Árið 2015 fór ég á minn fyrsta landsfund Sjálfstæðisflokksins. Nú var komið að því að endurtaka leikinn á nýrri bíldruslu. Nema hvað á leiðinni festist ég í uppáhaldi allra Sjálfstæðismanna borgarinnar: Umferðarteppu. Hvað var ég að hugsa að leggja svona seint af stað? Og það á föstudegi þegar allir frjálsir Íslendingar setjast aleinir upp í fjölskyldubílinn sinn og keyra úr vinnunni sinni í miðbænum til heimila sinna í úthverfunum.
Ekkert að gera í stöppunni annað en að hlusta á útvarpið. Að sjálfsögðu kom auglýsing fyrir vönduð amerísk grill. Og hvað næst? Nú náttúrulega Money, money, money með Abba. Það var eins og almættið væri að leikstýra sýningunni. Akkúrat á þeim tíma braust sólin í gegnum skýin og lýsti okkur umferðarsóðana í svifryksskýinu upp.
Money, money, money
Always sunny
In the rich man's world
Já Agnetha. Ég veit. Ef við bara værum á sjálfkeyrandi bílum í þessari teppu þá gæti ég að minnsta kosti slakað almennilega á. Notið kaldhæðninnar. Kannski Ásmundur Svifryksson sé fastur hérna einhverstaðar nálægt mér?
Á meðan splunkunýr Porche-jeppi tróð sér fyrir framan mig var mér einhverra hluta vegna hugsað til þess sem Styrmir Gunnarsson sagði við mig um árið. Að íslenskt samfélag væri svo lítið að það þyldi ekki þessa öfgafullu misskiptingu. Og nú var ég á leiðinni á árshátíð hugmyndafræðinga misskiptingarinnar.
Árið 2015 átti ég gríðarlega erfitt með að fá stæði og varð næstum fyrir bíl þegar Þorgerður Katrín keyrði nærri á mig. Þó hún yrði líklega ekki gestur á þessum fundi var ég samt búinn að ákveða að leggja við Suðurlandsbrautina og koma öfugu megin að Laugardalshöllinni. Um leið og ég kom yfir Suðurlandsbrautina blasti við mér þjóðarsport íslenskra auðmanna: Að leggja eins og þeir séu (sið)blindir. Öll tún og gangstígar bakvið höllina voru þakin lúxusbílum. Bílastæði kirfilega merkt „Einungis fyrir starfsmenn“ stútfull af eðalvögnum. Landslið ólöglegustu leggjaranna saman komið á einum stað. Ég horfði á öll þessi stöðubrot með ákveðinni lotningu. Gat ekki einu sinni látið þetta fara í taugarnar á mér. Svona einbeittur brotavilji er aðdáunarverður, á einhvern úrkynjaðan sjálftöku-hátt.
Þegar ég svo loksins kom inn í höllina, þar sem landsfundurinn fer fram, var mér létt að sjá að Bjarni minn Ben var ekki byrjaður að messa yfir sanntrúuðum pöplinum. Ég gekk inn í salinn og hélt að einhver væri að gera grín. Money með Pink Floyd var í græjunum. Ég er ekki að ljúga þessu. Algjörlega kaldhæðnislaust hafði einhver tekið þá ákvörðun að þetta lag ætti að spila áður en Bjarni stigi í pontu.
„... svo maður geti drukkið kampavín og hlustað á kallinn“
Aftast í salnum var verið að selja kampavín, að sjálfsögðu, en það var ekki byrjað að selja. Einn ungur var ósáttur við þetta og sagði að það ætti að opna nokkrar flöskur strax „svo maður geti drukkið kampavín og hlustað á kallinn.“ Kallinn sko. Einnig var þarna hægt að kaupa grillsvuntu, heiðbláa, með Sjálfstæðisfálkanum á. Að sjálfsögðu.
Money, get back
I'm all right, Jack, keep your hands off of my stack.
Money, it's a hit
Don't give me that do goody good bullshit
Á rölti mínu í gegnum salinn rak ég augun í Benedikt Sveinsson, pabba Bjarna. Einhverra hluta vegna datt mér í hug að það eitt það sniðugasta sem þú getur gert sem barnaníðingur á Íslandi er líklega að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Þannig tryggir þú að ef upp kemst um ofbeldi þitt gagnvart börnum áttu meiri líkur á uppreistri æru. En bara hinir praktískustu pedófílar hafa látið sér detta þetta í hug. Þar sem ég sat þarna umkringdur fólki velti ég því ósjálfrátt fyrir mér hversu hátt hlutfall landsfundargesta í hringum mig væru barnaníðingar. Fékk smá hroll. Sá nokkra gesti sem höfðu tekið börnin sín með sér. Hugrakkir eða kærulausir?
