Ekki má mikið út af bregða til að hætta skapist á Landspítalanum vegna kjaradeilu ríkis og ljósmæðra, að mati landlæknis. Yfirvinnubann ljósmæðra tekur gildi um miðja viku og mun staðan verða erfiðari í framhaldinu.
Alma D. Möller landlæknir birti pistil um málið á vef embættisins í dag. „Báðir aðilar verða að hugsa lausnamiðað og koma sér upp úr þeim hjólförum sem deilan virðist föst í,“ skrifar Alma. „Óásættanlegt er að láta tvær vikur líða milli funda, til þess er allt of mikið undir sem er heilsa mæðra og nýbura. Brýnt er að samninganefndir ríkis og ljósmæðra setjist saman að borðinu, gjarnan með aðkomu ríkissáttasemjara og standi ekki upp fyrr en búið er að leysa hnútinn og enda þessa deilu.“
Alma segir að heilbrigðiskerfið glími enn við afleiðingar verkfallanna 2014-2015, sem séu meðal annars biðlistar, ónóg mönnun og óánægja vissra starfsstétta. „Einhverjir hafa varpað fram þeirri spurningu hvort bregðast ætti við með lagasetningu,“ skrifar Alma. „Það kann að leysa mönnun einhverra vakta til skemmri tíma litið. Líklegt er hinsvegar að lagasetning skapi enn meiri óánægju meðal ljósmæðra og bitni enn frekar á mönnun til lengri tíma litið.“
„Má engan mann missa“
Alma segir alla tapa á deilunum og hætt sé við að ljósmæður sem þegar hafi sagt upp snúi ekki til baka þótt samningar náist. „Staðan í heilbrigðiskerfinu er þannig að það má engan mann missa,“ skrifar Alma. „Ljósmæður sinna fjölbreyttum og vaxandi verkefnum. Þær eiga stóran þátt í því að við Íslendingar erum með mæðra- og burðarmálsdauða eins og lægst þekkist.“
Landlæknir segir það ítarlegri aðgerðaáætlun Landspítalans að þakka að staðan sé ekki verri. Valkvæðum keisaraaðgerðum og fleiri verkefnum hafi verið beint á sjúkrahúsin á Akranesi og Akureyri og aðrar stofnanir. Brýna þurfi jafnframt fyrir konum að þær hiki ekki við að leita eftir þjónustu á Landspítala ef þörf krefur, þrátt fyrir stöðuna.
„Það er mat Embættis landlæknis að ekki megi mikið út af bregða til að hætta skapist,“ skrifar Alma. „Ekki er vitað hvenær næsti álagstoppur kemur - en slíkir toppar koma. Aldrei er hægt að sjá alla hluti fyrir, það er hið óvænta sem er mesta áskorunin fyrir starfsfólkið í heilbrigðiskerfinu. Augljóst er að róðurinn þyngist sífellt eftir því sem tíminn líður. Bæði þreytast þeir sem þurfa að vinna langt umfram vinnuskyldu auk þess andlega álags sem fylgir slíkum aðgerðum, slíkt skal ekki vanmeta.“
Athugasemdir