Kostnaður vegna ferða forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra til útlanda síðustu fimm ár nam um 27 milljónum króna. Kostnaður við ferðir ráðuneytisstjóra ráðuneytanna tveggja nam á sama tíma 17,5 milljónum króna en þess ber þó að gera að ekki liggja fyrir tölur um kostnað vegna ferða ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins nema fyrir árin 2013-2016. Alls nam því kostnaður vegna utanferða ráðherra og ráðuneytisstjóra ráðuneytanna tveggja á þessu tímabili 44,5 milljónum króna.
Þetta kemur fram í svörum ráðherranna tveggja við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra og ráðuneytisstjóra. Björn Leví hefur lagt fram viðlíka fyrirspurn til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar en svör hafa enn sem komið er ekki borist frá fleiri ráðherrum.
27 milljóna kostnaður forsætisráðuneytis
Kostnaður vegna ferðalaga forsætisráðherra til útlanda á síðasta ári nam rúmum 2,5 milljón króna vegna greiðslu dagpeninga, ferðakostnaðar og hótelgistingar. Á sama tíma nam kostnaður vegna slíkra ferða ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins rúmum 1,5 milljónum króna.
Kostnaður vegna ferða forsætisráðherra utanlands síðustu fimm árin, frá 2013 til og með 2017 nam í heildina rétt tæpum 18 milljónum króna sem skiptust þannig að 3,26 milljónir voru greiddar í dagpeninga, rétt tæpar 4 milljónir í dvalarkostnað og 10,7 milljónir í ferðakostnað.
Kostnaður vegna ferða ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins utanlands síðustu fimm árin nam tæpum 9 milljónum króna og skiptist þannig að 4,2 milljónir voru greiddar í dagpeninga, tæp hálf milljón í dvalarkostnað og 4,2 milljónir í ferðakostnað. Alls nam kostnaður vegna utanferða ráðherranna og ráðuneytisstjóra því rétt tæpum 27 milljónum króna á tímabilinu.
Lægri kostnaður í fjármálaráðuneytinu
Kostnaður vegna ferða fjármála- og efnahagsráðherra utan á síðasta ári nam tæpum 1,4 milljónum króna. Ekki koma fram tölur um kostnað vegna ferða ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir síðasta ár en árið 2016 nam kostnaður vegna utanferða ráðuneytisstjóra rúmum 2,2 milljónum króna.
Kostnaður vegna ferða fjármála- og efnahagsráðherra erlendis á síðustu fimm árum nam rúmum 9 milljónum króna. Greiddar voru 2,16 milljónir í dagpeninga, rúmar 4,6 milljónir í ferðakostnað og tæpar 2,4 milljónir króna í dvalarkostnað.
Kostnaður vegna ferða ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins nam á árunum 2012 til og með 2016 8,5 milljónum. Skiptist hann þannig að greiddar voru tæpar 2 milljónir í dagpeninga, rúmar 4 milljónir í ferðakostnað og rúmar 2,5 milljónir króna í dvalarkostnað.
Athugasemdir