Það er ekki nýlunda að fólk í stjórnmálum noti allskyns frávik í hegðun til að mótmæla því sem það er ósátt við. Ég er að tala um friðsamleg mótmæli, til dæmis svokallaða borgaraleg óhlýðni (e. civil disobedience) eða hunsun (e. boycotting). Ýmist eru þetta hópar fólks sem láta þannig finna til sín með samtakamætti sínum eða áhrifamikið fólk í pólitík sem fær athygli fjölmiðla fyrir frávik sitt.
Í vikunni var mótmælt á afmælishátíð 100 ára afmælis fullveldis Íslands á Þingvöllum. Nokkrir þingmenn í stjórnarandstöðu mótmæltu viðurvist öfga-þjóðernissinnaðs hátíðargests frá Danmörku sem okkur var sendur sem fulltrúi þings þeirra. Hefði heimspekingurinn og siðfræðingurinn Immanuel Kant (1724-1804) gert slíkt hið sama?
Kant er þekktur fyrir mikilvægt framlag til siðfræðinnar og ber þar hæst áhersla hans á mannvirðingu, gagnrýna hugsun og reglu til viðmiðunar fyrir siðferðilegar ákvarðanir. Regla hans var í megin dráttum sú að breytni manns ætti að geta orðið að þeirri lífsreglu sem maður sjálfur og allir aðrir gætu hugsað sér að fylgja. Þannig ætti maður að máta breytnina við bæði sjálfan sig til framtíðar (lífsregla) og allt skynsamlega hugsandi fólk. Ákvörðunina yrði maður að taka af fúsum og frjálsum vilja og af góðum vilja. Annað viðmið Kants var að aldrei mætti maður nota annað fólk sem tæki í eigin tilgangi því að allt fólk hefði sitt eigið innra virði – væri tæki sjálfs síns. Þessi hugsun Kants og fleiri siðfræðinga sem styrkt hafa hugtak mannvirðingarinnar lögðu grunninn fyrir mannréttindi nútímans.
Hvernig kemur þessi hunsun íslensku þingmannanna á hátíðinni út noti maður siðfræði Kants til viðmiðunar?
Einn þingmaður mætti ekki og annar fór út þegar danski fulltrúinn tók til máls. Setjum þetta í form reglu; Í hvert sinn sem óásættanlegur fulltrúi annars lands er sendur sem fulltrúi á opinbera hátíð íslenska lýðveldisins (eða fullveldisins) ætla ég (þingmaðurinn) að hunsa hátíðina eða ganga út af henni á viðkvæmu augnabliki.
Fyrir þingmanninn sjálfan er þetta merki um sterka sannfæringu og standa í fæturna gagnvart því sem viðkomandi telur ólíðandi í stjórnmálastefnu fulltrúans. Mótmælum er þó hægt að koma á framfæri á ýmsa vegu og því er hunsun ekki eina leiðin. Á bakvið hunsunina gæti einnig legið sú skoðun að ríkisstjórnin og Alþingi beri ábyrgð á komu danska fulltrúans og því beinist mótmælin gegn Alþingi að auki.
Við orðum þetta oft svona: „Hvað ef allir höguðu sér svona?“ Við getum því spurt: „Hvað ef allir þingmenn Alþingis hefðu annað hvort ekki mætt í hátíðina eða staðið upp og farið þegar danski þingforsetinn tæki sér stöðu í pontu?“ Lýsti það góðu siðferði þeirra? Það er ljóst að það hefði verið sérkennilegt. Allt í einu, á afmælishátíð fullveldis Íslendinga, hefðu allir látið sig hverfa vegna eins erlends fulltrúa sem þeim líkaði ekki við. Afmælishátíðin hefði liðast í sundur og fulltrúinn hefði furðað sig á slíkum ólíkindum og ekki borið því vel söguna. Íslendingar almennt hefðu líkast til einnig orðið forviða.
Það hefur einnig heyrst í fréttum að danski fulltrúinn sé handhafi íslenska stórriddarakrossins og að einn íslenskur handhafi ætli sér að skila inn sinni orðu þar sem hann vilji ekki vera í félagi með svo óverðugum orðubera eins og þessum danska fulltrúa. Yrði slík athöfn að almennri reglu meðal orðuhafa myndi rigna inn orðum til Bessastaða. Orðan væri dæmd ómerk út frá einu tilviki. Kannski er orðan ekki sérlega mikill heiðursvottur en það sést ekki á svip handhafa við viðtöku hennar og það liggur eitthvað meira að baki virði hennar en þau tilvik „misheppnaðra“ orðuveitinga sem liggja í sögu hennar.
Siðferði tengt hlutverki
Þegar maður metur breytni manneskju skiptir máli í hvaða hlutverki hún er gagnvart samfélagi sínu. Óháðir einstaklingar í þjóðfélaginu geta óátalið ákveðið að hunsa hátíðina vegna komu danska fulltrúans, enda bera þeir engar skyldur og gegna engu opinberu hlutverki þar. Öðru máli gildir um alþingismenn. Þeir eru fulltrúar kjósenda sinna og tilheyra löggjafarsamkomu Íslands – Alþingi, hvort sem að þeir eru hluti af ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu. Þeir eru því aldrei að gegna persónulegum erindum eða haga hegðun sinni líkt og í einkalífi þegar þeir koma saman í nafni hlutverks síns, stöðu og vinnu.
