Þegar ég var ung var ég mjó.
Og þegar ég vaknaði á morgnana og leit í spegilinn þá var ég oftast frekar sátt.
Núna er ég - tja, ekki ung. Og þegar ég lít upp úr vaskinum á morgnanna með tannburstann í munnvikinu og sé spegilmynd mína bregður mér stundum. Hver er hún eiginlega þessi gráhærða kona með þrútnu augun? Og svo tekur við einhver serimónía með krem, hyljara og allskonar undrakrem sem ég bind vonir við að geri mig minna gamla.
Stundum sakna ég þessarar ungu konu sem ég var. Þegar ég var hún var ég alltaf tilbúin til að gera eitthvað skemmtilegt. Koma mér í temmilega mikil vandræði til að geta hlegið yfir þeim seinna. Ég veit ekkert hvað varð um hana.
„Þessi sturlun að geta ekki horft í spegil og fagnað aldrinum.“
Ég er ekki lengur ung. Ég er ekki heldur mjó. Svo er ég orðin gráhærð og suma daga finnst mér ég svo ljót þegar ég vakna að mér fallast hendur. Eftir innspýtingu af kaffi líður mér aðeins betur og kremin virka upp að vissu marki.
Suma daga finnst mér erfitt að eldast. Ég á erfitt með að taka árin í sátt.
Svo koma dagar þar sem ég er í návígi við litlar manneskjur af ýmsum stærðum sem kalla mig ömmu. Ég varði helginni með einum ellefu ára og einni sem er alveg að verða fjögurra. Þau eru hluti af fimm barna hópi sem kalla mig ömmu.
Ég er ekki lengur ung og þessi sturlun að geta ekki horft í spegil og fagnað aldrinum, tekið honum af þeirri reisn og því stolti sem aldurinn á skilið er veikleiki minn.
Þessi sem er alveg að verða fjögurra ára telur niður dagana í afmælið sitt. Kannski ég fagni því bara jafn ákaft í sumar þegar ég verð fimmtíu árum eldri en hún.
Ég er ekki lengur ung.
Athugasemdir