Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Niðurlægð og svikin á Hótel Adam

Eig­andi Hót­els Adam var dæmd­ur til að greiða tékk­neskri konu, Kri­stýnu Králová, tæp­ar þrjár millj­ón­ir vegna van­gold­inna launa. Hún seg­ir frá starfs­að­stæð­um sín­um í við­tali við Stund­ina. Hún seg­ist hafa ver­ið lát­in sofa í sama rúmi og eig­and­inn þar sem hann hafi ít­rek­að reynt að stunda með henni kyn­líf. Hún seg­ir að hann hafi líka sann­fært sig um að lög­regl­an myndi hand­taka hana því hún væri ólög­leg­ur inn­flytj­andi. Eig­and­inn neit­ar ásök­un­um henn­ar og seg­ir að það sé „ekk­ert að frétta“.

Hótel Adam við Skólavörðustíg í Reykjavík varð skyndilega alræmdasta hótel landsins þegar í ljós kom að reynt væri að blekkja gesti hótelsins til að kaupa kranavatn á hótelinu og að mun fleiri svefnpláss væru leigð út en leyfi var fyrir. Því fór svo að stór hluti hótelsins var innsiglaður af lögreglu og fjallað var um grun á vinnumansali.

Lykilstarfsmaður hótelsins á þeim tíma vann síðar mál fyrir dómi gegn rekstrarfélagi þess. Rekstrarfélagið fór tímabundið í gjaldþrot, en hótelið starfar enn þrátt fyrir að rekstrarleyfi þess hafi runnið út í nóvember síðastliðinn. Ekki liggur fyrir hvort hótelið sé með bráðabirgðarleyfi til reksturs. Starfsmaðurinn segir nú sögu sína í fyrsta sinn.

Kynntust í Prag

Þegar Kristýna Králová kynntist hótelhaldaranum Ragnari Guðmundssyni í Prag í október 2015 var staða hennar lituð af örvæntingu. Tveimur mánuðum fyrr hafði henni verið sagt upp störfum á kaffihúsi í miðbænum og hún var að verða peningalaus. Hún skuldaði húsaleigu og sjúkratryggingar og vinnuleit hennar hafði ekki skilað árangri.

Vinkona Kristýnar, sem starfar við vændi, sagðist þekkja íslenskan athafnamann sem ræki kaffihús í Prag og bauðst til að kynna þau.

Á fundinum bauð Ragnar Kristýnu að vinna fyrir sig á hóteli á Íslandi. „Enskan mín var ekki svo góð á þessum tíma,“ segir Kristýna blaðamanni Stundarinnar. „En eftir að hafa rætt saman í korter bauð hann mér 250.000 krónur í laun á mánuði, sem er tvisvar sinnum meira en ég myndi þéna fyrir sama starf í heimalandi mínu. Hann var ólmur í að fá mig til að vinna fyrir sig og bauðst til að borga fyrir mig  flugmiðann.“

Tveimur vikum síðar var Kristýna komin til starfa á Íslandi. Hún segir að það hafi alltaf verið draumur sinn að fara til Íslands, en það sem tók við eftir komu hennar varð fljótt martraðarkennt. Hún hafði ekkert tengslanet á landinu og hafði enga leið til að vita hvort yfirmaður hennar væri að segja satt eða ekki um raunverulega stöðu hennar og réttindi. Hún var svikin um laun og segir að Ragnar hafi sannfært sig um að lögreglan myndi handtaka hana þar sem hún væri ólöglegur innflytjandi.

„Hann var ólmur í að fá mig til að vinna fyrir sig og bauðst til að borga fyrir mig flugmiðann.“

Nú, tveimur árum síðar, er Kristýna loksins reiðubúin til að opna sig um atburðarásina þegar hún starfaði á alræmdasta hóteli Íslands og gera upp erfiðasta ár lífs síns.

Var sagt að Ísland væri öruggt land

Var flogið til landsinsEigandi Hótel Adam borgaði fyrir flugmiða Kristýnu til Íslands, en hún hóf störf án þess að fá kennitölu eða ráðningarsamning.

Kristýna kom til landsins 5. nóvember 2015 með tvær ferðatöskur og von um nýtt tækifæri. Hún var ekki óvön því að byrja upp á nýtt, en hún hafði átt erfiða æsku, glímt við vímuefnafíkn og verið um tíma heimilislaus á götunni. Með hjálp skaðaminnkunarverkefnis í Prag tókst henni að komast á beina braut og í kjölfarið var hún sjálfboðaliði til margra ára þar sem hún hjálpaði með fræðslu og að dreifa hreinum sprautunálum og öðrum gögnum til fólks sem var í sömu stöðu og hún.

