Alexander Nix, sem rekinn var úr forstjórastóli breska greiningarfyrirtækisins Cambridge Analytica síðastliðinn þriðjudag, var einn aðalgesta haustráðstefnu Advania á síðasta ári. Í umfjöllun Advania um erindi Nix var honum lýst sem galdramanni og því lýst yfir að hann væri á leið til landsins til að kynna Íslendingum töfrabrögð sín í eigin persónu. Nix var rekinn eftir umfjöllun bresku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4 þar sem fram kom að Cambridge Analytica hefði beitt mútum og kúgunum gegn pólitískum andstæðingum umbjóðenda sinna.
Mikill styrr hefur staðið um Cambrigde Analytica síðustu daga eftir að umfjöllun Channel 4 fór í loftið. Í umfjölluninni kom fram að fyrirtækið hefði beitt óhreinum meðulum, og ólöglegum, í kosningabaráttum víðs vegar um heiminn og notað til þess ótölulegan fjölda undirverktaka og skúffufyrirtækja til að hylja slóð sína. Þá hefði stjórnmálamönnum verið mútað, þeim hefði verið boðnar vændiskonur og þeir sem hefðu bitið á agn fyrirtækisins síðan verið hótað að upplýsingar um slíkt yrðu birtar. Nix sjálfur lýsti sumum þessara bellibragða í samtölum við starfsmann Channel 4 en samskipti þeirra voru tekin upp á falda myndavél.
Beittu blekkingum til að komast yfir persónuupplýsingar
Um liðna helgi var greint frá því að fyrirtækið hefði með blekkingum safnað saman persónuupplýsingum tugmilljóna Facebook-notenda, allt að 50 milljóna notenda. Þær upplýsingar hafi síðan, að því er haldið hefur verið fram, verið notaðar til að hafa áhrif á kjósendur í bandarísku forsetakosningunum. Cambridge Analytica hefur enda hrósað sér af því að hafa unnið þær kosningar fyrir Donald Trump. Þá er vitað að fyrirtækið vann fyrir samtök sem studdu útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, og einnig hefur komið fram að það hafi unnið fyrir rússnesk stórfyrirtæki sem hafi náin tengsl við rússnesk yfirvöld. Facebook hefur legið undir háværri gagnrýni fyrir að verja ekki persónuupplýsingar notenda sinna betur en raun ber vitni og hefur Mark Zuckerberg, forstjóri fyrirtækisins meðal annars verið kallaður fyrir breska þingnefnd vegna málsins.
Talað um töfrabrögð
Sem fyrr segir var Alexander Nix einn aðalgestur haustráðstefnu Advania í Hörpu á síðasta ári. Í grein á vef Advania þar sem Nix var kynntur til sögunnar voru ekki spöruð stór orð um hann eða Cambridge Analytica. Aðferðum fyrirtækisins var þar líkt við töfrabrögð og tækniundur. Þá var á Facebook-síðu Advania birt færsla um erindi Nix, það sagt magnað og gestir hafi margir hverjir setið eftir orðlausir.
„Um mitt síðasta ár störfuðu 30 manns við forsetaframboð Donalds Trump. Starfsmenn Hillary Clinton voru 800 talsins og forskot hennar á keppinautinn var mælt í tveggja stafa tölum. Ekkert virtist geta komið í veg fyrir sigur Hillary og heimurinn bjó sig undir söguleg kosningaúrslit.
Við þær aðstæður var ákveðið í herbúðum Trump að leita til manns að nafni Alexander Nix, forstjóra fyrirtækisins Cambridge Analytica hafði þróað byltingarkenndar aðferðir til að hafa áhrif á hegðun fólks. Ýmsir töldu aðferðafræði Cambridge Analytica þegar hafa sannað sig, enda höfðu Brexit-sinnar nýtt sér þjónustu fyrirtækisins í aðdraganda kosninganna um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þar sem úrslitin komu flestum í opna skjöldu. Nú skyldi sömu aðferðum beitt til að ná hinu ómögulega markmiði: Að koma umdeildasta forsetaframbjóðanda sögunnar í Hvíta húsið. Árangurinn þekkja allir og Alexander Nix er orðinn heimsþekktur, ýmist sem galdra- eða glæframaður sem sumir telja jafnvel vera ógn við lýðræðið í heiminum. Sjálfur er maðurinn hinn viðkunnanlegasti, eins og Íslendingar geta séð í næstu viku þegar hann kemur til Íslands og kynnir okkur töfrabrögðin í eigin persónu,“ sagði í greininni.
Athugasemdir