Félagið Trans Ísland hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um orð formanns og stjórnarmeðlims félagsins á DV.is í dag, þar sem fjallað var um að þau teldu karlmenn „eiga skilið að deyja“, en ekki greint frá því að orðin féllu í kaldhæðni í hlaðvarpi þar sem tilgreint var sérstaklega að um ádeilu væri að ræða og sérstaklega tilgreint í upphafi að „fáránleg hugmynd“ væri að femínistar vildu útrýma karlmönnum.
Yfirlýsingin er send í nafni stjórnar Trans Ísland, en umræddir stjórnarmenn, Alda Villiljós og Sæborg Ninja, komu ekki að gerð hennar.
„Okkur finnst það fyrir neðan allar hellur að ritstjórn DV stilli þessu upp sem hatursorðræðu á forréttindahóp,“ segir í yfirlýsingunni. „Í þessari grein voru tilvitnanir í hlaðvarpið sem teknar voru úr öllu samhengi. Þessar tilvísanir voru settar fram af Öldu og Sæborgu, eins og hlaðvarpið allt, sem satíra. Eru karlmenn á Íslandi í dag virkilega svona hræddir um að trans fólk eigi eftir að rísa upp og fjöldamyrða karlmenn, þegar sagan segir okkur að það séu einmitt hatursfullir og reiðir karlmenn sem eru að drepa hundruðir trans fólks á ári,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir Trans Ísland að DV niðurlægi trans fólk til þess að fá smelli á frétt sína.
Kaldhæðni stillt fram sem viðhorfi
Á upptökunni, sem ekki var birt með grein DV, heyrast Alda Villiljós og Sæborg Ninja hlæja á þeim tíma sem þau láta ummælin falla, auk þess sem þau kynna í upphafi þáttarins að í hlaðvarpinu ætti að taka umræðu út frá þeim fordómum gegn femínistum að þeir hati karlmenn. „Þessi hugmynd, að femínismi snúist um það að við viljum útrýma öllum karlmönnum, sem er svo fáránleg hugmynd, þannig að við erum bara svona að taka þá hugmynd og bara hlaupa með hana,“ sagði Alda Villiljós í upphafi hlaðvarpsins.
Í frétt DV er hins vegar gengið út frá því að ummælin endurspegli raunverulegar skoðanir þeirra tveggja og er fyrirsögnin: „Alda og Sæborg segja karlmenn eiga skilið að deyja: „Lítum frekar á þá eins og kakkalakka““.
Í yfirlýsingunni er greint frá því að tilhneigingin sé að trans fólk verði fyrir ofbeldi karlmanna, en ekki öfugt. „Árið 2017 voru 325 trans manneskjur drepnar fyrir að vera trans. Ekki ein einasta trans manneskja hefur enn verið handtekin fyrir morð á karlmanni vegna kynvitundar hans.“
Yfirlýsing Trans Íslands
Í dag birti DV.is nafnlausa grein um feminískt hlaðhvarp sem tveir meðlimir í stjórn Trans Íslands reka saman. Í þessari grein voru tilvitnanir í hlaðvarpið sem teknar voru úr öllu samhengi. Þessar tilvísanir voru settar fram af Öldu og Sæborgu, eins og hlaðvarpið allt, sem satíra.
Okkur finnst það fyrir neðan allar hellur að ritstjórn DV stilli þessu upp sem hatursorðræðu á forréttindahóp. Þetta hlaðvarp er gott dæmi af hugtakinu „punching up“, þar sem fólk í jaðarsettum hópum (konur, trans fólk) gerir grín að valdhafandi hóp (karlmenn). Það er allt og sumt. Það er ekki samsæri og þetta er ekki útkall fyrir því að Trans Ísland vilji drepa alla karlmenn. Þessi grein og viðbrögð hennar gera lítið meira en að sanna það sem Alda og Sæborg hafa einmitt sem aðal þema í þessu hlaðvarpi: hvað samfélagið okkar er meðvirkt með eitraðri karlmensku.
Eru karlmenn á Íslandi í dag virkilega svona hræddir um að trans fólk eigi eftir að rísa upp og fjöldamyrða karlmenn, þegar sagan segir okkur að það séu einmitt hatursfullir og reiðir karlmenn sem eru að drepa hundruðir trans fólks (í stórum meirihluta trans konur) á ári. Það var meira að segja búið til úrræði sem heitir Trans Murder Monitoring Project til þess að fylgjast með þessum hatursglæpum, og fyrir árið 2017 voru 325 trans manneskjur drepnar fyrir að vera trans. Ekki ein einasta trans manneskja hefur enn verið handtekin fyrir morð á karlmanni vegna kynvitundar hans.
„Ekki ein einasta trans manneskja hefur enn verið handtekin fyrir morð á karlmanni vegna kynvitundar hans.“
Við viljum eining koma til skilar að efni hlaðvarpsins endurspeglar ekki stefnu Trans Íslands, þar sem barátta trans fólks er ekki grín, ólíkt efni hlaðvarpsins. Við fordæmum einnig stanslausa miskynjun á Öldu í gegnum greinina, jafnvel þó fornafn háns sé tekið fram og teljum það greinilega miskynjun af ásettu ráði í stað einfaldra mistaka. En við í stjórn Trans Íslands skiljum að það hlýtur að vera erfitt að þurfa stanslaust að leitast eftir fréttum til að halda áhuga á síðuni þegar það er svo mikið af netfjölmiðlum sem að keppast um smelli en við stöndum eindregið með Öldu og Sæborgu í þessari herferð hjá DV að kúga og opinberlega niðurlægja trans fólk til að viðhalda smellum á síðuna og peningum frá auglýsendum.
Athugasemdir