Afmælishátíð Alþingis á Þingvöllum vegna 100 ára afmælis fullveldisins er opinber viðburður sem felur í sér þátttöku alþingismanna. Án þeirra er ekkert Alþingi. Danski fulltrúinn hefur sínar stjórnmálaskoðanir og komst í ríkisstjórn danska þingsins með fulltingi danskra kjósenda. Íslenskir alþingismenn geta haft sínar skoðanir á því hvort fulltrúinn hafi verðskuldað stöðu sína en hingað er hann kominn sem fulltrúi Danmerkur en ekki sjálfs síns. Fulltrúinn var valinn til að segja eitthvað jákvætt um 100 ára sögu fullveldis Íslands og þau tengsl sem löndin áttu saman. Hann er því ekki kominn til að básúna eigin stjórnmálaskoðanir, nema að hann gangi á skjön við hlutverk sitt. Danir völdu fulltrúann og um það höfum við ekkert vald eða lögsögu. Okkur getur líkað illa við bakgrunn fulltrúans en við ráðum engu um hver hann er.
Á móti reglunni um að hunsa óviðurkvæmilega fulltrúa erlendra ríkja er sú regla að gegna starfi sínu sem alþingismaður, mæta í vinnuna og sýna samstöðu og virðingu afmælishátíðar sem varðar mikilvægt skref í sögu þjóðarinnar. Mæti allir alþingismenn á slíka hátíð Alþingis á Þingvöllum sýnir það samstöðu og sameiningu um að fagna þessum tímamótum. Það er bæði starf alþingismannsins og góð regla gagnvart vinnuveitendum sínum, þjóðinni. Hún er sterkust þegar allir taka þátt. Aftur reglan um að hunsa viðburðinn vegna eins gests er veikust þegar allir fara eftir henni – afleiðingarnar væru óviðeigandi (upplausn samkomunnar) og úr öllu samhengi við hlutverk gestsins.
Hvað er líklegt að Kant hefði gert? Eru aðrir valkostir?
Mér sýnist á þessum hugleiðingum að Kant hefði ekki hunsað hátíðina. Öll yfirveguð breytni hefur ákveðinn tilgang. Hér vill mótmælandinn koma skilaboðum bæði til danska fulltrúans og stjórnvalda (og þjóða þeirra) en þarf á sama tíma að heiðra hátíð og vinnuskyldu sína með mætingu sinni. Gæti ekki önnur leið en hunsun gengið upp sem siðferðilega réttmæt regla? Kant talaði um að undanþágur geti gilt um góðar reglur (eins og að mæta í vinnuna og heiðra starf sitt) en þær komi aðeins til af nauð. Var viðvera þessa danska fulltrúa nauð af því tagi sem réttlæta myndi fyrir hvern og einn þingmann að mæta ekki á hátíðina? Hafa einstaka þingmenn sérstaka stöðu sem leyfir þeim undantekningar frekar en öðrum?
En Kant hafði málsbætur fyrir mótmælandann því að siðferðisgildi breytninnar á að meta samkvæmt því hugarfari sem að baki liggur en ekki útkomunni. Gott hugarfar þingmannsins um að standa vörð um mannréttindi teldist því siðferðilega dyggðugt í huga Kants. Það sem vantar í umræðu Kants er hvernig við tökumst á við þann vanda þegar reglur og þau gildi sem á bak við þær standa skarast á, til dæmis í flóknum samfélagslegu samhengi eins og í stjórnmálunum. Það er því ekki víst að gildi frelsis, þ.e. réttur þingmanns til að fara eftir eigin samvisku þjóni alltaf best málstað hans því að gildi samstöðu um þjóðfélagsleg verðmæti geta á lúmskan hátt skilað meiri árangri. Með því að allir þingmenn láti það ekki á sig fá að Danir sendi fulltrúa sem þekktur er af rasískum hugmyndum iðka þeir samstöðu um hátíðina og þau gildi sem hún stendur fyrir. Þau gildi sem frelsuðu okkur undan konungsstjórn og gáfu okkur rétt til sjálfsákvörðunar fengju þannig athygli og upplyftingu. Þess utan væri heill Alþingis í heiðri hafður og orðstír þess lyft. Ekki veitir af. Það voru einmitt óæskileg áhrif frá Danmörku sem við vildum losna undan fyrir 100 árum. Samstaða var leiðin þá og gæti enn verið besta leiðin. Það má auðvitað iðka samstöðu á ýmsan máta t.d. með því að bjóða ekki slíkum fulltrúa hingað, en það var of seint að bregðast við með þeim hætti. Hver aðgerð á sinn tíma og stað. Í því liggur hluti siðferðilegrar dómgreindar; að vara sig á taktleysi og finna góðar leiðir til að koma baráttu sinni fyrir góðu mannlífi á framfæri.
Athugasemdir