Íslenski flautukórinn var stofnaður árið 2003 og fagnar því 15 ára starfsafmæli í ár. Meðlimir hans eru starfandi hljóðfæraleikarar og tónlistarkennarar og er fjöldi þátttakenda breytilegur eftir verkefnum.
Íslenski flautukórinn heldur í samstarfi við Listasafn Íslands úti hádegistónleikaröðinni Andrými í litum og tónum síðasta föstudag í hverjum mánuði. Þetta eru ókeypis hádegistónleikar og þar koma meðlimir hópsins gjarnan fram í minni hópum og hafa oft gesti með sér.
Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari og meðlimur Íslenska flautukórsins, segir að einhver einnn úr hópnum taki að sér að sjá um tiltekna tónleika. „Þetta er góður vettvangur til að kynna fjölbreytta kammermúsík flautunnar. Við höfum staðið fyrir mörgum spennandi tónleikum og í síðasta Andrými, í lok mars, frumflutti Pamela de Sensi tvö ný íslensk verk eftir Gunnar Andreas Kristinsson og Harald Vigni Sveinbjörnsson en þessi verk eru skrifuð fyrir kontrabassaflautuna hennar. Í lok apríl mun Berglind María Tómasdóttir sjá um tónleikana í Andrými.“
Athugasemdir