Þær 218 fjölskyldur sem tilheyra ríkasta 0,1 prósentinu á Íslandi áttu rúman 201 milljarð í hreinni eign árið 2016 samkvæmt skattframtalsgögnum ríkisskattstjóra, eða 6,3 prósent af öllu eigin fé landsmanna. Það er að meðaltali 923 milljóna eign á hverja fjölskyldu sem tilheyrir hópnum. Raunar er raunverulegt verðmæti eignanna talsvert meira í ljósi þess að í opinberum gögnum eru hlutabréf talin á nafnvirði en ekki markaðsvirði.
Margir þeirra sem tilheyra eignamesta 0,1 prósenti landsmanna voru einnig á meðal tekjuhæstu Íslendinganna árin 2016 og 2017 og þénuðu hundruð milljóna í formi fjármagnstekna. Alls féllu 48,9 milljarða tekjur í skaut tekjuhæsta 0,1 prósents landsmanna árið 2016, þar af 33 milljarða króna fjármagnstekjur, eða að meðaltali 224 milljóna heildartekjur á fjölskyldu og 151 milljónar fjármagnstekjur.
Sambærilegar tölur fyrir síðasta ár liggja ekki fyrir, en álagningarskrár ríkisskattstjóra sem voru opnar almenningi fyrri hluta júní gefa ágæta mynd af þeirri gríðarlegu auðsöfnun sem átti sér stað hjá tekju- og eignamesta fólki landsins í fyrra. Þetta er viðfangsefni ítarlegrar umfjöllunar sem birtist í nýja tölublaði Stundarinnar. Umfjöllunin verður birt í nokkrum hlutum hér á vefnum.
Um leið og gjaldendum fjármagnstekjuskatts fækkaði um 12 prósent milli ára voru tekjur af skattinum 21 prósentum hærri en í fyrra. Um 40 prósent fjármagnsteknanna sem urðu til árið 2017 voru í formi arðs, eða 56,4 milljarðar, meðan söluhagnaður nam 45,3 milljörðum. Þar af var söluhagnaður vegna hlutabréfa 38,4 milljarðar og rann allur til 3.682 fjölskyldna. Restin eru leigutekjur og vextir en fæstir greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum í ljósi þess að frítekjumark slíkra tekna nemur 150 þúsund krónum á ári.
Athugasemdir