Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vill draga úr þéttingu byggðar og rýmka umferð um Grensásveg, Kringlumýrarbraut, Miklubraut og Bústaðaveg, þvert á stefnu flokksins fyrir kosningar í vor.
Þetta kemur fram í nýju hverfisblaði „Hverfið okkar - Reykjavík 108“, sem Félag Sjálfstæðismanna í Smáíbúða-, Fossvogs- og Bústaðahverfi gefur út. „Hverfisblaðið hefur verið í burðarliðnum um nokkurn tíma,“ segir í ritstjórnarpistli. „Það er ekki pólitískt þó svo þeir sem skrifa í blaðið hafi pólitískar skoðanir.“
Í blaðinu er, auk viðtals við Eyþór, grein eftir Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa flokksins. Á síðustu opnu þess kemur fram að í ritnefnd séu Elinóra Inga Sigurðardóttir, Erlendur Borgþórsson og Júlíus Valsson, sem öll hafa verið í stjórn hverfisfélags Sjálfstæðisflokksins. Á vefsíðu blaðsins stendur ekkert um tengsl þess við flokkinn, fyrir utan að fálki prýðir merki síðunnar.
Rýmri götur og göngubrýr yfir
Í viðtalinu talar Eyþór um skipulagsmál, sér í lagi hvað varðar hverfið í póstnúmeri 108. Viðtalið tekur Erlendur Borgþórsson, formaður hverfisfélags Sjálfstæðismanna. Erlendur spyr Eyþór hvort hann vilji „spóla til baka“ aðgerðum núverandi meirihluta í þágu þéttingar byggðar.
„Já, ég myndi vilja snúa til baka og rýmka vegakerfið víða, bæði Grensásveginn, Kringlumýrarbraut, Miklubraut, og Bústaðaveginn, þetta eru allt vegir sem eru orðnir eins og þrengdar slagæðar,“ segir Eyþór. „Við þurfum að fara í að snúa þessu alfarið við og bæta samgöngur í stað þess að gera þær verri.“
Aðspurður hvort slíkar framkvæmdir hafi neikvæð áhrif fyrir gangandi og hjólandi, segir Eyþór lausnina felast í að fjarlægja gönguljós og byggja brýr yfir vegina. „Ég sé fyrir mér göngubrýr yfir þessar helstu umferðaræðar til að létta á umferðinni,“ segir Eyþór. Þá bætir hann við að með því að létta á umferð muni strætó geta komið á réttum tíma svo „amma og afi geti fengið heimsókn frá afkomendunum.“
Þétting byggðar skapi „fátæka undirstétt öreiga“
Í viðtalinu segist Eyþór einnig vera andvígur þróunarverkefni í Skeifunni þar sem stefnt er að íbúabyggð á svæðinu. „Skeifan er eitt af þessum flóknu málum þar sem verið að umbreyta einhverju rótgrónu í eitthvað annað en það er en ég er frekar á því að það eigi að klára hverfin sem þegar er byrjað á og að menn séu síðan að vinna með hreint borð,“ segir Eyþór. „Við höfum því nefnt Örfirisey eða nýja Vesturbæinn, og Keldur, sem er miklu hagkvæmara heldur en að fara að brjóta upp gamlar götur. “
Í framhaldinu leiðist samtalið út í umræðu um þéttingu byggðar almennt. „Ég myndi vilja að gömul og gróin hverfi fái frekar að blómstra eins og þau eru í stað þess að reyna að breyta þeim í eitthvað annað,“ segir Eyþór. Nefnir hann að íbúðaverð í þéttari hverfum sé hærra en í úthverfum og talar um dýrar nýjar íbúðir í gömlum hverfum sem „lúxusíbúðir í boði Samfylkingarinnar“.
Erlendur spyr þá Eyþór hvort hann haldi að með þéttingu byggðar hafi núverandi meirihluti viljað „búa til fátæka undirstétt öreiga“. „Ég held að þetta hafi verið vel meint, en leiðin til heljar er stráð fögrum fyrirheitum eins og sagt er,“ segir Eyþór.
Viðsnúningur í stefnu frá því fyrir kosningar
Afstaða Eyþórs til þéttingar byggðar virðist viðsnúningur frá því fyrir kosningar, en hann skrifaði grein um málið í Fréttablaðið í janúar. „Þétting byggðar gengur út á það að fleiri búi á sama stað og geti sótt þjónustu stutta vegalengd,“ skrifaði Eyþór. „Með þéttingu byggðar eiga lífsgæði að aukast þar sem minni tími fer í að ferðast á milli staða og meiri tími er til að njóta.“ Gagnrýndi hann í framhaldinu frammistöðu meirihlutans í málaflokknum.
Þá tók Hildur Björnsdóttir, sem skipaði 2. sæti listans í kosningunum, í sama streng, talaði fyrir eflingu almenningssamgangna og sagðist vilja „alls ekki sjá einhver þriggja hæða, ógnvekjandi, mislæg gatnamót“ í viðtali í sama miðli. „Það er hægt að þétta víðar og þétta fleiri hverfi og það mun skapa aðstæður til að hverfið getið orðið meira lifandi,“ sagði Hildur.
„Baráttumaður af gamla skólanum“
Í formála skrifar Erlendur að líf Eyþórs hafi aldrei verið eintómur dans á rósum. „Hann er baráttumaður og hefur þurft að hafa fyrir því að koma sér áfram, bæði í tónlistarlífinu, viðskiptalífinu sem og í stjórnmálunum. Hann er baráttumaður af gamla skólanum.“
Þá lýsir hann því hvernig Eyþór „fór á rakarastofu, fékk sér herraklippingu og jakkaföt og lauk MBA-prófi í lögfræði frá HR og stundaði jafnframt nám við Harvard Business School“ og snéri úr tónlistarlífinu yfir í viðskipti.
„Hann á að baki afar farsælan feril í viðskiptalífinu og hefur sýnt að hann býr yfir frábærum stjórnunarhæfileikum,“ skrifar Erlendur. „Hann vekur athygli hvar sem hann fer vegna hlýlegrar framkomu og einlægni. Það er stutt í brosið og hann er alltaf reiðubúinn til að ræða málin.“
Athugasemdir