Íslenskur frambjóðandi lýsti því yfir á dögunum að heimsókn í höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti væri eins og að fara á Stasi-safnið í Austur-Berlín. Ekki virðist þetta hafa fengið mikinn hljómgrunn því Frelsisflokkurinn fékk færri atkvæði en nokkurt annað framboð Íslandssögunnar. Hitt er þó annað mál, að í austurhluta Þýskalands er enn víða hægt að sjá minnisvarða um Alþýðulýðveldið fallna. Og Stasi-safnið er aðeins eitt af þeim.
Ég var rétt kominn af unglingsárum þegar ég kom fyrst til þess sem nokkrum árum áður hafði verið Þýska Alþýðulýðveldið, eða DDR. Í Leipzig fannst mér nánast sem það stæði enn, menn voru með yfirvaraskegg og sítt að aftan, fáir töluðu ensku en í Vestur-Berlín hafði verið stungið upp á að ég reyndi rússnesku í staðinn. Ég var þó ekki hingað kominn til að æfa mig í rússnesku, heldur til að sjá Bob Dylan, sem nýverið hafði heillað mig (en fáa aðra) með tónleikum sínum í Laugardalshöll árið sem Þýskalöndin sameinuðust. Að sjálfsögðu enduðu tónleikarnir á friðarsálminum „Blowin‘ in the Wind,“ sem hann annars spilaði sjaldan á þeim tíma.
Athugasemdir