Síðastliðinn miðvikudagsmorgun var bifreið Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogsbæjar, lagt í bílastæði hreyfihamlaðra fyrir utan bæjarskrifstofur Kópavogsbæjar. Sé bifreið lagt í slíkt stæði, án þessu að gildu stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða sé framvísað, liggur 20 þúsunda króna sekt við stöðubrotinu.
Uppfært: Ármann Kr. Ólafsson hafði samband vegna fréttarinnar og sagðist hafa fyrir mistök lagt í stæðið.
„Ég tók ekki eftir þessu merki en ég er vanur að leggja hinum megin við húsið. Það kom orðsending til ritara míns um að ég hafi lagt þarna í stæðið og ég lét náttúrulega færa bílinn um leið. Ég trúði þessi eiginlega ekki og fór því út og sá þá að stæðið er merkt fyrir fatlaða í hellulögninni,“ segir Ármann. Hann segist aldrei af ásetningi eða vilja hafa lagt í stæði fyrir fatlaða og myndi aldrei gera. „Ég hef beðið um að stæðið verði merkt með betri hætti og biðst innilega afsökunar á þessu.“
Í málefnasamningi um meirihlutasamstarfs Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir kjörtímabilið 2018 til 2022 er lögð áhersla á aðgengismál fatlaðra. Þar segir að bæta þurfi aðgengi fatlaðra að stofnunum og útivistarsvæðum. Stæðið sem bifreið Ármanns var lagt í var fyrir utan helstu stofnanir Kópavogsbæjar.
Sektir við að leggja bifreið í stæði fyrir hreyfihamlaða án heimildar voru tvöfaldaðar fyrir þremur árum, úr 10 þúsund krónum í 20 þúsund krónur. „Þetta er alveg skýrt: Við byrjum á tvöföldun sekta, en förum hærra ef ófatlaðir hætta ekki að leggja í þessi stæði,“ skrifaði Dagur B. Eggertsson á Twitter, borgarstjóri Reykjavíkurborgar í tilefni hækkunarinnar.
Ármann er næstlaunahæsti bæjarstjóri landsins með 2.159.670 kr. á mánuði. Laun hans hafa hækkað um tæp 58% frá upphafi kjörtímabils, þegar þau voru 1.368.783 kr. Þess að auki fær Ármann bifreiðastyrk upp á 137.500 kr. á mánuði og 130.604 krónur fyrir að sitja í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Ekki náðist í Ármann við vinnslu frétttarinnar.
Athugasemdir