„Ég var 21 árs þegar ég gat loksins gert mér grein fyrir því að ég vildi meira út úr lífinu,“ segir hún. Þaðan tók við margra ára glíma þar sem Kristýnu tókst að verða reglusamari, skera á eitraða vináttu, halda starfi og mennta sig á ný, en hún hafði aðeins lokið grunnskólaprófi. Þegar hún var orðin þrítug og kynntist Ragnari segist hún hafa skilið við þessi óreiðuár og verið edrú í rúmt ár.

Kristýna var í bágri stöðu þegar hún kom til landsins og hafði samþykkt að vinna í þrjá mánuði fyrir Ragnar og fá laun sín útborguð eftir þetta vinnutímabil. Með því móti gæti hún borgað skuldir sínar, safnað upp varasjóði á meðan hún leitaði að nýju starfi heima fyrir, og í senn skoðað þetta ævintýralega land sem hafði alltaf verið henni ofarlega í huga.

„Ég hafði aldrei unnið í öðru landi og mörgum vinum mínum fannst það fjarstæðukennt að ég ætlaði bara að grípa gæsina,“ segir hún. „En aðrir sögðu að þetta væri algjörlega hættulaust þar sem Ísland væri svo öruggt land.“

Fyrstu nótt hennar á Íslandi segir hún að Ragnar hafi reynt að sofa hjá henni.

Neitar ásökunumRagnar Guðmundsson sagði að það „væri ekkert rétt“ hjá Kristýnu. Hann neitaði að tjá sig við Stundina og sagði að það væri „ekkert að frétta.“

Var sett í hræðilega stöðu

Kristýna segir að þegar það hafi farið að kvölda á þessum fimmtudegi hafi Ragnar leitt hana í einkaherbergi sitt á efstu hæð hótelsins. „Þarna var eldhús, salerni, tvö svefnherbergi, stórt píanó og skrifstofa. Það fyrsta sem hann gerði þegar ég gekk inn var að loka og læsa hurðinni að aukasvefnherberginu sem var þarna svo ég þyrfti að sofa í sama rúmi og hann. Ég spurði hann hvort ég gæti fengið mitt eigið herbergi og hann sagði: „Nei, það er betra ef þú býrð hér.“ Ég spurði hvernig í andskotanum það væri betra fyrir mig, en enskan mín var mjög léleg þannig að ég féllst einhvern veginn á þetta og gerði bara það sem ég gat til að reyna að lifa þessa lífsreynslu af.“

„Hann hélt að ég væri bara önnur heimsk hóra frá Tékklandi, en ég ákvað fyrir löngu þegar ég var í neyslu að ég myndi aldrei selja mig.“

Að hennar sögn reyndi Ragnar strax á þessu fyrsta kvöldi að sofa hjá henni, en hún neitaði honum. „Hann hélt að ég væri bara önnur heimsk hóra frá Tékklandi, en ég ákvað fyrir löngu þegar ég var í neyslu að ég myndi aldrei selja mig. Ég gerði það ekki þá og ég ætlaði alls ekki að gera það edrú á Íslandi.“

Kristýna hóf störf daginn eftir og sökkti sér í vinnuna. Hún sá um kaffihúsið á jarðhæð hússins, innritaði gesti og sinnti öllum þeim skyldum sem fylgja því að vinna á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. En síðan segir hún að á hverju kvöldi hafi Ragnar freistað gæfunnar á ný og reynt að tæla sig. Kristýna segist ekki hafa átt neinn pening til að komast á almennan leigumarkað og þekkti enga sem hún gat gist hjá, þannig að henni hafi liðið eins og hún ætti engra kosta völ en að sofa í rúminu hans Ragnars; hún segist hafa verið hrædd um að missa starf sitt ef hún myndi styggja hann.

„Hann setti mig í hræðilega stöðu og reyndi
að sofa hjá mér á hverju kvöldi til jóla“

„Hann setti mig í hræðilega stöðu og reyndi að sofa hjá mér á hverju kvöldi til jóla. Hann fór oft að sofa langt á undan mér því ég var að innrita gesti til klukkan 3 á næturnar, en þá vaknaði hann, þuklaði á mér og reyndi að hafa mök við mig. Ég þurfti að ýta honum af mér og segja honum ítrekað að ég myndi ekki sofa hjá honum, en hann fór alltaf að nöldra. Hann sagðist vera í betra formi en menn á mínum aldri þar sem hann hvorki drekkur né reykir, en ég sagði við hann að hann væri á sjötugsaldri og meira en tvisvar sinnum eldri en ég. Hann misbauð mér algjörlega.“

Það var ekki fyrr en um hátíðarnar sem Kristýna segist hafa fengið sitt eigið herbergi í öðru húsi sem tilheyrði Gistiheimilinu Svani, sem er félag í eigu Ragnars. Kristýna segir að Ragnar hafi sagt henni að hann þyrfti plássið fyrir gest sem hann kallaði: „Framtíðar fyrrverandi konu mína.“

Ákvað að búa á ÍslandiEftir að kringumstæður Kristýnu bættust og hún fékk sitt eigið herbergi fór hún að endurhugsa hvort hún ætti að snúa aftur til Tékklands.

