1 Stjórnmálamaður sem hefur í gegnum tíðina verið til gagnrýninnar umræðu vegna glannalegra yfirlýsinga heldur því fram í dag að íslenskir fjölmiðlar séu „í ruslflokki“ – þei séu „veikasti hlekkur“ samfélagsins og verri en embættismennirnir og stjórnmálamennirnir.
2 Alltaf er hætta á því að mannfæð á Íslandi skili okkur ekki nægilega sterkum innviðum mannauðs, og valdi líka hóphugsun. Þetta er áskorun íslensks samfélags, út af fyrir sig. Sama gildir um fjölmiðla og stjórnmálamenn í þeim efnum. Við erum Wuppertal í Þýskalandi eða Anaheim í Kaliforníu, einn þriðji af Volgograd í Rússlandi. Munurinn er sá að stjórnmálamennirnir hafa passað upp á að beina opinberum fjármunum til sín, sérstaklega mikið á Íslandi.
Sjá: Gríðarlegar launahækkanir kjararáðs – sem Alþingi skipar ásamt fjármálaráðherra að 4/5 hluta.
Sjá: Framlög til stjórnmálaflokka voru hækkuð úr 292 milljónum króna í 648 milljónir króna á þessu ári.
Sjá: Gríðarlegar endurgreiðslur á „aksturspeningum“ íslenskra alþingismanna – sem keyra langt fram úr kostnaði og langt fram yfir þingmenn samanburðarlanda – og stuðningur samflokksmanna við þær.
3 Íslenskir, einkareknir fjölmiðlar njóta hins vegar engrar ívilnunar, ólíkt því sem gerist í helstu samanburðarlöndum. Það hefur verið ákvörðun stjórnmálamanna, eins og framangreinds, sem segir nú að fjölmiðlarnir séu í ruslflokki. Hann er ekki sá fyrsti úr hans eigin flokki sem talar svona um fjölmiðla, sem eru í séríslenskum erfiðleikum vegna þess hvernig hann og félagar hans hafa unnið sína vinnu. Annar er núverandi formaður flokksins. Þegar þeir hreyta einhverju í fjölmiðla, eins og þeir gera, minnast þeir ekki á ákvörðun sína að hafa haldið fjölmiðlum veikum - sem breytist vonandi.
4 Eini íslenski fjölmiðlamaðurinn hjá einkareknum miðli, sem nýtur ríkisívilnana, er í sama flokki og þessi þingmaður. Hann tók þátt í að móta þær reglur að maður eins og hann fengi enga skerðingu á lífeyrisgreiðslum til sín, þótt hann hefði aðrar tekjur. Það sker hann úr öllum þeim fjölda eldri borgara og öryrkja sem eru skertir af litlum tekjum sínum við minnstu tilraunir til að afla sér aukinnar sjálfsbjargar. Þannig varð formaður flokksins langlaunahæsti fjölmiðlamaður landsins með 5,7 milljónir króna í mánaðarlaun hjá lífeyrissjóðnum og útgáfufyrirtæki sem skilar stöðugt tapi, og er stöðugt niðurgreitt af helstu sérhagsmunaaðilum íslensks samfélags.
Að Brynjar Níelsson sé íslenskur Trump er ekki uppnefni, heldur er grundvallarhugmyndafræðileg samsvörun á milli þeirra í þessum efnum. Það er: a) Andstaðan og vantrúin á sérfræðingunum. b) Gagnrýnin á stjórnmálamenn fyrir að taka sér ekki meira vald óháð sérfræðiþekkingu. c) Óþol fyrir fjölmiðlum - sem eru ekki fylgjandi honum. d) Útmálun á þeim sem vandanum og þar með neutralísering þeirra sem aðhaldsstofnana gagnvart stjórnmálamanni eins og honum.
Ef íslenskir fjölmiðlar eru í ruslflokki er helsta framlagið til þeirrar þróunar hjá mönnum eins og Brynjari Níelssyni og flokki eins og hans eigin. Og þeir sem hagnast best á veikum aðhaldsstofnunum eru stjórnmálamenn sem leyfa sér að ganga lengra en aðrir í sambandi sínu við sannleikann.
Það er með því að vera leitt áfram af slíkri hugmyndafræði sem Ísland getur stefnt aftur í ruslflokk – þar sem það raunverulega var – ekki sem táknmynd eða hliðstæða – eftir langvarandi völd og stefnu hans eigin flokks.
Athugasemdir