15 einstaklingar létust meðan þeir biðu eftir því að komast að á Vogi í fyrra og 11 einstaklingar árið þar á undan. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingkonu Pírata, um biðlista á Vog. Ekki fengust upplýsingar frá SÁÁ um hversu margir einstaklingar sem voru á biðlista eftir rými á Vogi létust árin 2013 til 2015.
Vogur er umsvifamesta meðferðarstofnun landsins og þungamiðjan í meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu. Stofnunin er starfrækt á grundvelli þjónustusamningis Sjúkratrygginga Íslands við SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.
Í samningnum eru ekki skilgreind nein markmið um biðtíma, en embætti landlæknis er sá aðili innan heilbrigðiskerfisins sem hefur það hlutverk að fylgjast með biðtíma eftir þjónustu og að skilgreina hvaða biðtími sé ásættanlegur. „Það eftirlit hefur aðallega beinst að skurðaðgerðum, en vilji er til þess innan velferðarráðuneytisins að færa eftirlitið til annarrar þjónustu einnig,“ segir í svari heilbrigðisráðherra.
Í fyrirspurninni er spurt hvort ráðherra telji framboð á meðferðarúrræðum fyrir fólk með fíknivanda sé nógu fjölbreytt og hvernig ráðherra hyggist auka þetta framboð og gera það fjölbreyttara á kjörtímabilinu. „Fyrirhugað er að hefja stefnumótun um meðferðarúrræði fyrir fólk með fíknivanda. Í þeirri vinnu verður m.a. athugað hvort framboð meðferðarúrræða sé nægilega fjölbreytt hér á landi,“ segir í svari ráðherra.
Athugasemdir