Varð ástfangin og ákvað að setjast að

Þrátt fyrir þessar hörmulegu aðstæður segir Kristýna að hún hafi verið ákveðin í að þetta myndi ekki buga hana því þetta starf átti að laga öll hennar vandamál. „Með laununum ætlaði ég að borga skuldir mínar, leigja nýja íbúð og gefa mér tíma til að finna nýtt starf heima. Síðar var mér ráðlagt að kæra hann fyrir kynferðislega áreitni, en á þeim tíma vildi ég ekki rifja þetta allt upp; mér finnst oft auðveldara að forðast mál frekar en að reyna að útskýra þau, því þá fer maður oft að rífast og ég vil það ekki.“ 

Kristýna segir að á þessum vikum eftir að hún fékk sitt eigið herbergi hafi allt breyst. „Ragnar fór út til Prag í einhvern tíma þannig að ég hafði meira frelsi til að sinna starfinu mínu og það veitti mér mikla hamingju; mér leið eins og ég væri að nálgast einhverju takmarki, og síðan varð ég ástfangin.“

Í húsinu á Lokastíg kynntist hún betur samstarfsfélaga sínum sem bjó þar og þau byrjuðu fljótt saman. Með auknu sjálfstæði og næði til einkalífs hætti Kristýna að líta á dvöl sína á Íslandi sem leið að markmiði og frekar sem markmið í sjálfu sér. Kristýna fór að spyrja sig af hverju hún ætti ekki að setjast að á Íslandi.

Þar sem aðstæðurnar höfðu bæst til muna eftir að hún flutti í eigin herbergi og hún naut vinnunnar svo mikið, segist Kristýna hafa reynt að ræða við Ragnar um að vinna lengur en þessa þrjá mánuði sem þau hefðu upprunalega rætt og að fá borguð laun. Eins og áður kom fram segir Kristýna að þau Ragnar hafi samið um að hún fengi laun sín útborguð eftir vinnutímabilið, en á þessum tímapunkti hafði hún ekki fengið neina launaseðla og var hvorki með samning eða kennitölu. Hún segist hafa fengið einhverja þúsundkalla frá Ragnari fyrir tannlæknakostnaði, sígarettum og þegar hún fór út að skemmta sér.

Þess ber að geta að kennitala er forsenda fyrir atvinnu á Íslandi; Vinnumálastofnun hefur heimild til að sekta fyrirtæki um 100.000 krónur á dag séu starfsmenn ekki með starfsmannaskírteini með kennitölu á sér.

Af gömlum vana segist hún hafa haldið utan um alla vinnutíma sína, og það sást greinilega að hún var að vinna mun meira en upprunalega hafði verið samið um. Kristýna segir að til hafi staðið að vinna fjóra vinnudaga á viku í sjö tíma í senn, eða um 127 tíma á mánuði – sem er tímafjöldi sem Ragnar staðfesti síðar fyrir héraðsdómi – en í nóvember vann hún 167 tíma og 256,5 í desember. Í stað þess að vinna hlutastarf segist hún í raun hafa unnið alla daga vikunnar nema sunnudaga og oft langt fram á nótt.

Hún segist hafa viljað geðjast Ragnari og ekki vera of ýtin, en þegar hún reyndi að ræða málið við hann segir hún að hann hafi síendurtekið sagst vera upptekinn en vilja ræða málið síðar. „Í febrúar var ég búin að vinna þarna í þrjá mánuði og ég spurði hann hvort hann vildi halda mér eða hvort ég þyrfti að fara. Ég sagði að ef ég yrði áfram þá vildi ég fá kennitölu og samning, en ég var búin að heyra að það væri krafa um það á Íslandi.“

„Ég sagði að ef ég yrði áfram þá vildi ég fá kennitölu og samning, en ég var búin að heyra að það væri krafa um það á Íslandi.“

Ragnar fór aftur til Prag snemma í febrúar og sagðist vilja ræða þetta mál eftir að hann kæmi aftur, en það varð ekkert úr því þar sem hótelið varð miðpunktur hneykslismáls sem snerist um hreinleika kranavatnsins.

