Helstu rökin fyrir einkavæðingu og úthýsingu verkefna sem eru á hendi hins opinbera hafa yfirleitt verið þau að einkarekstur sé hagkvæmari. Þessi fullyrðing, sem jaðrar við trúarsetningu hjá mörgum, hefur verið notuð til þess að réttlæta að einkafyrirtæki hafa fengið að sinna almannaþjónustu í auknum mæli.
Reynslan sýnir að árangurinn er engan veginn jafn afgerandi og trúarsetningin gefur til kynna. Þvert á móti. Einkavæðing heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð hefur til dæmis leitt til verri og dýrari þjónustu, meðan peningamenn græða og safna sjóðum í skattaskjólum.
Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði höfum alltaf hafnað þessari hugmyndafræði. Við höfum barist gegn einkavæðingu og úthýsingu á þjónustu ríkis og borgar og barist fyrir því að undið sé ofan af einkavæðingu sem hefur átt sér stað. Reynslan sýnir að þegar við samfélagsvæðum grunnþjónustu sem hefur áður verið sinnt af einkafyrirtækjum skilar það bæði ódýrari og betri þjónustu.
Matarþjónusta er mikilvæg þjónusta
Nú nýlega samþykkti Velferðarráð Reykjavíkurborgar að borgin tæki yfir heimsendingu matar í heimahús og móttökueldhús borgarinnar. Á síðustu árum hefur útkeyrsla og heimsending matarins verið sinnt af einkafyrirtæki í útboði.
Matarþjónusta er mikilvæg þjónusta fyrir eldri borgara og fatlað fólk sem getur ekki eldað sjálft. Á síðasta ári eldaði framleiðslueldhús borgarinnar á Lindargötu alls 98.085 matarskammta fyrir 851 notendur. Velferðarsvið mun fjárfesta í þremur bílum, þar af tveimur rafmagnsbílum og ráða til sín starfsfólk til að sinna þessarri þjónustu.
Betri þjónusta við viðkvæma hópa
Heimsending matar krefst bæði nærgætni og aðgæslu. Sá sem kemur með matinn þarf í mörgum tilfellum að fara inn á heimili fólks sem er í mjög viðkvæmri stöðu. Með því að gera heimsendingu matar hluta af þjónustu Reykjavíkurborgar, í stað þess að hún sé á hendi einkaaðila, aukast möguleikar á eftirliti og auðveldara verður að bregðast við athugasemdum notenda.
„Þjónustan batnar ekki bara, heldur lækkar kostnaður einnig.“
Með því að framreiðslueldhúsið sjái um heimsendingu og útkeyrslu skapast líka möguleikar á samvinnu við heimaþjónustu og heimahjúkrun borgarinnar. Þannig má nýta heimsendingu matar til þess að líta til með fötluðu og öldruðu fólki sem þarf á aðstoð að halda.
Meiri samfella verður í þjónustunni, gæði henna aukast, yfirsýn verður betri og eftirfylgni við notendur eykst. Reksturinn verður heildstæðari þar sem allt ferlið lýtur sömu stjórn. Þjónustan batnar ekki bara, heldur lækkar kostnaður einnig.
Sparnaður verður nýttur til að bæta þjónustuna
Velferðarsvið Reykjavíkur hefur reiknað út að verulegur sparnaður felist í því að borgin sinni allri þjónustukeðjunni sjálf. Eftir að stofnkostnaður hefur verið greiddur er hagræðingin áætluð 19,3 milljónir króna á ári.
Sá sparnaður mun að fullu fara til þess að bæta þjónustu framleiðslueldhúss Reykjavíkurborgar. Matreiðslumaður verður ráðinn til að vinna meira hráefni frá grunni og lágmarka innkaup borgarinnar á tilbúnum mat. Þannig aukast gæði og fjölbreytni matarins.
Eflum félagslega rekna grunnþjónustu
Markmið velferðarþjónustu á ekki að vera gróði heldur þjónusta við notendur. Fjármunir sem hið opinbera veitir í slíka þjónustu eiga allir að fara í þjónustuna sjálfa, ekki í arðgreiðsur í vasa eigenda gróðardrifinna fyrirækja.
Í dag fer enn talsverður arður til eigenda ýmissa fyritækja í heilbrigðis-og velferðarþjónustu. Það er mikilvægt að við komum böndum á þær arðgreiðslur áður en við lendum í sömu ógöngum og Svíar þar sem hið opinbera greiðir milljarða í arð til einkarekinna gróðafyritækja í velferðarþjónustu.
Meðan einkafyrirtæki fá að reka grunnþjónustu í heilbrigðis- og velferðarmála er hins vegar mikilvægt að stjórnvöld komi böndum á arðgreiðslur þessara fyrirtækja. Mikilvæg skref í þá átt voru tekin í ríkisstjórnartíð Vinstri grænna og Samfylkingar þegar bönd voru sett á arðgreiðslur einkarekinna skóla.
Heilbrigðis-og velferðarþjónusta er mikilvæg grunnþjónusta sem ætti að reglu að vera á hendi opinberra aðila. Slíkt þarf að tryggja öllum til hagsbóta.
Athugasemdir