Í síðasta pistli mínum minntist ég á fund Katrínar Jakobsdóttur og Angelu Merkel og sagði þar að ég vonaði að Katrín hefði verið heiðarleg og sagt Angelu Merkel frá því að dómsmálaráðherra Íslands hefði þann sjötta mars, um það leyti sem fundurinn í Þýskalandi bar að, verið að herða innflytjendalög á Íslandi. Síðar kom í ljós að Katrín vissi ekki um þessa nýju hertu reglu og heldur ekki Alþingi. Mér er spurn; er Ísland ennþá lýðræðisríki? Eða hefur dómsmálaráðherra tekið að sér stjórn landsins? Við heyrðum öll hennar eigin orð í viðtali á RÚV um að hún veit og kann allt og er sérfræðingur í öllum málum og því engin furða að henni finnist ekki þörf á að taka mál upp á Alþingi. Er þetta lýðræði?
Sjaldan eða kannski aldrei hefur verið slík gósen tíð hjá Sjálfstæðisflokknum að fá svona mörg sæti á Alþingi þó hann hafi fengið minna en fjórung atkvæða, já minna en fjórungur landsmanna kaus þá til starfa. En þarna fá þeir „Já-manna-flokka“ VG og Framsóknar og þar með öll þeirra sæti líka. Þvílík gæfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn að þurfa ekkert að hafa fyrir því að koma sínum málefnum í framkvæmd, ekki einu sinni þarf að taka mál upp á Alþingi því meirihlutinn vinnur, - ekki satt? Þetta væri nú ef til vill í lagi ef þeir væru í takt við þjóðina, það er að segja hin 76 prósentin sem kusu ekki hægri stjórn yfir sig. En loforð hinna flokkanna tveggja hvorki sjást né heyrast lengur.
Sagði ekki BB að fólk hlyti að vera geðveikt að sjá ekki hvað það væri gott að vera á Íslandi? Hann hitti reyndar naglann á höfuðið, mörgum geðveikum sem finnst ekki gott að vera á Íslandi. Mörgum öryrkjum finnst heldur ekki gott að vera á Íslandi, þó ekki séu þeir geðveikir, að ég tali nú ekki um eldri borgarana, en sjálfsagt er hægt að kenna þeim um „elli-geðveiki“ ef þeir eru ekki ánægðir með það sem þeir fá í ellilaun. Hvað með þá sem eru veikir og bíða eftir plássi á sjúkrahúsum landsins eða hjúkrunarheimilum, eru þeir líka geðveikir? Kannski Sjálfstæðisflokkurinn láti bara byggja geðveikraspítala til að hýsa þetta óánægða fólk sem hlýtur að vera geðveikt ef það sér ekki hvað það er gott að vera á Íslandi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.
Það sjá allir sem hafa augu að það eru þeir sem ráða. Menntamálaráðherra vildi sjálfsagt gera miklu betur við námsmenn ef Framsókn réði einhverju en varð að segja að skerðingum yrði aflétt í „skrefum“ svo mikið svona orð sem heyrist frá forystu Sjálfstæðismanna því þeir þurfa að nota peningana í annað. Kannski er áætlun þeirra að byggja þetta betra líf, undir þeirra kjörorðum; „Gerum lífið betra“, aðeins fyrir þessi 24 prósent þjóðarinnar, hinu sönnu Sjálfstæðismenn.
Margt gott fólk á Alþingi er að reyna að laga þjóðfélagið til hins betra og jafna réttindi landsmanna en Sjálfstæðismenn hafa völdin og koma í veg fyrir það með sínum mörgu sætum á Alþingi. Fyrirgefið að ég nefni ekki hina flokkana tvo, þá sem þarna fljóta með og engu virðast ráða en virðast hafa selt sín sæti býsna ódýrt.
Mér kom í hug þetta nýja orð sem ég vissi ekki að væri til en heyrði í útvarpi RÚV og er „undantekningarhyggja“. Allt það sem fært var í lög má nú brjóta vegna „undantekninga“. Allt það sem engum datt í hug að breyta í mörg herrans ár eins, og til dæmis siðferðisreglur sem þjóðin hefur sett sér og farið eftir um aldir, er nú brotið vegna „undantekninga“. Þeir sem gera þetta í krafti valds, hafa sýkst og sjúkdómseinkenni eru „undantekningarhyggja“. Við þessum sjúkdómi er víst ekki til nein lækning, því ef fólk einu sinni telur sig yfir aðra hafið, hyggur það ekki á að skipta kökunni með geðsjúklingum. Því hvað annað erum við í augum þeirra ef við sjáum ekki góðærið á Íslandi, eða hvað það er gott að vera á Íslandi þrátt fyrir að finna ekki fyrir góðærinu? Það er vissulega gott fyrir suma, engin spurning, en fyrir þá sem lifa á smánarlegum öryrkja- og ellilaunum sem ríkisstjórnir hafa þegar stolið hluta af í mörg ár, það er önnur saga.
Voru ráðamenn haldnir undantekningahyggju og hafa þess vegna skekkt lög landsins sér í hag með undantekningalögum? Þegar beðið er um lagfæringu á högum fátækra, öryrkja eða eldriborgara er svarið alltafÞ „Já, já, en bíðið þið aðeins, við getum ekkert gert fyrir ykkur strax! Við verðum að borga niður skuldir og huga að öðrum málum fyrst“. Það hljóta allir að sjá hvað það er gott að vera á Íslandi þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er að hjálpa fátækum, eldri borgurum og öryrkjum til mannsæmandi lífs, en bara ekki strax! En spurningin er; hvenær? Já, við hljótum að vera geðveik í augum Bjarna Ben að sjá ekki hvað það er gott að vera á Íslandi undir hans stjórn. En er hann ekki einn af þeim Íslendingum sem svikið hafa þjóðina um 15 milljarða í skattaskjóli Panama? Er það ekki geðveiki? Að minnsta kosti ekki heiðarleiki.
Nei, við erum ekki geðveik þó okkur finnist ekki gott að vera á Íslandi á sultarlaunum með ríkisstjórn sem eykur ójafnrétti með hverri ákvörðun sinni. Meirihluti þjóðarinnar kaus alls ekki Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Ben til að stjórna landinu, hann komst að með svikum VG, gleymum því ekki.
Athugasemdir