Var látin átappa vatnsflöskur með kranavatni

Kristýna segir að eldri íslensk kona hafi leigt herbergi í eina nótt snemma í febrúar. Eins og oft áður var hótelið yfirbókað og herbergið sem hún hafði pantað var ekki á lausu. Kristýna segist hafa eytt þó nokkrum tíma í að koma henni í betra herbergi en henni hafði boðist af samstarfsfélaga hennar. „Tíu mínútum síðar hleypur hún niður til mín áhyggjufull og spyr hvað sé að vatninu.“

Í öllum herbergjunum var miði sem varaði við neyslu drykkjarvatns hótelsins og fólki ráðlagt frekar að kaupa sér vatnsflöskur af hótelinu á 400 krónur. „Það var auðvitað fáránlegt af Ragnari að gera þetta, en um jólin þegar það var sem minnst að gera þurfti ég að fylla 200 svona flöskur af kranavatni í kjallaranum. Ég segi konunni að það sé ekkert að vatninu, að þetta sé bara eitthvað sem yfirstjórnin hafi ákveðið og sé stílað á túrista sem vilja frekar geta tekið flösku með sér í bæinn. En hún var íslensk og Íslendingar eru rosalega stoltir af vatninu sínu þannig að hún tók myndir af vöskunum og flöskunum og öllu. Síðan á mánudeginum mætir fólk frá borginni sem vill taka sýni af kranavatninu.“

Varaði gesti við drykkjarvatniEigandi Hótel Adam hvatti gesti til þess að kaupa vatn í flöskum frekar en að drekka úr vaskinum. Neytendastofa komst síðar að því að þessi sala væri ólögleg.

Málið rataði fljótt í fjölmiðla. Þar sem Ragnar var ekki á landinu og ansaði ekki síma sínum þurfti Kristýna að svara spurningum fjölmiðla og yfirvalda. Eftir heimsóknir yfirvalda voru gerðar athugasemdir vegna húsgagna sem voru fyrir neyðarútgöngum og fjölda herbergja sem voru í útleigu; hótelið hafði aðeins leyfi fyrir níu gistirýmum en var að nýta tuttugu. Því var ellefu herbergjum innsiglað af lögreglu.

Kristýna segir að þrátt fyrir það hafi Ragnar engu að síður leigt þessi herbergi út. „Ég man þegar hópur af Austurríkismönnum kom og leigði alla hæðina. Ragnar sendi þá fyrst á annað hótel sem hann var með samning við, en þeim fannst það ekki nógu gott þannig að þeir komu aftur og Ragnar leigði þeim heila hæð í tvær eða þrjár nætur. Þetta var um helgi þannig að Ragnar treysti því að ef lögreglan ætlaði að koma aftur í heimsókn að þá myndi það ekki vera fyrr en á mánudeginum. Hann tók innsiglið af mjög varlega því hann vissi að hann þyrfti að setja það aftur á alveg eins og það var. Hann tók gríðarlega áhættu með þessu.“

Störfum fjölgar í ferðamannaiðnaðinumFerðaþjónustan er orðin að stærsta atvinnuveg þjóðarinnar og hefur haft mikil áhrif á vinnu- og húsnæðismarkaðinn.

Sannfærð um að hún væri ólöglegur innflytjandi

„Fólk frá Eflingu og Matvís kom og vildi ræða við starfsfólkið,“ segir Kristýna, en annar eftirlitsfulltrúinn staðfestir það við Stundina. „Það spurði mig hver kennitala mín væri og ég laug og sagðist bara vera að hjálpa til, að ég væri bara vinkona Ragnars. Ég hélt að Ragnar myndi kunna að meta að ég bæri hagsmuni hans fyrir brjósti og vildi ekki valda óþarfa vandræðum, en þegar hann kom aftur til landsins var hann mér reiður og kenndi mér um allt saman. Hann skammaði mig fyrir að leyfa Íslendingi að gista hér og sagði að það væri regla á hótelinu, en ég sagði honum að hann hefði aldrei sagt starfsfólki frá reglunni. Þar að auki hafði hún bókað herbergið sitt í gegnum Booking.com vefsíðuna og það er hægara sagt en gert að afbóka herbergi þar. Ragnar talaði síðan ekki við mig í mánuð eftir þetta.“

„Ég hélt að Ragnar myndi kunna að meta að ég bæri hagsmuni hans fyrir brjósti og vildi ekki valda óþarfa vandræðum, en þegar hann kom aftur til landsins var hann mér reiður og kenndi mér um allt saman.“
Lög brotinNeytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að Hótel Adam hefði brotið lög með því að gefa í skyn að kranavatnið væri ekki drykkjarhæft og hvetja gesti til að kaupa frekar vatnsflöskur.

Í öllum fréttaflutningnum neitaði Ragnar að tjá sig við fjölmiðla í gegnum síma eða tölvupóst. Þegar blaðamaður Fréttablaðsins hitti hann í persónu sagði Ragnar aðeins: „Ég hef ekkert við þig að segja,“ og „það er ekkert af mér að frétta.“ Ragnar svaraði hins vegar á endanum Neytendastofu um hvaðan vatnið væri átappað og játaði að það væri kranavatn úr húsinu. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að rekstraraðilar hefðu gerst brotlegir um lög um eft­ir­lit með viðskipta­hátt­um og markaðssetn­ingu með því að gefa í skyn að kranavatnið væri ekki í lagi. Þór­unn Anna Árna­dótt­ir, sviðsstjóri neyt­enda­rétt­ar­sviðs, sagði á sínum tíma að vegna þess að rekstraraðilinn hefði ákveðið að hætta sölu átappaða vatnsins myndi sekt ekki þjóna neinum tilgangi.

Sömuleiðis gerðu stéttarfélögin athugasemd við að Kristýna hefði ekki verið með kennitölu eða vinnustaðaskírteini og komu þeim athugasemdum áfram til Vinnumálastofnunar, sem eins og áður hefur komið fram, hefur heimild til að sekta fyrirtæki um 100.000 krónur á dag ef þau leiðrétta ekki mistökin. Vinnumálastofnun segist ekki hafa haft afskipti af Hótel Adam.

Eftir þessa atburðarás segir Kristýna að viðhorf Ragnars gagnvart henni hafi breyst. „Hann sagði mér að vegna þess að Ísland væri ekki í Evrópusambandinu þá þyrfti atvinnuleyfi til að vinna hér og þar sem ég hefði verið hjá honum í meira en þrjá mánuði væri ég í raun ólöglegur innflytjandi og gæti því ekki fengið kennitölu. Strax í mars sagði hann mér að ef ég færi til lögreglunnar þá myndi hún handtaka mig og henda mér úr landi.“

„Strax í mars sagði hann mér að ef ég færi til lögreglunnar þá myndi hún handtaka mig og henda mér úr landi.“

Kristýna segir að jafnvel þótt hún hafi gert það sem hún gat til að þóknast Ragnari hafi hann farið að ljúga meira og meira að henni. „Ég fékk leyfi til að fara í vikulangt frí til Prag í maí og Ragnar borgaði fyrir miðana, en hann hélt áfram að segja mér að ef yfirvöld myndu komast að því að ég væri að vinna fyrir hann að þá myndi ég lenda í vandræðum, en ekki hann. Ég reyndi að komast að málamiðlun við hann og gaf honum miða með öllum vinnustundum mínum og bað hann um að borga mér áður en ég færi út, en hann fór bara að hlæja eins og hann væri andsetinn. Hann sagði: „Heldurðu að ég skuldi þér svona mikið? Þú munt aldrei þéna svona peninga hér því ég borga svo háa skatta vegna þín.“ Hann sýndi mér einhverja miða með upphæðum þar sem hann borgaði 150.000 krónur á mánuði, en það var ekki í neinu samhengi við vinnuframlag mitt. Á endanum lét hann það líta út eins og ég skuldaði honum peninga.“

„Á endanum lét hann það líta út eins og ég skuldaði honum peninga.“

Komst til Eflingar

Í upprunalegu kröfu sinni bað Kristýna um rúmlega milljón krónur, en það var miðað við tímakaup sem hún komst síðar að að væri langt fyrir neðan kjarasamninga. Þar að auki segist hún hafa dregið rausnarlega frá kostnað út af tungumálakennslu, vegna flugmiða og annarra minni upphæða. Hún segist hafa vitað að hún ætti meira skilið, en þessi upphæð myndi samt breyta lífi hennar. En eftir viðbrögð Ragnars segist hún hafa brotnað niður og farið að leita að einhverjum öðrum lausnum. „Í fyrstu viku maí kom íslensk vinkona mín á kaffihúsið og sá mig þar grátandi bak við afgreiðsluborðið. Ég vissi ekkert hvert ég ætti að snúa mér, en hún sagði mér að það væri alltaf hægt að finna einhverja lausn hér á landi. Næsta dag sagði hún mér að fara í ASÍ.“

„Ég vissi ekkert hvert ég ætti að snúa mér, en hún sagði mér að það væri alltaf hægt að finna einhverja lausn hér á landi.“

Vinkonan staðfesti þessa frásögn við Stundina, en hún segist hafa séð Kristýnu ítrekað að störfum þarna. „Sama á hvaða tíma ég gekk framhjá fannst mér hún alltaf vera þarna í vinnunni. Það varð til þess að ég fór stundum inn og fór að spjalla við hana og spyrja hvort hún hafi verið þarna lengi og hvort hún hafi fengið borgað. Ég spurði hana nokkrum sinnum og hún sagði alltaf nei, en að hann Ragnar muni borga. Ég spurði hana hvort hún haldi utan um tíma sína og hún sagði já.“

