Í nýrri grein í Kjarnanum ber Pawel Bartoszek, frambjóðandi til borgarstjórnar, alvarlegar sakir á núverandi borgarstjórnarmeirihluta án rökstuðnings eða vísunar í gögn eða staðreyndir. Pawel talar fyrirvaralaust um að Reykjavík sé að auka skuldir sínar í bullandi góðæri, í takt við narratífuna um að borgin sé rekin með óábyrgri skuldasöfnun, auk þess að staðhæfa að fjárhagsáætlun borgarinnar „dansi á mörkum ofurbjartsýni og ótrúverðugleika“. Pawel birtir tvö myndrit úr áætluninni máli sínu til stuðnings. Hið fyrra sýnir hvernig fjárfesting minnkar sem hlutfall af tekjum hjá samstæðu borgarinnar (A- og B-hluta) á tímabilinu 2018 til 2022. Í kjölfar þess segir í greininni:
Myndin [fyrra myndritið] er úr fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018-2022 og sýnir samstæðuna. Á kosningaárinu 2022 verða fjárfestingar sem sagt í lágmarki og aðhald mikið. Einmitt. Við eigum líka að trúa því að þrátt fyrir að nú sé Reykjavík að auka skuldir sínar í bullandi góðæri þá munu stjórnmálamenn á kosningaárinu 2022 keppast við að slá met og uppgreiðslu skulda:
Þessi síðari mynd vísar þó einungis til A-hluta borgarinar þó það komi því miður ekki fram í grein Pawels. Fjárfestingar A-hlutans minnka þó einnig mikið á tímabilinu og eru það þær fjárfestingar sem eru málinu viðkomandi og rætt verður um síðar í greininni. En hvaðan eru þessar auknu skuldir A-hlutans sprottnar? Gerir áætlunin ráð fyrir miklu aðhaldi á síðari hluta tímapunkti til að ná fram þessari niðurstöðu? Er áætlunin ótrúverðug? Með öðrum orðum, er málflutningur Pawels á rökum reistur, sanngjarn og réttmætur?
Skoðum myndina nánar og byrjum á hækkuninni miklu milli áranna 2016 og 2017, sem eru 13,2 milljarðar á myndinni. Fyrir neðan myndina í áætluninni þaðan sem Pawel fær hana stendur:
Árið 2017 hækka hreinar skuldir um 13,2 ma.kr. sem rekja má að mestu til uppgjörsins við Brú [lífeyrissjóðs]. Vegna uppgjörsins sem áætlað er að nemi 15 ma.kr. er gert ráð fyrir að handbært fé lækki en eign myndast sem langtímakrafa á Brú að fjárhæð 11,0 ma.kr. Þessi eign telst ekki með hreinum skuldum.
Skuldirnar á því ári jukust því „að mestu“ vegna einskiptisaðgerðar, og á móti myndaðist að stærstum hluta krafa sem er ekki talin með við útreikning hreinnar skuldar. Bókfærslan hér er ekki aðalatriði nema að því leyti að þessi skuldaaukning hafði ekkert með beinan rekstur borgarinnar að gera og ekkert hjálpar að horfa til hennar við mat á trúverðugleika rekstrarins til framtíðar.
Þá ber að nefna að tölurnar á myndinni eru á verðlagi hvers árs, sem þýðir að hver króna er minna virði eftir því sem líður á tímabilið. Frá og með 2017 eru hreinar skuldir á verðlagi 2017 eftirfarandi skv. spá áætlunarinnar (upphæð á mynd í sviga):
2017: 32,8 (32,8)
2018: 36,3 (37,3)
2019: 38,8 (41,0)
2020: 37,3 (40,5)
2021: 30,8 (24,3)
2022: 22,2 (25,3)
Skuldirnar eiga því að aukast á föstu verðlagi um 6 milljarða milli áranna 2017 og 2019 en ekki 8,2 eins og lítur út á mynd. Aukningin samsvarar sem nemur 3% af árlegum tekjum borgarinnar eins og sést á mynd. Við höfum nú séð að sýnd skuldaaukning borgarinnar er að hluta til komin vegna einskiptisgreiðslu, og að hluta er hún ýkt vegna verðbólgu. Þessi skuldaaukning á fyrri hluta tímabilsins „í bullandi góðæri“ virðist þó vera helsta atriðið sem Pawel notar til að rökstyðja meintan ótrúverðugleika áætlunarinnar, ásamt því að fjárfestingar borgarinnar séu ólíklegar til að dragast saman á næstu árum. Beinum nú sjónum okkar að síðara atriðinu, sem er náskylt hinu fyrra, og skoðum frekar málflutning Pawels. Niðurlag greinar hans er eftirfarandi:
Kosningaloforð Dags liggja þá fyrir. Í stað þess að skapa svigrúm til fjárfestinga í framtíðinni ætlar borgarstjórinn að fjárfesta eins og aldrei fyrr á toppi hagsveiflunnar og skera svo harkalega niður eftir því sem um hægist.
