Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina stefna að hertum aðgerðum gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna, en jafnframt verði fíklum tryggð viðunandi meðferðarúrræði. Sjálf hafi hún lagt sérstaka áherslu á skaðaminnkun og telji það samræmast illa slíkum hugmyndum að það „varði fangelsisrefsingu að lögum að vera neytandi fíkniefna“.
Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem spurði hvort til stæði að breyta lögum um ávana- og fíkniefni á þá leið að afnema fangelsisrefsingu fyrir vörslu á neysluskömmtum. Vísar hann til slíkrar tillögu sem fram kom í skýrslu starfshóps um skaðaminnkun frá 2016.
„Í athugasemdum við nefnda tillögu að breytingum á lögum um ávana- og fíkniefni, sem varðar afnám fangelsisrefsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum, leggur starfshópurinn til að áður en ráðist verði í þær breytingar verði gert áhættumat á áhrifum þeirra og farið yfir reynslu þeirra þjóða sem farið hafa þessa leið,“ segir í svari Svandísar, sem hyggst setja af stað vinnu við gerð slíks áhættumats. „Mun ráðast af niðurstöðu þess hvort frumvarp til laga um breytingu á lögunum verði lagt fram.“
Hún bendir á að nú þegar sé hafin vinna við undirbúning að opnun neyslurýmis fyrir langt leidda vímuefnaneytendur. Þannig verði einstaklingum sem sprauta sig í æð tryggður aðgangur að hreinum sprautubúnaði, nálaskiptiþjónustu og gjaldfrjálsri grunnheilbrigðisþjónustu.
Athugasemdir