„Það er skelfilegt að hugsa til þess en núna þremur og hálfu ári síðar stendur fjölskyldan enn í þeim sporum að vita ekki hvar Frikki er eða hvort hann er lífs eða liðinn. Eftir gríðarlega vinnu ákveðinna aðila innan lögreglunnar, yfirvalda, ráðuneyta, sendiráða, stofnana og einstaklinga á Íslandi og erlendis hefur margt komið fram en bara ekki þetta eina sem skiptir okkur, fólkið hans, máli. Hans hefur verið leitað með hefðbundnum og óhefðbundnu leiðum. Við höfum heyrt allar mögulegar kenningar, frá því að honum hafi verið ráðinn bani yfir í að hann hafi látið sig hverfa sporlaust, við höfum heyrt hryllingssöguna í nokkrum útgáfum og okkur hafa borist hundruð ólíkra ábendinga. Ekkert af þessu hefur verið hægt að sanna eða afsanna og ekkert hefur svarað þessari einu spurningu sem skiptir okkur máli – hvar er Frikki? Við erum komin á þann stað að við leitum ekki lengur svara um hvað gerðist eða hvers vegna? Það er hætt að skipta okkur máli. Við viljum bara fá svar við spurningunni – hvar finnum við Frikka?” sagði Vilborg Einarsdóttir, stjúpmóðir Friðriks Kristjánssonar, sem hvarf árið 2013. Vilborg vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið við Stundina.
Það var 27. mars 2013 sem Friðrik hringdi, þá aðeins þrítugur að aldri, í vin sinn og sagðist vera á rútustöð í Brasilíu. Ferðinni væri heitið yfir landamærin til Paragvæ. Ekkert í símtalinu gaf til kynna að Friðrik væri í vandræðum eða einhvers konar hættu. Friðrik hafði þá verið á ferðalagi í nokkrar vikur sem hófst í Hollandi. Sunnudaginn 31. mars reyndi Friðrik svo í þrígang á tíu mínútna tímabili að hringja í fyrrverandi kærustu sína sem þá var við nám í Kína. Hún náði ekki að svara. Þessi þrjú ósvöruðu símtöl eru síðasta lífsmarkið sem fjölskylda Friðriks Kristjánssonar greindi frá honum.
„Við viljum bara fá svar við spurningunni – hvar finnum við Frikka?“
Spurningar um sporlaust hvarf
Hvað kom fyrir Friðrik? Hvað gerðist eftir 31. mars? Tengist þetta íslenskum skipulögðum glæpasamtökum? Eru hryllingssögurnar sem gengu um undirheima um hvarf Friðriks á rökum reistar? Var Friðrik tekinn af lífi á hrottafenginn hátt í beinni útsendingu á Skype? Lét hann sig hverfa sporlaust? Er lögreglan með upplýsingar sem benda til þess að hvarf Friðriks hafi borið að með saknæmum hætti? Hafa lögregluyfirvöld í Paragvæ leitað hans í reynd? Hvar er Friðrik?
Friðrik Kristjánsson fæddist í Reykjavík 21. janúar árið 1983 í faðm fjölskyldu sem elskaði hann til tunglsins og til baka. Þegar Friðrik var þriggja ára gamall slitu foreldrar hans samvistum, en vinur fjölskyldunnar segir það hafa haft lítil áhrif á uppvaxtarár Friðriks. Hann eigi foreldra sem hafi aðeins skilið sem par, en ekki sem foreldrar og hans hagsmunir hafi alltaf verið í forgangi. Foreldrar hans fundu bæði ástina á ný skömmu eftir skilnað, Friðrik eignaðist stjúpforeldra sem tóku ástfóstri við hann og í framhaldinu fimm yngri systkini í fjölskyldunum tveimur.
Mikil og góð samskipti fjölskyldna Friðriks, vinátta og samstaða segir þessi sami fjölskylduvinur hafa skipt sköpum eftir að Friðrik hvarf. „Frikki var hvers manns hugljúfi. Frá þeim degi sem þessi fallegi bláeygði drengur fæddist færði hann stóru fjölskyldunni sinni endalausa gleði og hamingju og reyndist systkinum sínum einstakur stóri bróðir.“
Friðrik tilheyrði nánum vinahópi í Garðabænum, strákum sem kynntust litlir á leikskóla og héldu þétt saman fram á fullorðinsár. Hann var framúrskarandi námsmaður, lærði tungumál auðveldlega og stærðfræði virtist honum eðlislæg. Hann var öflugur íþróttamaður og hampaði tvisvar Íslandsmeistaratitli í knattspyrnu með FH á unglingsárunum. „Það kom snemma í ljós að Frikki hafði mikinn metnað og gerði alla hluti vel sem hann hafði áhuga fyrir, hvort sem það var í námi eða íþróttum. Frikki var bara einhvern veginn með allt á hreinu,“ segir vinur Friðriks.
Athugasemdir