Margir ráku upp stór augu þegar ótal fylkingar fóru að lýsa yfir framboði til borgarstjórnar. Aldrei höfðu jafn margir, sem höfðu jafn lítið fram að færa, gert áhlaup á múrana í kringum ráðhúsið.
Þau voru með hamar, sleggju, kúbein, kústskaft, naglabyssu og neglur. Þau ætluðu öll sem einn að brjóta þennan múr og breyta borginni.
Nú bendir allt til þess að kjördagur, verði dagur hinna dauðu atkvæða.
Karlalistinn, Kvennahreyfingin, Alþýðufylkingin, Höfuðborgarlistinn, Frelsisflokkurinn, Borgin okkar - Reykjavík og Flokkur fólksins.
Nöfnin bera vissulega í sér stórhug, samstöðu alþýðunnar, frelsishugsjónina, einingu þjóðarinnar, sameiningu höfuðborgarinnar og borgarinnar okkar Reykjavíkur og fylkingu fólksins sjálfs, en því er ekki að neita að stefnumálin voru dálítið út og suður, þau vildu fjölga mislægum gatnamótum, bjarga flugvellinum, loka göngugötum, berjast gegn tálmun, kollsteypa feðraveldinu og útrýma reiðhjólum, þau voru í liði með guði eða börðust fyrir dýrðarríki sósíalismans.
Þetta hefur verið sannkölluð gleðiganga óvinsælla skoðana.
Sósíalistaflokkurinn var sá eini sem náði eyrum kjósenda og eignast kannski borgarfulltrúa í kosningunum á laugardag. Flokkurinn háði harða keppni við Flokk fólksins á samfélagsmiðlunum, keppt var í fátækt, útskúfun, sjúkdómum og drykkjuskap foreldra. Og Sósíalistaflokkurinn hafði betur.
Og lifir væntanlega kosningarnar af.
En ég dáist í laumi að dauðu atkvæðunum. Þau eru „rebel without a cause“, rokkstjörnur kosninganna, dauð í blóma lífsins, óspjölluð af sviknum loforðum, impótens á valdastóli, meðvirkni og spillingu. Enginn getur sakað þau um að hafa tortímt flugvellinum, byggt mosku yfir múslima, fækkað mislægum gatnamótum eða látið það átölulaust að gerspillt börn blaðri í farsíma í miðri kennslustund.
Þau eru dauð.
Og auðir og ógildir. Þeir fá sitt vanalega kikk á kjördag. Ímyndið ykkur tilfinninguna þegar auður gengur inn í kjörklefann, dregur tjaldið fyrir. Brýtur síðan saman seðilinn óútylltan, lyftir brúnum til himins í fyrirlitningu, gengur út og lætur auðan seðilinn detta með sveiflu í kassann.
Ógildur eyðir löngum tíma inni í kjörklefanum við að krota og krassa, skrifa níðvísur eða strika yfir frambjóðendur allra lista.
Auðum og ógildum verður ekki kennt um ástandið í borginni. Þeir sáu allan tímann í gegnum plottið.
En hvar eru óháðir? Þeir sem tóku kosningaprófið á vef Ríkisútvarpsins ráku sig fljótt á að ef þeir sögðust ekki hafa skoðun á málinu eða létu eiga sig að svara spurningunum, var þeim umsvifalaust vísað á Sjálfstæðisflokkinn. Hinu gullna jafnvægi verður einungis náð ef við sættumst við Sjálfstæðismanninn í okkur, berjumst fyrir lægri sköttum, hærri launum fyrir Sjálfstæðismenn, upprisu einkabílsins og eilífu lífi flokksins í borgarstjórn og ríkisstjórn. Kannski fæðumst við Sjálfstæðismenn en villumst af leið og rötum ekki heim.
Ég veit það bara að þegar fulltrúar nokkurra bráðum dauðra atkvæða í einhverjum nýjum flokki strengdu þess heit að fjölga mislægum gatnamótum, þá bara varð mér ekki um sel. Ég er ein af þessum manneskjum sem ætlar í Breiðholtið en lendi í Grafarvogi og kenni mislægum gatnamótum um ófarir mínar. Ef þeim fjölgar í borginni þá verð ég örugglega í eilífum hrakningum í umferðarhafinu, eða föst í umferðarteppu, með útvarpsþáttinn Reykjavik síðdegis í eyrunum, þar sem Vigdís Hauksdóttir spjallar við þáttarstjórnendur um Dag B. Eggertsson og Borgarlínu.
Pólitíkin er sjálf orðin nokkurs konar mislæg gatnamót. Ég kaus til vinstri í síðustu alþingiskosningum og ber óviljandi ábyrgð ásamt fjölda annarra á hægri stjórn í landinu. Svona er þetta, þú beygir til vinstri og ætlar í miðbæinn en allt í einu ertu komin til hægri á leið í Garðabæ.
Ég er ekki að halda því fram að þau atkvæði, sem lifa af í kosningunum á laugardag, tryggi okkur borgarfulltrúa sem hafa endilega svo merkilegar hugsjónir. Ég kaus líka fólk í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem sagðist bera hag barna og lágtekjufólks fyrir brjósti. Samt er það svo að um 500 börn hafa verið á götunni í Reykjavík án þess að fá inni í félagslegu húsnæði í þessu mikla góðæri. Ólafur Ólafsson gat hins vegar keypt sér leiguíbúðir úr Íbúðalánasjóði til að okra á fátækum fjölskyldum á sama tíma og yfirvöld í borginni ypptu öxlum og gerðu ekki neitt. Samt var hann í steininum en þau í ráðhúsinu.
Kannski er sama hvað maður kýs, að líkindum endar maður alltaf í Garðabænum.
Athugasemdir