Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ætlar ekki að tjá sig um að afar fágætur hvalur hafi verið veiddur við Íslandsstrendur og landað í Hvalfirði aðfaranótt sunnudags.
Stundin falaðist eftir viðtali við Guðmund vegna málsins en þeirri bón var hafnað.
Í svari ráðuneytisins segir að hvalveiðar, Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofa heyri undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og því lægi beinna við að heyra í Kristjáni Þór Júlíussyni.
„Háum upphæðum af opinberu fé hefur
verið kastað á glæ til að styrkja þessa
áhugamenn um hvalveiðar.“
Guðmundur gegnir ráðherraembætti í umboði Vinstri grænna en flokkurinn samþykkti árið 2015 að berjast fyrir stækkun griðasvæðis hvala og verndun dýralífs í landinu og gerði það að einu stefnumála sinna.
Í samþykkt landsfundar Vinstri grænna sagði árið 2015: „Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna. Háum upphæðum af opinberu fé hefur verið kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar. Nú er mál að linni.“ Þá hafa Katrín Jakobsdóttir og Svandísar Svavarsdóttir, ráðherrar Vinstri grænna, sagt hvalveiðar ósjálfbærar.
Eftir að Vinstri græn gengu í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hefur farið minna fyrir andstöðu flokksins við hvalveiðar.
Nýlega lögðu tíu þingmenn fram þingsályktunartillögu um að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra yrði falið að „endurmeta hvalveiðistefnu Íslendinga og greina þjóðhagslegt mikilvægi veiðanna. Við matið verði m.a. horft til hagsmuna annarra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og sjávarútvegs og tillit tekið til vísindarannsókna, dýraverndarsjónarmiða og hagsmuna sveitarfélaga.“
Aðeins tveir þingmenn Vinstri grænna standa að tillögunni, þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, en þau greiddu bæði atkvæði gegn myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Reglugerð um hvalveiðar ekki breytt
Vakið var máls á hvalveiðum í tvígang í maí síðastliðnum. Í fyrra skiptið spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona Viðreisnar, Katrínu, hvort Vinstri græn væru enn á móti hvalveiðum og ef svo væri hvort þau myndu beita áhrifum sínum í ríkisstjórn til þess að stöðva veiðarnar.
Katrín sagði að hvalveiðikvótinn væri gefinn út til fimm ára og yrði endurskoðaður í haust. „Það er sérstök ákvörðun að ganga inn í það og snúa við fyrri ákvörðun, sem ég er ekki viss um að standist,“ sagði Katrín.
Katrín sagði brýnt væri að áður en ný kvótaákvörðun yrði tekið yrði að fara fram mat á umhverfisáhrifum hvalveiða, samfélagslegum áhrifum og efnahagslegum. Matið þyrfti að byggjast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og skoðað hvort eðlilegt væri að halda áfram hvalveiðum við Íslandsstrendur eða ekki. Þá sagði hún Vinstri græn standa við sína stefnu.
Síðar í maí beindi Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fyrirspurn til Guðmundar Inga þar sem hann spurði hvert eitthvað hefði breyst í stefnu Vinstri grænna varðandi friðun hvala. „Ef ekkert hefur breyst, hvernig hefur flokkurinn þá beitt sér í ríkisstjórn?“
Guðmundur Ingi svaraði eins og Katrín að veiðarnar byggðu á ákvörðun sem tekin væri með reglugerð frá árinu 2013 og gilti út árið 2018. „Hvað varðar ríkisstjórnina og áframhald á veiðum þá er það nokkuð sem engin ákvörðun hefur verið tekin um, en búið er að ákveða að ráðast í úttekt á því hvaða áhrif veiðarnar hafa efnahagslega á atvinnuvegi, fleiri en bara þann sem hér um ræðir,“ sagði Guðmundur jafnframt.
Athugasemdir