Vart var hægt að hugsa sér heppilegri sendingu frá Dönum en hana Piu Kjærsgaard til að ávarpa hátíðarfundinn á Þingvöllum þann 18. júlí 2018 á 100 ára afmæli fullveldisins. Oft hef ég spurt mig hvers vegna við séum að reyna að halda uppi sjálfstæðu ríki – að reyna að lifa sem sjálfstæð þjóð hér norður í nyrstu höfum, svo gott sem norðan við hinn byggilega heim. Hefði ekki bara verið betra að flytja suður á jótlensku heiðarnar þegar það var í boði? Og oft hef ég bölvað pólitíkinni sem mér finnst ekki nema í meðallagi gáfuleg – og það frekar slöku. Svo er komið að þessu afmæli og maður spyr sig: Er tilefni til að fagna? Var þetta ekki bara einhver rembingur í þvergirðingslegri þjóð að vilja vera fullvalda? Var það ekki oflátungsháttur í þessu fólki hér í denn að segja: Við getum sjálf? Höfum við nokkurn tímann getað sjálf? Slíkum efasemdum var vikið burtu úr huga mér þegar Pia Kjærsgaard steig í pontu á Þingvöllum. Þar var komin lifandi sönnun þess að skrefið til fullveldis var ekki einhver vitleysa. Mikið er ég feginn að vera ekki undir danskri stjórn í dag.
En á þessu máli er líka önnur hlið, ekki síður jákvæð. Vissulega er það skammarlegt fyrir Alþingi Íslendinga að manneskja eins og Pia skuli ávarpa það á þessum hátíðisdegi. Við erum að fagna sjálfstæði – fullveldið var stærsta skrefið í átt að fullu sjálfstæði. Við erum að fagna því að hafa komist undan því að vera nýlenda, að hafa komist undan því að hafa yfir okkur herraþjóð. Og þá kemur til að ávarpa okkur manneskja sem hefur verið ötull talsmaður hugmyndarinnar um herra og þræl – um fólk sem hefur rétt og annað fólk sem er réttlaust. Hugmyndarinnar um þá sem eru handhafar valdsins og hinna sem þurfa að lifa við duttlunga valdhafanna. Þess vegna er það skammarlegt fyrir okkur, íslenska þjóð, að Pia skuli hafa komið til að ávarpa löggjafarsamkomuna á þessum hátíðarfundi. En það er reyndar ennþá skammarlegra fyrir Dani að hafa sent hingað þessa öfgafullu manneskju. Það er nánast eins og danska þingið hafi ákveðið að hæðast að hinu íslenska í tilefni afmælisins. Nema hvað að sjónarmið Piu eru ekkert grín og því er þessi sending engin háðsglósa heldur dapurlegur vitnisburður um dönsk stjórnmál. Hvernig má það vera að suður í Danaveldi sitji rasisti sem forseti þingsins? Sjónarmið hennar hafa lagt líf fjölda fólks í rúst. Þau eru banvæn. Kannski bað forseti Alþingis um að forseti danska þingsins kæmi, eins og bændur í gamla daga fóru í kaupstað og báðu um mjöl í poka. Og svo þegar heim var komið og átti að fara að baka úr mjölinu kom í ljós að það var maðkað. Pia er ekki bara forseti danska þingsins, hún er maðkurinn í mjölinu.
En svo er á þessu enn ein hliðin, og líklega sú jákvæðasta. Við erum sumsé að fagna 100 ára afmæli fullveldisins. Margir tala um þessa hátíð sem lýðræðishátíð. Lýðræði snýst um að fólk ráði sér sjálft – í lýðræði er það fólkið sem ræður en ekki keisari eða kóngur. Að vísu höfðum við kóng næstu 26 árin eftir fullveldið en það er önnur saga. Hann var hvort eð er hættur að ráða. Þess vegna erum við kát, dressum okkur upp og höldum lýðræðishátíð. En er það kannski of snemmt – eða of seint? Við teljum okkur trú um að við búum við lýðræði en þegar til á að taka, þá er þetta lýðræði harla bágborið. Það er að vísu hópur fólks sem ræður sér sjálfur, og ræður svo líka öðrum í krafti auðs og erfða. Á meðan býr fjöldi fólks við algert úrræðaleysi, hvort heldur í húsnæðismálum, menntamálum eða heilbrigðismálum. Hvað merkir lýðræði fyrir manneskju sem býr við algert úrræðaleysi? Og hvað með þær milljónir fólks sem hrekjast um heiminn, húsnæðislausar, heimalandslausar og réttlausar? Hvað merkir lýðræði fyrir manneskju sem knýr dyra á flótta frá stríði og ofsóknum en er mætt með krepptum hnefa? Hvers konar lýðræði er það, þegar fólki sem í örvæntingu hefur leitað að skjóli fjarri heimalandi er sagt að vegna þess að það hafi áður drepið niður fæti í öðru landi, þá verði það sent enn eina ferðina um álfuna þvera til að búa á götunni í algeru bjargarleysi? Við fögnum lýðræðinu og vissulega hefur margt gott gerst á þessum 100 árum frá fullveldinu, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum. En lýðræðið er ekki allra. Eða kannski mætti orða það svo: Í lýðræðinu ræður fólkið, en í okkar lýðræði eru bara sumir „fólkið“.
Reyndar er ástandið sumpart betra hér en víða annars staðar. Þrátt fyrir allt hefur rasismi ekki notið mikillar hylli á Íslandi. Auðvitað er hann til, en við erum enn ekki í þeirri stöðu að yfirlýstur rasisti sé forseti þingsins. En það gæti gerst ef við gleymum okkur. Ef við reynum ekki stöðugt að halda á lofti siðferðilegum gildum eins og jöfnuði, kærleika, vináttu og réttlæti er eins víst að forseti okkar þings verði innan fárra ára okkar eigin Pia Kjærsgaard. Það sem hefur unnist með langri baráttu á vettvangi réttlætisins, getur tapast á skömmum tíma. Þess vegna er ekki bara gott heldur beinlínis nauðsynlegt að fá hressilega áminningu um hversu brothætt manneskjulegt samfélag er. Og varla var hægt að fá hressilegri áminningu en maðkinn í mjölinu, Piu Kjærsgaard, til að ávarpa Alþingi á þeim stað þar sem íslenskt réttarríki varð fyrst til fyrir liðlega 1000 árum.
Pistillinn birtist upphaflega á Facebook-síðu Ólafs Páls.
Athugasemdir