Það er rétt að spyrja hvort Dagur sé virkilega að lofa upp í ermina á sér. Er um að ræða harkalegan niðurskurð á síðari hluta tímabilsins? Pawel talar fyrr í greininni um áætlaðan harkalegan niðurskurð bæði í rekstri og fjárfestingu. Varðandi reksturinn þá er vandséð að boðaður sé niðurskurður í áætluninni, en sem fyrr segir eiga fjárfestingar að minnka mikið yfir tímabilið. Er það ótrúverðug eða óæskileg þróun?
Ef horft er til fjárfestingarhluta áætlunarinnar sem Pawel vísar til er ljóst að fjárfestingar eiga að vera stórlega minni hjá A-hluta borgarinnar á síðari hluta tímabilsins. Þar vegur þyngst liðurinn „fasteignir og stofnbúnaður“ sem á að lækka úr 7,5 milljörðum árið 2017 niður í 1,4 ma. kr. árið 2022. Þessi lækkun er meðal þess sem skapar rými samkvæmt áætluninni til niðurgreiðslu skulda. Það er kannski grunsamlegt, en þetta byggir þó á útgefinni fjárfestingaráætlun sem er sundurliðuð í hundruð atriða, allt niður í nýtt gervigras.
Áætluð er t.a.m. milljarðs króna fjárfesting Bílastæðasjóðs (sem tilheyrir A-hluta) undir þessum lið árið 2018 en 0 kr. frá og með 2020. Sömuleiðis er verið að byggja leikskóla í Úlfarsárdal með tilheyrandi kostnaði á árunum 2017 til 2019 ― og tilheyrandi kostnaðarlækkun í framhaldinu. Þannig má áfram telja til að fá út þessa niðurstöðu áætlunarinnar. Titill greinar Pawels er „Dagur lofar harkalegum niðurskurði fjárfestinga í næstu kreppu.“ Telur Pawel það til harkalegs niðurskurðar að byggja ekki húsnæði umfram metna þörf, eða hefur hann ef til vill rökstuddan grun um að starfsmenn Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúar séu að gleyma eða vantelja tiltekna þarfa uppbyggingu eða viðhald á síðari hluta tímabilsins? Pawel telur rétt að skapa svigrúm til frekari fjárfestinga. Hvaða fjárfestingar eru það? Gleymist kannski leikskóli, eða jafnvel bílastæðahús, einhvers staðar? Eða hefði Pawel viljað færa tiltekna uppbyggingu á síðari hluta tímabilsins?
Engu slíku er svarað í greininni. Fjárfestingaráætlun borgarinnar er bara slegin út af borðinu eins og hún leggur sig. Fjárhagsáætlun borgarinnar er fordæmd sem ótrúverðug. Slíkur málflutningur er hvorki ábyrgur né vandaður nema hann sé studdur rökum, og sönnunarbyrðin hvílir fullkomlega á þeim sem heldur slíku fram. Nýtt borgarstjórnarframboð Viðreisnar er tækifæri fyrir flokkinn og frambjóðandann, eftir snautlegan þingferil, til að koma fram af heiðarleika og stunda vönduð vinnubrögð. Ég hvet hann og flokkinn til að glutra því tækifæri ekki niður með óábyrgum yfirlýsingum í upptakti kosningabaráttunnar.
Athugasemdir