Reykjavíkursáttmáli Sjálfstæðismanna var kynntur nýverið með pompi og prakt. Þetta er furðulega þunnt skjal en þó er ýmislegt þar sem má gleðjast yfir að sett hafi verið niður á blað.
Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn ætla til að mynda greinilega að hætta að þráast við að afhenda lóðirnar á Keldum til borgarinnar. Það er ánægjulegt að fara loksins að sjá fyrir sér uppbyggingu á þessu svæði, en borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna ítrekaði hugmyndir flokksins um uppbyggingu á atvinnu- og íbúðarhúsnæði á Keldum á fundi í Grafarvogi um daginn. Keldur eru einmitt meðal þeirra ríkislóða sem Sjálfstæðismenn ríkisins vegna við samningaborðið hafa verið tregir til að afhenda til borgarinnar.
Jóna Sólveig Elínardóttir, fyrrverandi varaformaður og þingkona Viðreisnar, sagði alþjóð frá skemmdarverkum Sjálfstæðisflokksins gegn uppbyggingu í Reykjavík vegna pólitísks óþols flokksins fyrir setu eigin fulltrúa í minnihluta borgarinnar. Það hefur lengi verið opinbert leyndarmál að Sjálfstæðisflokkurinn notfærir sér stöðu sína í ríkisstjórn til að tefja og skemma fyrir uppbyggingu í sveitarfélögum þar sem þeir eru í minnihluta. Þessu sagði Jóna frá eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar liðaðist í sundur vegna spillingarmáls. „Staðreyndin er auðvitað sú að síðustu áratugi hefur það verið þannig að Sjálfstæðismenn hafa ekki í rauninni, ef við segjum hlutina bara eins og þeir eru, Sjálfstæðismenn hafa bara ekki viljað tala við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Samfylkingarinnar. Þess vegna hefur ekki verið ráðist í nauðsynlega uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna hefur ekki verið hægt að úthluta þessum lóðum til borgarinnar,“ sagði Jóna í samtali við Stöð 2.
„Leikurinn er þá þessi: Tefja uppbyggingu á ákveðnu svæði, kvarta yfir því að ekkert gerist þar, ná völdum, fá lóðina, og klappa svo sjálfum sér á bakið.“
Fyrirhuguð uppbygging Sjálfstæðismanna á Keldum er í algjöru samræmi við aðalskipulag sem samþykkt var með atkvæðum allra flokka á sínum tíma. Þrátt fyrir það hefur flokkurinn lagt sig fram við að tefja og skemma þessar áætlanir.
Það að Sjálfstæðismenn í borginni trommi nú upp uppbyggingu á Keldum í fullkomnu samræmi við gildandi aðalskipulag, eins og það sé svakalega ný hugmynd sem þeir eigi, rennir enn styrkari stoðum undir þessa kenningu. Leikurinn er þá þessi: Tefja uppbyggingu á ákveðnu svæði, kvarta yfir því að ekkert gerist þar, ná völdum, fá lóðina, og klappa svo sjálfum sér á bakið. Stíga fram eins og meiriháttar hetjur, til að leysa vanda sem þeir áttu ríkan þátt í að skapa sjálfir.
Það er ekki að ástæðulausu sem að Píratar eru með ýmislegt skrifað í grunnstefnu sem virðist sjálfsagt. Það þykir nefnilega ekki öllum það í raun og veru sjálfsagt þegar á hólminn er komið.
Eitt af því sem segir í grunnstefnunni er:
1.1 Píratar leggja áhersu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.2 Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn þeirra eru.
Píratar hafa bæði á þingi og í borginni unnið að mörgum góðum málum algjörlega þvert á flokka. Í borgarstjórn hafa öll okkar helstu áherslumál venjulegast verið samþykkt alveg þverpólitískt. Það á nefnilega ekki að skipta máli hver stjórnar þegar um góð mál er að ræða til hagsbóta fyrir alla. Því miður gerist það þó allt of oft. Þessari óheilbrigðu stjórnmálamenningu vilja Píratar breyta - og því erum við óhrædd við að benda á það þegar við verðum vör við augljós dæmi um hana. Þannig lögum við stjórnmálaumhverfið. Þannig vinna Píratar.
Athugasemdir