Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Fékk viðurkenningu í gegnum kynlífsleiki eftir eineltið

Einelti, of­beldi og kyn­ferð­is­leg­ir leik­ir ein­kenndu barnæsku Sunnu Krist­ins­dótt­ur. Í þrá eft­ir við­ur­kenn­ingu fékk hún druslu­stimp­il og varð við­fang eldri drengja, sem voru dæmd­ir fyr­ir kyn­ferð­is­legt sam­neyti við barn. Hún ræð­ir um marka­leysi og þving­að sam­þykki, en hún gleym­ir aldrei þeg­ar henni var fyrst gef­ið færi á að segja nei.

„Mamma, strákarnir sögðu að ef ég myndi leyfa þeim að ríða mér þá mætti ég fara í tölvuna,“ klagaði hin barnunga Sunna Kristinsdóttir í móður sína. Strákarnir, sem voru á svipuðum aldri, höfðu ætlað að kenna Sunnu nýjan leik, að ríða, og ef hún tæki þátt fengi hún loksins að prófa leikjatölvuna. Yfirleitt fékk hún aðeins að sitja hjá og fylgjast með strákunum skjóta endurnar sem flugu yfir sjónvarpsskjáinn, eina stelpan í hópnum, og því spennandi að fá loksins að handleika appelsínugulu byssuna. Hún samþykkti því með semingi að prófa þennan nýja leik. Sunna man ekki ennþá hvað nákvæmlega fólst í leiknum, einungis að hún þurfti að fara úr öllum fötunum og strákarnir líka. Strákarnir sviku hins vegar loforðið um að leyfa henni að fara í tölvuna og þess vegna klagaði Sunna í mömmu sína, sem staðfestir það í samtali við Stundina. 

Viðbrögð móðurinnar  

„Hvað sagðirðu?“ öskraði móðir hennar af reiði og leit á dóttur sína, sem var nýbyrjuð í grunnskóla og hræddist ofsafengin viðbrögð móður sinnar. Strákarnir höfðu bannað henni að segja frá og hún þráði ekkert heitar en viðurkenningu frá þessum sömu strákum.

Mamma Sunnu rauk út úr húsi og yfir í næsta hús í þessu litla, afskekkta bæjarfélagi. Dóttir hennar hljóp á eftir henni og grátbað hana um að skamma ekki strákana. En mamma hennar lét ekki segjast. Hún óð inn á gólf til strákanna, skipaði þeim að standa upp úr sófanum og gyrða niður um sig buxurnar. „Ef þið gátuð verið berrassaðir fyrir framan Sunnu þá getið þið verið berrassaðir fyrir framan mig,“ sagði hún og bætti því við, þar sem þeir stóðu niðurlægðir fyrir framan hana, að svona skyldu þeir ekki haga sér framar. Sunna stóð þögul fyrir aftan móður sína og fylgdist óttaslegin með því sem fram fór.

„Þarna lærði ég að segja aldrei aftur frá“

„Þarna lærði ég að segja aldrei aftur frá,“ segir Sunna, en hún segir þetta fyrsta skipti aðeins hafa verið byrjunina á því sem síðar átti eftir að koma. „Leikirnir“ hafi haldið áfram næstu árin og þátttakendurnir orðið fleiri. Hún segir að í flestum tilvikum hafi hún verið viljugur þátttakandi í þessum leikjum, þó svo að hún hafi sjaldan átt frumkvæðið, enda sá hún þarna leið að langþráðri viðurkenningu í hópnum. Oftast hafi verið um óviðeigandi snertingar að ræða, en stundum hafi leikirnir gengið lengra. Það sem situr hins vegar mest í Sunnu eru þau skipti sem henni fannst hún hafa verið þvinguð til þess að taka þátt, þau skipti sem hún fann að svarið nei var ekki í boði.

 

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár