Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), mun leiða framboð Miðflokksins til bæjarstjórnar í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Geir lét af embætti formanns KSÍ á síðasta ári og hyggst nú demba sér í pólitíkina.
Geir var framkvæmdastjóri KSÍ á árunum 1997 til 2007 og formaður sambandsins árin 2007 til 2017. Hann hefur frá því hann vék úr stóli formanns, fyrir Guðna Bergsyni, unnið að sérverkefnum fyrir Knattspyrnusamband Evrópu.
Í fréttatilkynningu frá Miðflokknum er haft eftir Geir að stefna Miðflokksins verði að lækka álögur á íbúa Kópavogs og auka þjónustu bæjarfélagsins. Þá muni flokkurinn kynna stefnu sína frekar, sem og framboðslista, á næstunni.
Athugasemdir