það pláss sem myndi myndast við fall WOW er ekki endilega skortur á vilja, þekkingu eða getu, heldur vöntun á flugflota. Það er líka svo að það er eiginlega bara Icelandair sem gæti komið í staðinn, með því að bæta við sig, því að það og WOW eru einu félögin sem eru að nota Keflavík sem „hub“, tengiflugvöll, það er ekkert annað flugfélag sem er að því. Hin flugfélögin eru að fljúga hingað og héðan, en nota ekki Keflavík sem millilendingu. SAS er að flytja sína farþega vestur um haf í gegnum Kaupmannahöfn og gegnum Arlanda í Stokkhólmi. Lufthansa notar Frankfurt, og svo framvegis,“ segir Þórólfur.

Gæti fækkað ferðamönnum um 15 prósent í einu vetfangi

En hvaða áhrif mun það hafa á íslenskt efnahagslíf í heild sinni ef WOW fellur? Til þess að leggja mat á það þarf að gefa sér ýmsar forsendur bendir Þórólfur á, ekki sé unnt að vinna með harðar tölulegar staðreyndir í þeim efnum. „Gefum okkur að markaðshlutdeild WOW air í flutningum farþega hingað til lands sé um 30 prósent og að helmingur farþeganna séu tengifarþegar, þá er hægt að gera ráð fyrir fækkun ferðamanna til landsin um 15 prósent í einu vetfangi. Þetta eru tölur sem eru ekki ólíklegar, mögulega jafnvel aðeins vanáætlaðar. Það fyrsta sem þetta myndi þýða er að Keflavíkurflugvöllur yrði orðinn of stór, miðað við þörf. Fyrsta fyrirtækið sem myndi því lenda í vandræðum yrði Isavia. Ekki er nóg með að flugvöllurinn yrði þá orðinn talsvert of stór heldur er Isavia líka í stækkunarfasa sem þyrfti þá að stöðva. Það er hugsanlegt að Isavia væri þá komin með í fangið einhverjar fjárskuldbindingar sem þyrfti þá mögulega að taka frá ríkinu til að borga af, enda er fyrirtækið að fullu í eigu ríkisins. Þetta yrðu fyrstu áhrifin.“

Myndi fækka ferðamönnumEf WOW air myndi falla myndi ferðamönnum sem hingað koma fækka umtalsvert.

Ef spár um komur ferðamanna til landsins í ár ganga eftir gætu þeir orðið um 2,5 milljón manns. Færi WOW air í þrot gæti samdráttur í fjölda ferðamanna orðið allt að 375 þúsund manns ef fækkunin yrði 15 prósent. Þórólfur segir að þrátt fyrir að sú tala sé mjög há þá þýði slíkur samdráttur ekki endilega hrun. „Tíu til fimmtán prósenta samdráttur í fjölda ferðamanna þyrfti ekki að valda því að hér færi allt á hliðina. Það er hins vegar spurning hvaðan þeir ferðamenn væru að koma, hvort það væru lakar borgandi eða betur borgandi hlutinn. WOW hefur lagt töluverða áherslu á Bandaríkjaflugið þannig að það er mögulegt að þar myndi draga talsvert úr, og þetta væru því betur borgandi ferðamenn í meira mæli en annars. Þá hefði þessi samdráttur sannarlega einhver áhrif hér innanlands. Í staðinn fyrir að sjá verulega aukningu frá ári til árs myndi þetta þýða tíu til fimmtán prósent samdrátt í ferðamönnum sem koma inn til landsins.“

Aukið atvinnuleysi

Um þrettán prósent af þeim sem starfa á íslenskum vinnumarkaði starfa í ferðaþjónustu samkvæmt Hagstofu Íslands. Þá starfa um 1.100 manns hjá WOW air. Fall fyrirtækisins gæti því haft talsverð áhrif í ferðaþjónustunni. „Þetta gæti þýtt að einhver tvö til þrjú prósent þeirra sem vinna við ferðamennsku gætu misst vinnuna. Það er raunar svo að talsverður fjöldi þeirra sem vinna við ferðaþjónustuna eru erlent vinnuafl og ég myndi ætla að það væru einkum þeir sem fyrst myndu missa vinnuna. Af þeim sökum myndi þetta hafa minni áhrif í atvinnulegu tilliti hér á landi heldur en ætla mætti fljótt á litið. Við myndum sjá einhverja aukningu í atvinnuleysi við þetta,“ segir Þórólfur.