En ég hafði ekki mikinn tíma til þess að komast að niðurstöðu, þar sem ljósin í salnum voru myrkvuð og áróðursmyndband Flokksins fór að rúlla. Á langborðum um allan sal þagnaði fjöldinn, tilbúinn að hefja móttöku boðskapsins eina. Í myndbandinu var dregið saman að í rauninni sé allt það besta sem komið hefur fyrir landið á síðustu árum Sjálfstæðisflokknum að þakka. Landið sé að byggjast upp og það hafi aldrei verið opnara. Já ok? Væruð þið til í að segja fjölskyldunum sem við rekum úr landi það? Væruði til í að segja það unglingnum sem við framkvæmdum umdeilda tannskoðun á, til þess að sjá hvort hann væri ekki örugglega að ljúga að okkur um aldur, hentum honum svo inn í fangelsi þar sem hann var laminn í stöppu og sendum hann svo úr landi med det samme. Til í að koma því til skila? Af því þau eru ekki á þessum fundi til að heyra að landið okkar hafi aldrei verið opnara.
Myndbandið endaði á dúndrandi júrópoppi. Ljósin upp. Standandi lófaklapp á meðan foringinn gengur í mahónípontuna. Framan á henni er risavaxinn, gylltur fasista-örninn með spilltan vængfaðminn útbreiddan. Undir lófaklappinu hvíslaði hann út um gogginn „leyfið barnaníðingunum að koma til mín“.
Á meðan formaðurinn hóf ræðuna sína settist Jón Kristinn Snæhólm hjá mér. Í myrkrinu. Aftast í salnum. Bjarni fagnaði því að elsti gestur fundarins yrði 97 ára á þessu ári. Hann sagði frá því að þessi öldungur hefði komið til sín fyrir kosningarnar 2013 og sagt að það þyrfti að passa sig að nota Facebook rétt. Ætli það hafi semsagt verið hans hugmynd að dreifa nafnlausum skítaáróðri um aðra flokka á samfélagsmiðlum? Það er einn framsýnn og undirförull öldungur.
Einn bás var aftast í salnum þar sem fundarmenn voru hvattir til að styrkja Sjálfstæðisflokkinn. Stór borði var vinstra megin við sviðið þar sem á stóð „Ert þú ekki örugglega styrktarmaður?“ Ég velti því þarna fyrir mér hvort flokkinn vantaði peninga frá félagsmönnum til þess að borga til baka alla tugmilljónirnar sem flokkurinn hlaut í styrki frá alræmdustu útrásavíkingunum okkar í aðdraganda hrunsins. Styrki sem þeir lofuðu hátíðlega að þeir ætluðu að borga til baka, en hafa ekki svarað neinum spurningum um ... nehhh.
Þarna sat ég og hlustaði á Bjarna úthúða flokkunum sem höfðu verið með honum í ríkisstjórn en riftu stjórnarsamstarfinu. Flokkar sem afsöluðu sér völdum eftir að ljóstrað var upp um að Sjálfstæðisflokkurinn hafði einnig verið í samstarfi við barnaníðinga um allt land um að hreinsa mannorð þeirra. Kallaði hann þá „smáflokka“ sem skorti „styrk og reynslu“ til að vera ekki að „rugga bátnum“ en svo „duttu þeir bara sjálfir út í, og út af þingi.“ Þá var mikið hlegið og klappað. Heimsku smáflokkar með hugsjónir. Ógeðslega heimskir og reynslulausir að nenna ekki meðvirkni með flokk sem hreinsaði ítrekað æru barnaníðinga og reyndi svo að fela hreinsunina. Hehe. Algjörir smáflokkar.
Og þar sem ég hlustaði á þennan mann, með sína drulluskítugu sögu úr viðskiptalífinu, einkalífinu og pólitíkinni velti ég því fyrir mér hvað Haukur Hilmarsson, sem nýverið féll fyrir hugsjónir sínar í baráttu við fasista, segði ef hann sæti við hliðina á mér. Hvað þætti honum um allan þennan íburð og áróður? Auðvaldið og spillinguna? Ég ætla ekki að leggja honum orð í munn, en það væri eflaust eitthvað afdráttarlaust með vigt.
Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki öllu sem Bjarni sagði. Hálftíma ræða er of mikið til að ég geti haldið einbeitingu allan tímann. Og þó skrifaði ég niður minnispunkta: Bjarni talaði niður þá sem töluðu fyrir Evrunni og ESB (jafnvel þó hann hafi sjálfur verið þeim megin á sínum tíma). Hann sagðist vilja sjá fleiri einkarekna leikskóla, því hér á landi væru þeir hlutfallslega færri en á Norðurlöndunum. Svo lagði hann alveg sérstaka áherslu á að við ættum sko að miða okkur við Norðurlöndin. En ættum við þá ekki einnig að taka mið af því hvernig stjórnmálamenn á Norðurlöndunum takast á við spillingu? Nei, ég segi svona.
Hann stærði sig af því að ríkisstjórnirnar hans væru búnar að borga niður 600 milljarða af skuldum. Hann sleppti því að minnast á að á sama tíma þarf einstaklingur með heilablóðfall að bíða á bráðamóttökunni eftir því að hitta lækni. Á sama tíma sýna rannsóknir sýna að öryrkjar eru nánast allir þunglyndir og upplifa sig niðurlægða. Á sama tíma búa 11 þúsund börn á Íslandi við fátækt. Ellefu. Þúsund. Börn.
Aha aha
All the things I could do
If I had a little money
It's a rich man's world
Það er partý. Ekki trufla.
Að lokinni lofræðu um sjálfan sig í formi upptalningar á öllum sköttunum sem búið er að lækka stóð salurinn upp og klappaði. Uppáhald Sjálfstæðismanna - skattalækkanir. Meiri peningur fyrir mig. Dynjandi lófatak. Bjarni var þarna kominn í talsverðan ham, enda þjóðþrifamál. Hann lofaði frekari skattalækkunum, þar á meðal að hætta að taka virðisaukaskatt af bókum. Þar er að minnsta kosti eitthvað sem við BB erum sammála um.
Hann ræddi einnig að mikilvægt væri að halda innviðum samfélagsins gangandi. Það væri Sjálfstæðisstefnan í framkvæmd. Jón Kristinn Snæhólm sagði upphátt „heyr, heyr“ og klappaði hátt og snjallt. Ég tók eftir því að nokkrir ungsjallar voru búnir að spotta mig og skiptust á að pískra og flissa. Ekki nema tvær vikur síðan ég skrifaði pistil um það hversu sjúkur flokkurinn væri. Ég hafði í það minnsta ákveðna sérstöðu sem óvinsælasti fundargesturinn.
Aftur fór Bjarni í viðlíkinginguna um menn sem rugga bátum. Og aftur var hann að vísa í pólitíska andstæðinga sína. Þeir væru að taka upp mál og búa til vesen þar sem ekkert tilefni væri til, til þess eins að vinna sér inn vinsældir. Þeir væru eins og skipstjóri sem ruggaði bátnum til að sýna hvað hann væri mikill karl. Kannski er það bara af því sjómennska er það starf sem ég hef mest stundað, en svakalega er þessi viðlíking mikið drasl.
Hann fór svo að tala um hversu mikils skilning hann nyti hjá fjölskyldu sinni. Ég hélt hann væri að vísa í það þegar hann lét konuna sína taka skellinn fyrir sig er upplýstist um þá fyrri af tveimur framhjáhaldssíðum sem Bjarni hefur verið gripinn við að vera skráður á. En nei. Dóttir Bjarna er að fermast um helgina og hann var búinn að gleyma því. Takk pabbi.
Loksins hætti hann að tala og sagði fundinn settann. Standandi lófaklapp. Mr. Blue Sky með ELO blastað í kerfinu. Svo flóð af fólki. Jakkaföt, ilmvötn, bláar skyrtur, grá hár, meitlaðir kjálkar, pússaðir skór, bóner í góðærinu. Á meðan ég gekk út gerði ég alveg eins ráð fyrir því að einhver sanntrúaður sýslumaður kæmi aftan að mér og setti á mig lögbann áður en ég fengi tækifæri til þess að skrifa þennan pistil. Ef þú ert að lesa þetta þá er ég enn á lífi. Eyþór Arnalds er með ræðu á sunnudaginn. Heyrumst þá.
Hey there mister blue
We're so pleased to be with you
Look around see what you do
Everybody smiles at you
Athugasemdir