Engar eignir fundust í þrotabúi Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, sem úrskurðaður var gjaldþrota fyrr á þessu ári. Gjaldþrotaskiptum lauk þann 20. júní 2018 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur sem námu samtals 639,6 milljónum króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag, en Vísir greindi fyrst frá.
Stundin hafði samband við Lúðvík Örn Steinarsson, skiptastjóra búsins, sem staðfesti að Arion banki hefði verið stærsti kröfuhafinn og átt stærstan hluta hinna töpuðu krafna. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði árangurslaust fjárnám hjá Ingólfi þann 26. október síðastliðinn að beiðni bankans.
Ingólfur var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi árið 2015 í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Staðfesti Hæstiréttur dóminn árið 2016. Hafði Ingólfi áður verið gert að greiða slitastjórn Kaupþings rúman milljarð og svo Arion banka samtals 167 milljónir vegna óuppgerðra skulda.
Athugasemdir