Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag Stundina og Atla Má Gylfason, fyrrverandi blaðamann Stundarinnar, af meiðyrðakæru Guðmundar Spartakusar Ómarssonar.
Guðmundur Spartakus stefndi Atla Má og Stundinni vegna umfjöllunar í Stundinni um hvarf Friðriks Kristjánssonar í Paragvæ, en Guðmundur Spartakus kom fyrir í umfjölluninni þar sem íslensk lögregluyfirvöld reyndu mánuðum saman að ná sambandi við hann vegna málsins.
Guðmundur Spartakus vildi fá greiddar tíu milljónir króna frá Stundinni og Atla Má. Áður hafði hann tapað meiðyrðamáli gegn Sigmundi Erni Rúnarssyni, ritstjóra sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar. Hann stefndi einnig þremur fréttamönnum Ríkisútvarpsins. Yfirstjórn Ríkisútvarpsins tók ákvörðun um að greiða Guðmundi Spartakusi 2,5 milljónir króna í sáttagreiðslu, án þess þó að leiðrétta eða draga til baka fréttaflutning sinn.
Guðmundur taldi sig vera „ónefnda Íslendinginn“ í umfjöllun Stundarinnar um hvarf Friðriks. Að mati dómsins þótti ekki sýnt fram á það.
Í dómsorði kemur fram að fjölmiðlar hafi mikilvægu hlutverki að gegna. „Hafa fjölmiðlar mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni. Á almenningur rétt á að fá upplýsingar sem slík málefni varða og þurfa sérstaklega ríkar ástæður að vera fyrir því að skerðing á frelsi fjölmiðla geti talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi eins og nánar kemur fram í dómum Hæstaréttar Íslands... Slíkar skerðingar geta eftir atvikum átt við séu ósönn ummæli birt eða borin út opinberlega gegn betri vitund. Umfjöllun stefnda um hvarf Friðriks Kristjánssonar fellur undir framangreint enda telst það hlutverk fjölmiðla að fjalla um alvarleg mál sem kunna að vera refsiverð.“
Athugasemdir