Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, sem ber að fagna enda um vægast sagt umdeilda framkvæmd að ræða. Fulltrúar Vesturverks og HS Orku, sem eru framkvæmdaaðilar virkjunarinnar, halda því statt og stöðugt fram að virkjunin muni auka afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum og að langtímastörfum í Árneshreppi muni fjölga. Við nánari skoðun stenst þó hvorug þessara fullyrðinga.
Hvalárvirkjun mun sáralitlu breyta fyrir afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum, sérstaklega ekki út í stóru og fjölmennu botnlanga kerfisins, eins og Ísafjörð og Bolungarvík. Enda er hringtenging rafmagnslína á Vestfjörðum óskyld framkvæmd og ekki á teikniborðinu í nánustu framtíð. Virkjun munu heldur ekki fylgja nein langtímastörf, enda verður hún sjálfvirk. Það er óhætt að segja að fyrirhuguð virkjunaráform hafi mætt meiri mótspyrnu en forsvarsmenn Vesturverks og HS Orku gerðu ráð fyrir, og skýrir sennilega örvæntingarfullar aðgerðir þeirra til að keyra virkjunina í gegn. Kennir þar ýmissa grasa, til dæmis, er íbúum Árneshrepps, sem eru í kringum 40 talsins, boðið upp á ókeypis klæðning skólahússins, lagningu þriggja fasa rafmagns og hitaveitu út í Norðurfjörð. Tilboð Vesturverks eru skilyrt við virkjun en það virðist ekki eiga við um lögfræðikostnað sveitarfélagsins tengdum virkjuninni sem þeir hafa greitt. Að okkar mati siðlaust og örugglega ólöglegt en sýnir best dómgreindarbrest bæði fyrirtækjanna og oddvita sveitarstjórnar Árneshrepps.
Hagsmunaaðilar tala svæðið niður
Það sem slær okkur þó mest er að sjá fulltrúa þessara sömu fyrirtækja tala niður þá stórkostlegu náttúru sem er þarna að finna og verður undir verði virkjunin að veruleika. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu þann 21. mars sl. kemst Birna Lárusdóttir upplýsingafulltrúi Vesturverks svo að orði: „Sá hluti Ófeigsfjarðarheiði, þar sem stíflumannvirki Hvalárvirkjunar munu rísa, er dæmigerð vestfirsk háheiði. Landið er hrjóstrugt og gróðurlítið og veður þar oft válynd, jafnvel að sumri til. Varla má anda úr norðaustri án þess að allt fyllist af þoku. Svæðið er illa aðgengilegt göngufólki þar til í seinni hluta júlímánaðar því ár eru vatnsmiklar og jafnvel ófærar. Eftir miðjan ágúst er allra veðra von og gæta þarf sérstakrar varúðar á svæðinu. Það er því aðeins um einn mánuður að sumri sem er álitlegur til gönguferða á þessu svæði.“ Ekki könnumst við við þessar lýsingar Birnu og höfum við þó heimsótt þetta svæði alloft. Reyndar eru sumar lýsingar Birnu beinlínis rangar, til dæmis fullyrðing hennar um að ekki sé hægt að komast að fossunum nema einn mánuð á ári.
Birna er því miður ekki sú eina sem talað hefur niður náttúrufegurð þessa stórkoslega svæðis. Það hefur einnig Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði gert, en hann lýsir þessum sínum æskustöðvum sínum á einkar neikvæðan hátt í viðtali við Morgunblaðið og segir þarna vera „þoku í 300 daga á ári“. Pétur er annar tveggja aðila sem selt hafa Vesturorku vatnsréttindi sín fyrir háar fjárhæðir en hinn er ítalskur baron, Felix Von Longo-Liebenstein, sem á Eyvindarfjörð. Það er því nokkuð ljóst að þeir sem hafa mestan fjárhagslegan ávinning af Hvalárvirkjun reyna allt til að gera lítið úr náttúrunni – náttúru sem ekki getur varið sig árásum. Vissulega eru heiðarnar upp af Ófeigsfirði gróðurlitlar efst en neðar tekur við ríkulegur gróður og sérlega fallegar tjarnir. Fossarnir á svæðinu og klettum prýdd strandlengjan eru þó helstu gersemar svæðisins, steinsnar frá friðlandi Hornstranda og Drangaskörðum.
Máli okkar til staðfestingar, en einnig til að afsanna kenningar Birnu og Vesturverks, þá héldum við félagar ásamt Ragnari Axelssyni ljósmyndara og Sigurði G. Sveinssyni tölvunarfræðingi á fyrirhugað virkjanasvæði í byrjun vikunnar, nánar tilekið 20. maí. Veðrið var guðdómlegt og móðir náttúra í miklu stuði. Mjög greiðlega gekk að komast að fossunum og í þeim var mikið og blátært vatn. Þarna hefði Birna átt að vera – bæði til að sjá fegurðina en líka til að sjá hversu rangt hún fór með í grein sinni í Fréttablaðinu. Sannleikurinn er nefnilega sagna bestur - líka þegar náttúran á í hlut.
Athugasemdir