Lögfræðingur hjá ASÍ fór með Kristýnu til stéttarfélagsins Eflingar sem er í sama húsi þar sem hún gaf ítarlega skýrslu og sýndi gögn sín. „Í kröfu minni hafði ég ekki rukkað sérstaklega fyrir vinnu á hátíðardögum, en Efling skipti þessu öllu upp í dagvaktir, yfirvinnu og stórhátíðarkaup og reiknuðu mun hærri laun á mig en ég hafði haldið að ég ætti inni. Ég var svo glöð og þau voru mér svo góð.“

Eftir það færði Kristýna eigur sínar í herbergi kærasta síns og fór út í fríið sitt.

Þurfti að púla í þrjá mánuðiEftir að Kristýna hætti á Hótel Adam segist hún hafa verið svo fátæk að hún hafi þurft að sleppa því að borða suma daga til að eiga fyrir strætisvagns fargjaldi til að komast í nýju vinnuna sína.

Þurfti að stela úr Bónus

Á meðan Kristýna var erlendis rataði mál hennar í fjölmiðla. Hún var ekki nefnd með nafni en Hótel Adam var það hins vegar.

„Þegar ég kom aftur til Íslands úr fríinu kom ég með eins mikið af dóti mínu og ég gat, því ég var búin að ákveða að ég vildi búa og byggja framtíð mína hér. Kannski líka eignast börn hér, því á Íslandi get ég fengið almennilega borgað fyrir vinnu mína og síðan notað þann pening til að ferðast um heiminn.“

Þegar Kristýna kom af flugvellinum segir hún að starfsmaður Ragnars hafi meinað henni aðgang að heimili kærasta hennar. Þetta var sama húsið og hún hafði búið í sem Gistiheimilið Svanur rak, en það er félag í eigu Ragnars. Hún segir að kærasti hennar hafi verið með leigusamning og sitt eigið herbergi og því hafi verið kallað á lögregluna þar sem Ragnar gat ekki meinað henni inngang. Kristýna segir að þetta hafi skapað gjá á milli kærasta hennar og Ragnars. „Hann sagði upp vinnunni og valdi mig frekar en Ragnar en þeir höfðu þekkst í mörg ár. Ragnar hafði útvegað honum þetta herbergi þegar ósætti kom upp á milli hans og barnsmóður hans. Síðar átti kærastinn eftir að hata mig fyrir það val.“

Kristýnu bauðst strax starf hjá ræstingafyrirtæki í Kópavogi og síðan hjá veitingahúsi í miðbænum, en hún segir að júní 2016 hafi verið erfiðasti mánuður hennar í að minnsta kosti tíu ár. „Mér leið eins og ég væri aftur á götunni, ég var alltaf svo þreytt og orkulaus. Á hverjum morgni fór ég í Kópavog og vann fullan vinnudag og síðan á kvöldin fór ég aftur í bæinn og vann kvöldvakt á veitingahúsinu. Við kærastinn lifðum frá degi til dags og töldum klinkið okkar til að komast að því hvort við ættum peninga fyrir sígarettum. Við fengum pening lánaðan hjá vinum okkar, en samt þurfti ég að sleppa því að borða í tvo daga til að eiga fyrir strætisvagninum í og úr vinnunni. Þegar ég var alveg að farast úr hungri þá fór ég í Bónus og stal brauði til að hafa orku til að mæta í vinnuna. Þetta var ótrúlega erfiður mánuður og við vorum bæði að telja niður dagana þangað til við myndum loksins fá útborgað.“

„Þegar ég var alveg að farast úr hungri þá fór ég í Bónus og stal brauði til að hafa orku til að mæta í vinnuna.“

Kristýna fékk umsvifalaust kennitölu hjá ræstingafyrirtækinu og gat stofnað bankareikning, borgað skatta og tekið þátt í samfélaginu, en hún segir að það hafi verið púl að halda sér á floti. „Kærastinn minn varð mér mjög reiður og sagði að ég hefði eyðilagt allt, að þessar aðstæður væru mér að kenna. Þetta púl frá júní til september drap sambandið okkar, að þurfa að deila einum lykli að litlu herbergi í svona langan tíma. Í ágúst tók hann gremju sína út á mér, lamdi mig illa og hrinti mér niður stiga. Ég var blá og marin í tvær vikur eftir það.“

„Í ágúst tók hann gremju sína út á mér, lamdi mig illa og hrinti mér niður stiga. Ég var blá og marin í tvær vikur eftir það.“

Kristýna segist ekki hafa kært hann því hún vonaði að hlutirnir myndu batna þegar parið flutti úr herberginu í íbúð á Hverfisgötunni í september, en það gerði það aldrei. „Við vorum fyrst æðisleg saman. Við gátum skilið hvort annað án þess að segja neitt.“

Í desember sama ár hringdu nágrannar í lögregluna þegar kærastinn var að ganga í skrokk á Kristýnu og henni var komið í Kvennaathvarfið.