Rekja má talsverðan hluta hækkunar á húsnæðisverð síðustu ára til útleigu til ferðamanna í gegnum Airbnb, að því er kemur fram í gögnum Seðlabankans frá því snemma á þessu ári. Því gæti fall Wow Air haft áhrif á húsnæðismarkaðinn að mati Þórólfs. „Bæði vegna þess að ferðamönnum sem leigja húsnæði í gegnum AirBnb myndi fækka verulega en auk þess myndi erlenda starfsfólkinu sem vinnur í geiranum fækka. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða að húsnæðisverð myndi falla, það er eftirspurnarþrýstingur á húsnæðismarkaði og það myndi því taka nokkurn tíma áður en eignaverð myndi falla, þar eð það markaðurinn gæti áfram tekið við eignum til sölu. Auðvitað eru einhverjir sem hafa verið að sanka að sér húsnæði til AirBnb leigu, og það er spurning um hversu hratt þeir myndu selja frá sér eignir.“

Seðlabankinn í stöðu til að bregðast við

Spurður hvort að ekki megi gera ráð fyrir áhrifum á gengi krónunnar ef félagið færi í þrot segir Þórólfur að þau áhrif hafi í raun þegar komið fram, síðustu daga. „Sennilega er hluti af gengisfallinum þegar komið fram, þannig að það er ekki víst að við myndum horfa upp á frekari gengisbreytingar. Þó verðum við að hafa þann fyrir vara á að vegna þess að engar útflæðistakmarkanir eru til staðar á gjaldeyri þá gæti það gerst ef innlendir fjármagnseigendur misstu trúna á krónunni og flyttu fé út í stórum stíl, markaðsaðilar á gjaldeyrismarkaði hafa tilhneigingu til að bregðast við umfram tilefni, þá gæti reynt talsvert á vilja Seðlabankans til að synda gegn straumnum. Seðlabankinn mun hins vegar bregðast við, hann er í stöðu til þess og mun gera það, til dæmis með því að kaupa krónur. Hann gæti líka lagt á útflæðishöft, endurvakin gjaldeyrishöft, ef í óefni færi.“

Verðbólga ykist og verðtryggð lán myndu hækka

Verðbólga mun hins vegar örugglega aukast fari WOW air í þrot, eina spurningin er hversu mikið að mati Þórólfs, sem telur ekki endilega líklegt að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti vegna þess. „Það er ekki alveg gefið að Seðlabankinn myndi þurfa að hækka stýrivexti við þetta, með aukinni verðbólgu. Ef hlutirnir færu á þennan veg myndi það skapa slaka í hagkerfinu sem gæti komið í stað þess. Verðbólga mun hins vegar áreiðanlega hækka þannig að vísitöluþátturinn í verðtryggðum lánum mun þyngjast. Ef verðbólga mun aukast mikið, ef hún fer að nálgast tveggja stafa tölu, þá mun bankinn þurfa að hækka nafnvexti, það er engin spurning. En ef aukningin yrði kannski tvöföldun, ef verðbólga færi í fjögur, fimm eða sex prósent mun það hafa í för með sér eitthvað atvinnuleysi og slaka í hagkerfinu. Að öllu jöfnu ættu það að vera viðbrögð Seðlabankans að lækka vexti við slíkar aðstæður en verðbólgan myndi hins vegar gera það fyrir bankann, í raun og veru.“

Myndi ekki kaupa flugmiða langt fram í tímann

En er þá eitthvað sem almenningur gæti gert til að verja sig ef illa fer? Þórólfur segir augljóst að óvissa sé til staðar og hvetur fólk til að staldra við þangað til úr henni greiðist. „Ég myndi alla vega ekki kaupa mér flugmiða langt fram í tímann hjá WOW air. Hvað varðar hvort skynsamlegt sé að gera einhverjar breytingar á til dæmis húsnæðislánum, þá er afar erfitt að segja til um það. Skilmálar lána eru svo mismunandi. Ef til dæmis fólk myndi vilja breyta úr verðtryggðu láni í óverðtryggt þarf að horfa til þess hvort uppgreiðsluákvæði séu á láninu. Það er algjörlega háð skilmálum lána. Ef fólk er hins vegar að taka ný lán, og nafnvaxtakjör eru ekki því lakari, má gera ráð fyrir því að næstu tvö til þrjú á komi óverðtryggð lán betur út en verðtryggð. Það eru hins vegar svo mörg ef í þessu að það er afar erfitt að segja til um nokkurn hlut. Það er óvissa núna en það mun koma í ljós hvernig fer með WOW á næstu dögum og ég myndi því bíða eftir því hvernig vinnst úr þeim málum áður en ég færi að stofna til langtíma skuldbindinga.

Í ljósi þess sem að framan er rakið má velta fyrir sér hvort WOW air sé svo kerfislega mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf að stjórnvöld ættu að stíga inn í ferlið. Er félagið of stórt til að falla? „Til að svara þessu þarf fyrst að svara spurningunni sem við veltum upp hér að framan, hvort viðskiptalíkanið gangi upp. Ef það gerir það ekki, þá er engin ástæða til að viðhalda því með ríkisstyrkjum, við gerum það nú þegar í landbúnaði og ættum nú ekki að fara að bæta ferðaþjónustunni við,“ segir Þórólfur.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
4
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.
Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
5
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár