Það er jákvætt og uppbyggilegt þegar félagsmenn í stéttarfélögunum ákveða að hefja afskipti af kaupi og kjörum og öðrum málefnum launafólks. Stéttarfélög eru upphaflega stofnuð til að verja hagsmuni launafólks gegn valdi atvinnurekenda. Við sem störfum í verkalýðshreyfingunni megum aldrei gleyma þessu meginhlutverki. Nú þegar hópur fólks hefur ákveðið að reyna að steypa hluta stjórnar Eflingar-stéttarfélags, skulum við öll hafa það í huga að þessi réttur bæði til að greiða atkvæði um kjarasamninga og að velja sér forystu er helgur réttur í okkar huga. En verum þess einnig meðvituð að það fylgir því ábyrgð að bjóða fram í stéttarfélagi. Það er heldur enginn dans á rósum að leiða stéttarfélag og ná árangri.
Það eru mjög skýrir valkostir í stjórnarkjöri framundan í Eflingu-stéttarfélagi.
Við viljum kaupmátt – ekki bara krónur. A – listi stjórnar og trúnaðarráðs vill vinna áfram á grundvelli stöðugleika á sama hátt og gert er á hinum Norðurlöndunum, þar sem sótt er fram til kaupmáttar en ekki eingöngu launahækkana án trygginga fyrir því að þær haldist sem leið til betri kjara. Stöðugleiki í okkar huga er ekki bara stöðugleiki í verðlagi og launum, heldur einnig félagslegt öryggi fólks sem þýðir öryggisnet fyrir okkur í menntun, heilbrigðismálum og réttinum til mannsæmandi lífs. Ef þetta öryggisnet er rifið niður, þá fara kjörin okkar líka um leið niður.
Burt með Sósíalistaflokkinn – burt með afskipti annarra forystumanna. A-listi stjórnar hafnar því að stjórnmálaflokkur fari með forystu fyrir kjarabaráttu félagsfólks Eflingar og hann mun ekki sætta sig við að forystumenn annarra stéttarfélaga hlutist til um stefnu Eflingar-stéttarfélags í kjarabaráttu félagsins. Þetta er brot á öllum siðalögmálum sem hafa verið óskráð lög stéttarfélaganna innan ASÍ hingað til. A-listinn krefst þess að önnur stéttarfélög virði sjálfsákvörðunarrétt Eflingar til að velja sér sína eigin forystu. Hann fordæmir flokkspólitísk afskifti Sósíalistaflokks Íslands af kosningum í Eflingu-stéttarfélagi.
Við mótum kröfurnar með fólkinu. Í kjaramálum hefur Efling-stéttarfélag unnið eftir faglegum könnunum sem sýna vilja félagsmanna í hnotskurn. Þar fyrir utan eru kröfur félagsins fyrst og síðast mótaðar á fundum með félagsmönnum. Fundað er með hópum í einstökum atvinnugreinum, störfum og fyrirtækjum. Alltaf er þess gætt að fulltrúar félagsmanna séu leiðandi í þessu starfi. Síðan er það samninganefnd félagsins sem mótar endanlega stefnu í launa- og samningamálum. Allt tal um að fulltrúar fólksins í félaginu komi ekki að samningagerð er úr lausu lofti gripið eða byggist á skoðunum þeirra sem hafa aldrei komið að samningum Eflingar.
Húsnæðismálin mikilvægust ásamt launamálum. Húsnæðismálin eru stærsta málið fyrir utan launamálin sem stéttarfélögin hafa barist fyrir á undanförnum árum. Þar hefur Efling átt frumkvæði með öðrum stéttarfélögum að byggingu 2300 leiguíbúða þar sem miðað er við að launafólk geti fengið íbúðir á leigu á viðráðanlegum kjörum. Hér hefur Efling verið í forystu, lagt fram fé og mikla vinnu í að kynna þetta stórmál sem nú er komið á framkvæmdastig.
Jafnræði milli íslenskra og erlendra launamanna. Allar tölur um greiðslur eða þátttöku íslenskra félagsmanna eða félagsmanna af erlendum uppruna sýna að jafnræði er meðal innlendra og erlendra félagsmanna í starfi Eflingar, hvort sem litið er til sjúkrasjóða, fræðslumála eða í nýtingu orlofshúsa. Þá sýna kröfumál á hendur atvinnurekendum að erlendir félagsmenn eru mjög duglegir að leita sér aðstoðar hjá félaginu í kjaramálum. Af öllum kröfumálum á síðasta ári áttu þeir tvo þriðju hluta af kröfum á hendur atvinnurekendum. Allar þessar tölur sýna svart á hvítu að enginn fótur er fyrir því að Efling-stéttarfélag sinni ekki erlendum félagsmönnum af fullum þunga. Ekki trúa því að Efling vinni þannig.
Alltaf barist mest fyrir fólkið á lægstu kjörunum. Efling-stéttarfélag hefur frá stofnun félagsins barist hart fyrir kjörum lægst launuðu hópanna innan félagsins. Fólki sem starfar m.a. í umönnunarstéttum og ræstingu. Kjarasamning eftir kjarasamning höfum við lagt áherslu á þennan hóp. Það svíður undan því þegar okkur er borið á brýn að hafa ekki unnið fyrir þá sem eru á lægstu kjörum í félaginu. Sannleikurinn er sá að þeir sem hafa unnið mest gegn þessum hópum eru atvinnurekendur sem hafa rýrt kjör þeirra með stofnun fyrirtækja þar sem kjörum starfsfólks er markvisst haldið niðri. Þá hafa stjórnvöld með stöðugri lækkun vaxtabóta, barnabóta og húsnæðisbóta auk þess sem skattleysismörk og grimm skattlagning lægstu tekna eiga drýgstan þátt í því að þessir hópar hafa farið illa út úr launaþróun síðustu ára og áratuga.
Málflutningur okkar byggist á staðreyndum – ekki staðleysum. Það er skiljanlegt markmið frambjóðanda sem bjóða fram gegn lista stjórnar og trúnaðaráðs að ganga langt í gagnrýni á stjórnina. En allur málflutningur í baráttunni þarf að byggjast á málefnalegum grundvelli þar sem stuðst er við staðreyndir en ekki staðleysur.
Reynt fólk sem hefur reynst vel. Ég vil skora á félagsmenn Eflingar að skoða þessa skýru kosti sem nú eru í boði. A-listinn stendur fyrir uppbyggingu félagsins með traustu fólki sem hefur reynst félaginu vel. Forysta félagsins er ekkert annað en fólkið sjálft. Ég vil hvetja félagsmenn til að kynna sér vel málefnin sem tekist er á um. Ef þeir gera það efast ég ekki um að þeir munu velja áfram styrka og öfluga stjórn Eflingar með A-listann í forystu félagsins.
Ragnar Ólason er frambjóðandi til gjaldkera A-listans. Hann hefur verið félagsmaður Eflingar síðan 1984.
Ragnar var trúnaðarmaður vörubílstjóra Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar og aðaltrúnaðarmaður Eflingar hjá borginni þangað til hann hóf störf á skrifstofu félagsins árið 2006.
Athugasemdir