Mætti í vinnu með glóðarauga

Eftir tveggja mánaða dvöl í athvarfinu segir Kristýna að hún hafi farið aftur til kærasta síns og gefið honum annað tækifæri. Í júní 2017 mætti hún í vinnu sína á Hard Rock veitingastaðnum með glóðarauga sem hún segir að kærastann hafi veitt henni.

„Ég ætlaði að hylja það með farða og vinna vinnudaginn minn en yfirmenn mínir sögðu að það kæmi ekki til greina, að það væri ekki í lagi. Þeir gáfu mér launaðan frídag og Stebbi hringdi í Kvennaathvarfið og lét vita af komu minni þangað. Þetta var á föstudegi og síðan á mánudeginum þegar ég kom aftur í vinnu gaf hann mér lykil að mínu eigin herbergi sem vinnan hafði útvegað.“

Þessi umræddi Stebbi er Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock, en hann staðfestir þessa atburðarás frá júní 2017 við Stundina. Hann segir að ofbeldið sem þáverandi kærasti hennar beitti hana hafi verið andstyggilegt, og að hún hafi þurft að þola nóg. „Hún er virkilega dugleg og leggur mikið á sig,“ segir hann. „Hún vill einfaldlega standa sig vel í starfi sínu.“ Þess má geta að Kristýna vinnur enn á Hard Rock.

Kristýna segir að hún hafi aldrei áður upplifað svona blítt viðmót frá vinnuveitanda og starfsfélögum. „Ég veit að ég hef aldrei áður verið í jafn góðu starfi. Enginn hefur áður komið svona fram við mig. Það skiptir ekki máli hvaða stöðu maður gegnir þarna, það er samt komið fram við mann eins og manneskju.“

„Enginn hefur áður komið svona fram við mig. Það skiptir ekki máli hvaða stöðu maður gegnir þarna, það er samt komið fram við mann eins og manneskju.“

Fékk tæpar þrjár milljónir borgaðar

Dæmdur til að greiða vangoldin launHéraðsdómur Reykjavíkur dæmdi R. Guðmundsson, félag Ragnars, til að borga Kristýnu 2,8 milljón krónur fyrir vangoldin laun. Gögn sem hann lagði fram voru ekki talin trúverðug.

Í millitíðinni hafði stéttarfélagið Efling unnið mikið í máli Kristýnar. Í júní 2016 sendi það launakröfu til Ragnars en fékk engin svör. Síðan stefndu þau R. Guðmundsson ehf., sem rekur Hótel Adam og er að fullu í eigu Ragnars, en fengu ekkert gagntilboð. Aðalmeðferð í máli Kristýnar lauk 5. október 2017 þar sem hún fór fram á að fá greiddar 2.323.553 krónur, ásamt dráttarvöxtum, fyrir vangoldin laun. Ragnar fór fram á að vera sýknaður af þessum kröfum, eða að lækka þessa upphæð verulega.

Vörn Ragnars byggðist á því að Kristýna hafi ekki verið starfsmaður R. Guðmundsson ehf. heldur Osbotns s.r.o. sem væri tékkneskt fyrirtæki í hans eigu, og því væri verið að stefna röngu fyrirtæki. Ragnar hélt því fram að Kristýna hefði beðið um að fá ekki ráðningarsamning og að hann hafi „orðið við þeirri beiðni þótt honum þætti beiðnin sérkennileg“. Einnig hélt hann því fram að þau hafi gert samning um að Kristýna myndi leigja herbergi af Ragnari á 80.000 krónur á mánuði, en að enginn skriflegur samning væri til „vegna þess að stefnandi hafi ekki viljað gera neina skriflega samninga vegna veru sinnar á Íslandi“.

Ragnar sagði að umsamin laun hafi verið 242.000 krónur á mánuð fyrir að vinna 28 tíma á viku, og að Kristýnu hafi verið borguð sú upphæð á hverjum mánuði í reiðufé eftir að leiga var dregin af. Ragnar sagðist einnig hafa orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna ósanninda sem komu fram í fjölmiðlum um vinnumansal á Hótel Adam, bæði þá fjárhagslegu tjóni „og einnig á orðspori“.

Héraðsdómur féllst ekki á skýringar Ragnars þar sem fyrir lá skortur á gögnum til að styðja frásögn hans. Til dæmis voru launaseðlarnir sem hann lagði fram dregnir í efa þar sem þeir höfðu ekki verið gefnir út mánaðarlega heldur allir í einu, 10. maí 2016, eftir að vinnusambandi hans og Kristýnar hafði lokið. Á þeim var líka tekið fram að hann hafi dregið 36,2% tekjuskatt af þeim, en engin gögn sýndu að hann hefði greitt þann skatt. „Ekki er gert ráð fyrir persónuafslætti svo séð verði og ekki er getið fjölda vinnustunda hverju sinni eða einingaverðs. Engin gögn hafa heldur verið lögð fram um félagið Osbotn s.r.o. eða eignarhald Ragnars Sigurðssonar á því, eða úr bókhaldi þess félags.“

Skortur Ragnars á gögnum til að styðja mál sitt var því dæmdur Kristýnu í hag. Ragnari var gert að greiða laun Kristýnar að fullu auk dráttarvaxta, svo og málskostnað. Á endanum dæmdi héraðsdómur Ragnari að borga Kristýnu rúmlega 2.860.000 krónur með dráttarvöxtum.

Varpar skömminni á RagnarEftir allar hremmingarnar segist Kristýna ekki skammast sín fyrir neitt, heldur að skömmin sé öll hans Ragnars fyrir framkomu hans.

„Einhver ákvað að hjálpa mér“

Fimm mánuðum eftir að dómur féll var Ragnar enn ekki búinn að borga þessi vangoldnu laun, og því fóru lögmenn Kristýnu fram á gjaldþrotaskipti yfir R. Guðmundssyni ehf. Beiðnin var tekin fyrir í héraðsdóm Reykjavíkur í maí. Ragnar mætti ekki fyrir héraðsdómi og því fór málið beint í úrskurð þar sem fyrirtækið R. Guðmundsson var úrskurðað gjaldþrota 16. maí. Lögmaður Ragnars fór fram á endurupptöku málsins og að réttaráhrif úrskurðsins féllu niður. 29. maí barst lögmönnum Kristýnu vangoldnu laun hennar auk málskostnaður, og afturkölluðu beiðni sína um gjaldþrotaskipti.

Íslandsbanki óskaði eftir því að húsið yrði selt á nauðungarsölu ef ekki yrði gengið frá greiðslu fjölda krafna sem námu 25 milljónum króna fyrir 14. júní. Þegar blaðamaður kom á staðinn var kaffihúsið enn þá opið og hótelið tekur enn við bókunum á netinu.

„Ég fór til ASÍ og Eflingar vegna þess að einhver ákvað að hjálpa mér,“ segir Kristýna, en hún er stéttarfélögunum og lögmönnum sínum mjög þakklát. „Ragnar gerði þau mistök að hafa mig of lengi í vinnu. Ef hann hefði sagt mér upp eftir þrjá mánuði eins og til stóð þá væri ég líklega ekki á Íslandi í dag því þá vissi ég ekki hvað ég ætti að gera. Þá hafði ég ekki skapað vináttusambönd og eignast tengslanet. En eftir hálft ár þá heyrirðu hvað er í gangi, þú getur lesið þig til og talað við fólk og komist að því að það eru til stéttarfélög sem geta hjálpað þér. Eftir svona langan tíma vissi ég að ég gæti ekki leyft honum að komast upp með þetta. Þess vegna fór ég til Eflingar, fékk lögfræðing, talaði við fjölmiðla og gerði allt sem ég gat því hann má ekki komast upp með þetta.

„Ég skammast mín ekkert fyrir þetta, skömmin er hans.“

„Hann hélt að ég væri veikgeðja og heimsk, að ég myndi gefast upp og fara aftur til Tékklands, en hann vanmat mig algjörlega. Þess vegna vil ég segja fólki söguna mína, því hann er örugglega ennþá að haga sér eins og koma svona fram við fólk. Ég skammast mín ekkert fyrir þetta, skömmin er hans. Honum ætti ekki að vera leyft að reka hótel.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Réttindabrot á vinnumarkaði

Starfsfólk launalaust fjórum mánuðum eftir gjaldþrot Sternu
ÚttektRéttindabrot á vinnumarkaði

Starfs­fólk launa­laust fjór­um mán­uð­um eft­ir gjald­þrot Sternu

Ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæk­ið Sterna var sett í gjald­þrot í mars og starfs­fólk­inu sagt upp, en síð­an var gjald­þrot­ið dreg­ið til baka. Fjór­um mán­uð­um síð­ar hafa fjöl­marg­ir ekki enn feng­ið laun eða upp­sagn­ar­frest borg­að­an frá fyr­ir­tæk­inu. Starf­andi fram­kvæmda­stjóri neit­ar því ekki að fyr­ir­tæk­ið sé hugs­an­lega að skipta um kenni­tölu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár